05.02.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

43. mál, happdrættislán vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að upplýsa, að í tíð ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar var af hálfu samgn. unnið að því að koma þessu máli fram og undirbúningur að sölu þessara skuldabréfa var í fullum gangi með viðræðum fulltrúa Seðlabanka Íslands, fjmrn. og samgrn. Á s.l. hausti hafði verið ákveðið að hefja sölu á þessum skuldabréfum að nýju í nóvembermánuði á s.l. ári, með þó að vísu nokkuð breyttu fyrirkomulagi, og var gert ráð fyrir því, að í fyrstu yrði skuldabréfaútgáfan að upphæð 300 millj. kr. Fjmrn. hafði farið fram á það við Seðlabankann, að tekið yrði bráðabirgðalán að upphæð 300 millj. kr. sem greiddist af andvirði seldra bréfa.

Staðhæft hefur verið að sala þessara bréfa hafi stöðvast á sínum tíma, fyrir tveimur árum, vegna þess að bréfin hafi ekki reynst seljanleg eða ekki selst í þeim mæli sem vænst var, og þess vegna hefur engin sölutilraun verið gerð í tvö ár. Ég tel að þá heimild, sem hér er um að ræða, beri tvímælalaust að nota. Það má vera að óhjákvæmilegt sé að breyta nokkuð til í sambandi við fyrirkomulag og útgáfu þessara bréfa, og ég held að allir aðilar, sem um þetta hafa rætt, séu sammála um það. Að því var stefnt þegar málið var í undirbúningi á s.l. hausti. Vafalaust þarf meiri sölustarfsemi, meiri auglýsingastarfsemi í þessu sambandi heldur en viðhöfð var þegar bréfin voru til sölu á sínum tíma.

Ég tel að ef sú stjórn, sem vann að undirbúningi þessa máls, hefði setið áfram, þá hefði orðið af skuldabréfaútgáfu í nóv. s.l. En vegna stjórnarslita og kosninga og annarrar óvissu, sem verið hefur seinasta mánuðinn, virðist þetta ekki hafa komist í framkvæmd. Ég fagna því hins vegar, að áform eru uppi um að hefja útgáfu þessara skuldabréfa á þessu ári.