05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

43. mál, happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Vorið 1975 náðist samstaða hér á hinu háa Alþingi um að afgreiða lög um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg og Austurveg. Frv. hafði þá verið flutt um happdrættislán vegna Norðurvegar, þ.e. vegarins milli Reykjavíkur og Akureyrar, sem miðaði að því að fullgera þann veg á 4–5 árum, en samkomulag varð sem sagt um að þessi lög tækju einnig til Austurvegar. Þeim, sem á þingi voru á þessum árum, er kunnugt um gang mála. Skuldabréfin voru aldrei boðin út í nægilega ríkum mæli. Síðan urðu kjör á þessum bréfum ekki sambærileg við kjör á öðrum bréfum, þannig að þau seldust miður en ella og mjög lítið raunar. Þar að auki voru teknir af þessu fjármagni peningar m.a. í Borgarfjarðarbrú, en þó með yfirlýsingu um að þeir yrðu síðar endurgreiddir. En þessi lög sem sagt náðu ekki tilgangi sínum, a.m.k. ekki að fullu.

Þess vegna varð um það fullt samkomulag hér á þingi s.l. vor að breyta þessum lögum og auka heimildir til útgáfu skuldabréfanna upp í 2 milljarða á ári næstu árin, og ég vissi ekki betur a.m.k. en það væri hugmynd þáverandi ríkisstj. að framkvæma þessi lög og afla þessa fjár. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hvað líði framkvæmd laga frá 14. maí 1979, um happdrættislán vegna framkvæmda við Norðurveg og Austurveg.