21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. — Ég ætla ekki að fara að ræða landbúnaðarmálin efnislega núna og raunar ekki formhlið þessa máls eða það sem virðist vera að gerast hér núna. Hv. 5. landsk. þm. hefur gert það. En mér þykir ekki nægilegt fyrir þessa hv. deild að heyra einhvern ávæning um það sem sagt er að hafi gerst áðan á göngum í þinghúsinu. Mér finnst að þessi deild þurfi að fá skýringar á því hvað veldur, ef nú á að fresta afgreiðslu þessa máls. Ég veit ekki betur en ég og aðrir nm. í hv. fjh.- og viðskn. höfum legið undir þrýstingi, ef svo mætti segja, til að ljúka afgreiðslu þessa máls frá nefndinni, við höfum lagt okkur fram um að fá sem mesta samstöðu um málið, og það hefur verið sagt við okkur fram að þessu að málið eigi að afgreiða áður en gert verður þinghlé. — Ég læt mér ekki nægja að heyra einhvern ávæning um það sem menn kunna að segja um þessi efni hér á göngunum. Ég ætlast til þess að hv. deild verði sýnd sú tillitssemi að seg,ja henni hvað veldur þessari breytingu, ef um breytingu er að ræða.

Hæstv. landbrh. talaði hér áðan. Ég gat ekki merkt af orðum hans að það væri endanlega ákveðið að fresta afgreiðstu þessa máls núna. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri erfitt að koma málinu fram, en í orðum hans fólst ekki að frestun væri endanlega ákveðin. Hann lauk ræðu sinni með því að segja að hann skoraði á hv. deild að ljúka afgreiðslu þessa máls sem fyrst. Hvað þýðir þetta? Ég vil leggja þann skilning í þetta, að hæstv. landbrh. óski eftir að málið verði núna afgreitt. Ég get ekki lagt annan skilning í það. Hann leiðréttir það ef svo er ekki.

En ég vil leyfa mér að fara fram á það, ef hæstv. landbrh. gefur ekki skýringu á þessu, að þá geri það einhver úr ríkisstj. (Gripið fram í.) Nú sé ég að hæstv. forsrh. gengur í salinn. Mér finnst að nauðsynlegt sé að það séu tekin af öll tvímæli um hvað á að gerast hér og ef á að fresta þessu máli, hvers vegna. Eftir hvers ósk er það að fresta á þessu máli? Ég vænti þess að hæstv. forsrh. gefi skýringar á þessu.