21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hv. þdm. og raunar þm. allir hafa síðustu klukkutímana orðið varir við og fylgst með næsta óvanalegum vinnubrögðum í hinu háa Alþingi, en þó ekki einstæðum. Þannig er mál með vexti, að mikill meiri hluti þingsins hefur lýst yfir að hann sé reiðubúinn að afgreiða það mikilvæga mál sem hér er til umr. áður en menn fari í frí. Að því er Sjálfstfl. varðar hefur verið gerð um það flokkssamþykkt að gera allt sem í hans valdi stendur til að greiða fyrir framgangi þessa máls, og í morgun samþ. við fjh.- og viðskn.-menn Sjálfstfl. þá brtt. sem fram kom frá formanni nefndarinnar. Sérstaklega var að því spurt, hvort ekki væri samkomulag í ríkisstj. um þá breytingu. Upplýst var að samband hefði verið haft við formann Framsfl., hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. og þess vegna bæri að líta svo á að þetta væri mál ríkisstj. Við samþ. þessa brtt. og raunar aftur breyt. á henni og skrifuðum upp á nál. fyrirvaralaust.

Önnur brtt. kom fram frá formanni nefndarinnar í gær. Hún var um það, að einungis skyldi heimilt að taka innlent lán. Við studdum það, enda væri miklu eðlilegra að taka til þessa innlent lán en erlent, þó að vissulega megi kannske segja að menn eigi að horfast í augu við raunveruleikann, þegar svona erfiðleikar steðja að, og finna a.m.k. að einhverju leyti aðrar leiðir, þ.e. að ríkissjóður sjálfur axli slíkar byrðar. En um þetta má auðvitað endalaust deila. En formaður nefndarinnar, sjálfsagt til sátta við einhverja innan eigin flokks eða við einhvern í hinum stjórnarflokknum, Framsfl., tók svo aftur til baka þessa till. og hélt því opnu að taka mætti erlent lán. Við sjálfstæðismenn samþ. það og höfum líka flokksfyrirmæli um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að þetta mál nái fram að ganga áður en þm. fara í frí.

En þá er það að hæstv. viðskrh. varpar hér fram brtt., að mér skilst að meðráðh. og formanni fjh.- og viðskn. a.m.k. forspurðum, án þess að þeir hafi hugmynd um það, og vill breyta því sem samkomulag var orðið um. Þá upphefst hér, eins og menn urðu varir við, mikill gauragangur meðal ráðh. og ráðamanna í stjórnarflokkunum, þannig að jafnvel voru köll á milli manna, og engum þm. gat dulist að nú var stjórnarherrunum mikið niðri fyrir og hver deildi þar við annan.

Þá berast þau tíðindi, að það eigi að slíta fundi í hv. Ed. án þess að málið fáist rætt. Ég tilkynnti þá forseta deildarinnar að ég mundi kveðja mér hljóðs um dagskrá og krefjast þess, að staðið yrði við það, sem okkur hefur verið sagt, sjálfstæðismönnum, og ég held öllum þm., að þetta mál ætti að afgreiða frá Alþ. áður en þinghlé yrði gert. Það næsta, sem gerist, er að hæstv. viðskrh. dregur til baka till. sína, en undirstrikar að hann beri hana til baka að sinni. Málið er sem sagt ekki leyst. Það á að vinna sér einhvern gálgafrest eða tefja málið eins lengi og unnt er. Og það næsta sem gerist við þetta er að látið er berast út að Nd. ætli alls ekki að taka málið fyrir þó að við afgreiðum það nú hér á stundinni, það eigi bara að drepa það þar eða alls ekki að taka það á dagskrá. Ekki trúi ég að þetta sé satt, en þó er boðaður fundur í Sþ. kl. 17.00 og kannske á þar að ákveða þingfrestun.

Ég sagði áðan að þetta væru mjög óvanaleg vinnubrögð, og þau eru það í hæsta máta og mjög vítaverð. A.m.k. verðum við stjórnarandstöðumenn, að líta svo á, sem höfum gert um það flokkssamþykkt að greiða fyrir þessu máli með öllum ráðum, og við erum reiðubúnir að sitja hér í alla nótt og allan daginn á morgun og alla helgina, ef svo langan tíma tekur að sætta stjórnarliðið.

En þó þetta séu óvanaleg vinnubrögð eru þau ekki einstæð. Nákvæmlega sama gerðist í fyrravor í nákvæmlega sama málinu. Sjálfstæðismenn höfðu þá flutt till. um að þessir 3 milljarðar yrðu greiddir bændum. Hún var felld af stjórnarliðinu í heild og það með hlátrasköllum. Síðan, þegar reynt var að koma fram annarri till. sem stjórnarliðar þóttust standa að, er málinu forklúðrað vísvitandi og það fæst ekki tekið á dagskrá á lokadögum þingsins. Síðan skjóta menn sér bak við að hér hafi verið það sem kallað er útganga. Og það hefur verið rangtúlkað svo að með ólíkindum er að menn skuli ekki enn í dag vita hvað þar gerðist.

