21.02.1980
Efri deild: 43. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég hélt að það hefði ekki farið fram hjá neinum alþm., að ríkisstj. hefur óskað eftir að nokkurt hlé yrði á fundum Alþingis. Það hefur verið gert ráð fyrir hálfs mánaðar hléi. Að vísu kemur ein vika þar af sjálfu sér, þar sem er Norðurlandaráðsþing sem haldið verður 3.–7. mars. Það hefur verið föst venja, þegar það þing er háð hér í Reykjavík, að fundir Alþingis falla niður þá daga. Það sama verður að gerast nú þegar af þeirri ástæðu að Norðurlandaráð þarf á húsakynnum Alþingis að halda.

Ástæðan til þess, að ríkisstj. hefur farið fram á nokkurt hlé á fundum þingsins umfram þá vikufrestun sem stafar af Norðurlandaráðsþingi, er sú, að hún telur þörf á því að fá tíma og næði að undirbúa viss mál. Er það auðvitað fyrst og fremst fjárlagafrv. og mál sem standa í sambandi við það. Þetta ætti engum að koma á óvart. Slíkt hefur verið gert áður, þegar ríkisstj. hefur tekið við á miðjum þingtíma eða miðjum vetri, og þarf ekki frekari skýringa við.

Ætlunin var hins vegar, þegar óskað var eftir þinghléi, að tvö mál yrðu afgreidd áður en til þess kæmi. Annað var frv. um breytingar á skattalögum frá 1978, og það er þegar afgreitt frá Alþingi. Hitt er það frv. sem hér liggur fyrir.

Nú er komið í ljós, að í þessari hv. deild og þeirri nefnd, sem fjallað hefur um málið, er verulegur ágreiningur og ekki líkur til annars en að miklar umr. verði hér um málið og þá ekki síður í Nd. Það er því nokkuð ljóst að hæpið er að þetta frv. gæti náð afgreiðslu í Alþ. fyrr en eftir helgi eða einhvern títna í næstu viku.

Þessi er ástæðan til þess, að ekki þykir möguleiki á því, áður en til fyrirhugaðrar fundarfrestunar kæmi að ljúka þessu máli. Ég vænti þess, að þetta séu nægar skýringar á því sem spurt var um.