29.01.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

218. mál, búvöruverð

Iðnrh. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur borið fram fsp. til mín sem er í fjórum liðum og hann hefur gert grein fyrir.

Fyrsta spurningin er á þessa lund: „Á hvaða lagagrundvelli ákvað ríkisstj. að fresta gildistöku þess búvöruverðs, er Sexmannanefndin ákvað að ætti að taka gildi 1. des. s.l.?“

Þessu svara ég svo:

Í lögum um kjaramál, nr. 121/1978, í 7. gr., eru eftirfarandi ákvæði:

„Ekki má hækka verð vöru eða,þjónustu eða endurgjald fyrir afnot af fasteign eða lausafé frá því sem var 9. sept. 1978 nema að fengnu samþykki réttra yfirvalda, og skulu þau ekki leyfa neina hækkun nema þau telji hana óhjákvæmilega. Leyfi til hækkunar tekur þó ekki gildi fyrr en það hefur hlotið staðfestingu ríkisstj.

5. mgr. sömu greinar hljóðar svo:

Ríkisstj. getur ákveðið lækkun á verði vöru eða þjónustu telji hún til þess gilda ástæðu eða brýna nauðsyn.“

Þetta er svar mitt við fyrstu spurningunni, að ríkisstj. hefur tvímælalaust heimild til að fresta gildistöku í þessu tilfelli eða hafna.

Önnur spurning hljóðar svo: „Telur ríkisstj., að hún hafi haft lagalegan rétt til að heimila, að hluti af verðákvörðun Sexmannanefndar komi til framkvæmda 12. þ. m.“ — þ.e. 12. des. — „en synja framkvæmd hluta af verðbreytingunni?“

Svar: Á grundvelli fyrrnefndra lagaákvæða hefur verið skylt að leita staðfestingar ríkisstj. á verðákvörðunum þar til bærra verðlagsyfirvalda áður en þær hafa getað komið til framkvæmda. Þetta á jafnt við um verðákvörðun á landbúnaðarafurðum og verð á vöru og þjónustu sem breytingum hefur tekið. Það hefur jafnframt verið túlkun manna á þessum lagaákvæðum, að ríkisstj. væri ekki heimilt að breyta verðákvörðunum viðkomandi verðlagsyfirvalds, en eingöngu að staðfesta eða hafna. Þetta kom m.a. fram við verðákvörðun á búvörum í sept. s.l., þegar þáv. ríkisstj. ákvað að fresta gildistöku nýrrar verðlagningar á meðan málin voru í umfjöllun hjá ríkisstj. Það fordæmi og að ríkisstj. heimilaði ekki hækkun á vinnslu- og heildsölukostnaði á mjólk og smásöluálagningu á búvöru í júlímánuði s.l., sem taka átti gildi samkv. verðákvörðun Sexmannanefndarinnar vegna 3% almennrar grunnkaupshækkunar, tekur af allan vafa um rétt ríkisstj. til hliðstæðra aðgerða í des. s.l. Þá ákvað ríkisstj., svo sem kunnugt er, að leyfa hækkun á verði til bænda samkv. ákvörðun Sexmannanefndarinnar, en jafnframt að heimila ekki á sama tíma hækkun á vinnslu- og heildsölukostnaði á mjólk, pökkunar- og heildsölukostnaði á kartöflum og smásöluálagningu á búvörum.

Samkv. lögum nr. 101/1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarafurðum o.fl. ákveður Sexmannanefnd eftirfarandi verð á landbúnaðarafurðum: Grundvallarverð til bænda, heildsöluverð, smásöluverð. Samkv. þessum lögum má breyta grundvallarverði til bænda ársfjórðungslega, eða 1. sept., 1. des., 1. mars og 1. júní ár hvert. Hins vegar má breyta heildsölu- og smásöluverði vegna breytinga á vinnslu- og dreifingarkostnaði ótímabundið vegna breytinga á kostnaði við þessa liði. Á því byggist beiðni Framleiðsluráðs landbúnaðarins um að hækka verð í heildsölu og smásölu á s.l. sumri, sem ríkisstj. veitti ekki heimild til. Það tekur af allan vafa um rétt ríkisstj. nú um að hafna verðhækkun á sömu liðum, en í þess stað að veita leyfi til hækkunar á grundvallarverði til bænda.

Þriðja spurning: „Fellur ekki sá hluti, sem synjað var, undir þær verðbreytingar, sem heimilar eru samkv. samþykkt ríkisstj. 17. þ. m.“ — þ.e. 17. des. — „Þar sem þær eru að mestum hluta vegna launabreytinga?“

Svar: Ríkisstj. lítur svo á að ákvörðun hennar um búvöruverð tekin í des. gildi án tillits til 9% reglunnar. Fjórða spurning: „Hve hárri fjárhæð launa sinna tapa bændur vegna umræddrar frestunar, eða ætlar ríkisstj. að bæta bændum tapið og þá hvenær?“

Það hefur ekki verið gerður útreikningur á hvaða tölum frestun búvöruverðshækkananna í des. s.l. nemur. Sá dráttur, sem varð á búvöruverðshækkun til bænda í des. s.l., var 12 dagar. Frestur á verðhækkunum í sept. s.l. var 17 dagar. Tekjuminnkun bænda í hvoru þessara tilvika vegna dráttar á framkvæmd verðlagningarinnar hlýtur að vera áætlun sem niðurstaða ræðst út frá á þeim forsendum sem gefnar eru, t.d. eins og hvort heildsöluaðilarnir eiga að taka á sig lakari fjárhagsafkomu eða hvort þeir geti látið bændur bera fulla ábyrgð á rekstrinum ef endar ná ekki saman á tekjum á gjöldum á árinu. Ákvörðun um að bæta bændum upp frestun hækkunar á búvöruverði 12 daga í des. s.l. hefur ekki verið tekin. Rétt er að taka fram, að fyrrv. ríkisstj. hafði heldur enga ákvörðun tekið varðandi 17 daga frest í sept. og lögfestur bótaréttur mun ekki til.