Það, sem gerðist, var að forseti Nd. beitti alvitlausum úrskurðum og þm., hver um annan þveran, mótmæltu ýmist úr sætum sínum eða úr ræðupúlti, raunar eftir að atkvgr. hafði farið fram, og þá segir forseti Nd., Ingvar Gíslason, með leyfi forseta, orðrétt:

„Ég vil enn endurtaka það, að ég tel að þessi atkvgr. hafi farið rétt fram og að þessi till. geti staðist alveg sjálfstætt, eins og ég hef hér lýst og borið mig saman við kunnáttumann á vegum þingsins í því efni. Ég tel að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta fari saman, og ég mótmæli því, að hér hafi nokkur bolabrögð verið höfð í frammi eða að ég hafi á nokkurn hátt staðið óeðlilega að þessari atkvgr. Hv. þd. hefur með þátttöku sinni í atkvgr. staðfest það, sem ég hef hér gert, og ákveðið sjálf hvernig fara skuli með.“

Þá stóðu þm. upp til mótmæla. Ég á ekki sæti í Nd., en ég heyrði, að eitthvað var að gerast, og fór í dyrnar og hlustaði á þessi orð. Hann rak mennina út. Það var enginn kominn til með að segja hvort þeir yrðu eina mínútu eða tvær, en málið var tekið af dagskrá og fékkst aldrei tekið fyrir aftur. Nákvæmlega það sama er að gerast hér núna og þó enn þá meira áberandi.

Ég trúi því að vísu ekki að þessi dagur endi svo, eða morgundagurinn, að menn heykist ekki á þeim bolabrögðum sem hér er verið að reyna að fremja. Og ég þekki þá illa hæstv. landbrh. ef hann lætur b jóða sér það. Hann hefur fyllsta stuðning hvers einasta manns í Sjálfstfl. til að láta þetta ekki gerast.

Það er búið að draga það í kringum eitt ár að bændur fái þessa 3 milljarða, sem 5/6 hlutar þingsins alla vega hafa lýst yfir að þeir telji þá eiga. Og hvað eru þessir 3 milljarðar í fyrra orðnir mikið núna? Kannske í kringum 1.5 milljarða eða eitthvað slíkt. Og þá fæst ekki einu sinni afgreiddur þessi helmingur af því sem bændur áttu rétt á og eiga rétt á. Þó fóru þeir ekki fram á nema um það bil 2/3 af því tjóni sem þeir höfðu orðið fyrir. Það eru laun bóndans í landinu, sem svona er farið með, og Alþ. ætlar að halda þessu áfram. Mér skilst að það liggi fyrir. Ég mótmæli því og mun gera það áfram og Sjálfstfl. í heild. Menn eru ekkert of góðir til að sitja hér fram eftir kvöldi og fram á nótt og reyna að ná sáttum í þessari vandræðastjórn, þessari uppákomu, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson réttilega nefnir þetta stjórnar — ja, hvað eigum við að segja? — sleppum seinni hluta orðsins.

Þó mig langi til að ræða mjög margt efnislega um þetta ætla ég einungis að ræða hér þessi formsatriði, vegna þess að þau eru vissulega svo alvarlegs eðlis að við það verður ekki unað. Svona vinnubrögð geta með engu móti gengið.

Ég sagði áðan að peningarnir væru kannske ekki nema helmingurinn af því sem bændur áttu að fá í fyrra. Þeir verða að fá þetta fé og þeir verða að fá það strax. Og það er mikils virði að það verði bændur sem fái þetta fé, en það stöðvist ekki svo og svo lengi í verslunarfyrirtækjum, eins og er með fjármuni bændastéttarinnar í mjög ríkum mæli. Það er ánægjuefni að nú situr í sæti landbrh. maður sem stóð að till. um beinar greiðslur til bænda. Ég veit að hann mun fylgja því máli fram að láta ekki lengur viðgangast að þeir fjármunir, sem bændur eiga, brenni upp í verðbólgu vegna þess að þeir eru frystir inni í Sambandi ísl. samvinnufélaga og notaðir til að byggja verslunarhallir í Reykjavík og til margháttaðs brasks. Það er ánægjuefni að við skulum nú hafa landbrh. sem hugsar fyrst og fremst um landbúnaðinn, en ekki einhverja aðra hagsmuni óskylda bændum. Ég lýsi fyllsta trausti á störf hans, og við sjálfstæðismenn munum reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja þann mann þótt við styðjum að sjálfsögðu ekki uppákomuna, ríkisstj.