28.10.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

337. mál, málefni Flugleiða

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgrh. fyrir þá ágætu skýrslu sem hann hefur lagt hér fram á hinu háa Alþingi og fjallar um málefni Flugleiða. Það er nú svo komið, að umræðan um Flugleiðamálið er orðin svo ítarleg og svo nákvæm að þar hefur nánast allt verið sagt sem segja þarf. Engu að síður eru mörg atriði sem þarf að leggja mikla áherslu á, og benda verður á augljósar veilur í málflutningi þeirra manna sem hér á þingi hafa um málið fjallað.

Ég vil byrja á því að segja og lýsa þeirri skoðun minni, að vandamál Flugleiða draga mjög dám af þeim vanda sem almennt ríkir í flugheiminum í dag og þó einkum og sér í lagi á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf. Þar gerðist raunverulega tvennt í einu eftir að Carter Bandaríkjaforseti tók upp þá stefnu, sem hefur verið kennd við „open-skies“-stefnuna, að flugfargjöld á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf lækkuðu í sumum tilvikum mjög mikið, eins og gerðist t.d. hjá Laker-flugfélaginu og öðrum slíkum flugfélögum, og á sama tíma hækkaði olíuverð til mikilla muna og gerði allt flugið mjög erfitt. Það fór því ekki hjá því að þessi vandi mundi berast til okkar Íslendinga, og hér er hann og hann verður að leysa.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um gildi flugsins fyrir Íslendinga. Það þarf ekki heldur að fara mörgum orðum um það brautryðjendastarf sem forustumenn Flugleiða hafa unnið á undanförnum árum og áratugum. Þar hefur engin ríkisaðstoð komið til skjalanna nema bakábyrgðir ríkissjóðs fyrir lánum sem Flugleiðir hafa tekið. Ég minnist þess, að hæstv. samgrh. sagði við umr. hér í fyrri viku, að Norður-Atlantshafsflug Flugleiða hefði fært íslensku þjóðarbúi mikinn auð og sá auður yrði seint metinn til fjár. Þetta hlaut ég að skilja þannig, að hæstv. samgrh. mæti brautryðjendastarf Flugleiðamanna mjög mikils og hefði því reiknað dæmið svo, að það kæmi jöfnunarmerki þar á eftir og hann væri því tilbúinn til þess ásamt með öðrum hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. að styðja við bakið á þessu flugfélagi sem svo mikinn auð hefur fært í þjóðarbúið. Ég vona eindregið að svo sé. Ég vona jafnframt að álit núv. hæstv. samgrh. fái að ráða nokkru meira ferðinni í núv. hæstv. ríkisstj. en virðist vera þessa dagana.

Ég held — og held ekkert um það — að það sé orðin brýn þörf á stefnumótun í samgöngumálum og flugmálum okkar Íslendinga. Ég held að í þessu máli hafi verið meira deilt um keisarans skegg en það sem raunverulega skiptir máli, og það er nauðsyn flugsamgangna fyrir Íslendinga. Við gerum okkur öll grein fyrir því, að þessu flugi verður að halda áfram. Fram hjá því verður ekki komist ef við ætlum að kalla okkur lýðfrjálsa þjóð og ef við ætlum að reyna að myndast við að halda uppi því sjálfstæði sem við höfum státað af a.m.k. í skálaræðum.

Ég vil gera að umtalsefni afstöðu Alþb. til þessa máls — og ber nú vel í veiði þegar einn af helstu friðarpostulum þessa flokks gengur í salinn. (ÓRG: Passaðu bara að tala ekki af þér.) Ég óttast ekki mjög, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, að ég tali af mér. Ef ég geri það einu sinni mun hv. þm. gera það 10 sinnum á sama tíma.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að afstaða og framkoma Alþb. í þessu máli sé á þann veg, að það stefni að því að standa á rústum Flugleiða og stofna ríkisflugfélag. Þetta eru þau einföldu sannindi sem ég dreg af framkomu þeirra Alþb.-manna í Flugleiðamálinu almennt. Það er auðvitað stefna Alþb. að ríkisreka öll fyrirtæki sem einhvers eru megnug. Ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds talaði um þær miklu skattaálögur sem nú ætti að leggja á þjóðina til að veita Flugleiðum stuðning svo að félagið mætti fljúga á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf á milli Lúxemborgar annars vegar og New York og Chicago hins vegar. En skyldu menn hafa hugleitt hvaða skattaálögur á þjóðina mundu fylgja ríkisreknu flugfélagi, eða hafa Alþb.-menn gert það dæmi upp? Gerðu þeir það dæmi upp áður en þeir hófu herferð sína gegn Flugleiðum? Ég er hræddur um að þeir hafi ekki gert það. Og ég vil einnig minna á að það gæti kannske læðst sá grunur að einhverjum, að það væri einhverju öðru flugfélagi ætlað það hlutverk að taka við verkefni Flugleiða þegar Alþb.-menn standa á rústunum þar. A.m.k. virðist mér samspil hæstv. samgrh. og ákveðins Flugfélags hér á landi, sem heitir Iscargo, vera í þá veru að maður gæti dregið þessa ályktun með talsverðum rökum.

Ég minnist þess, að hæstv. samgrh. orðaði það svo, þegar hann var að verja leyfisveitingu til Iscargo á flugleiðinni Reykjavík-Amsterdam, að hann hefði, þegar hann átti sæti í flugráði, greitt atkv. með því að Arnarflug fengi flugleyfi á þessari leið, hann hefði verið einn um það. Hafi hann gert þetta í flugráði, þá spyr ég: Af hverju styður hann ekki, þegar hann er orðinn samgrh., þetta flugfélag og veitir því leyfi á þessari leið, Amsterdam-Reykjavík, en lætur þess í stað flugleyfið í hendur á tiltölulega nýju flugfélagi, sem hefur nánast engan flugflota, Iscargo?

Ég minnist líka þeirra orða hæstv. Alþb.-ráðh. Ragnars Arnalds við umr. á dögunum, þegar hann sagði að ef Flugleiðamenn héldu sig ekki á mottunni mundi ríkisstj. segja hingað og ekki lengra. (Gripið fram í.) Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. komi hér í stólinn á eftir og leiðrétti þá eigin ummæli. Ég er þeirrar skoðunar, að hlutverk hæstv. fjmrh. í þessu máli sé þess eðlis, að ef flug Flugleiða stöðvast nú endanlega, sem ýmsar líkur eru á að það geri, verði ábyrgðin býsna þung sem hann hefur tekið á sínar herðar. Ég vil í þessu sambandi spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvað allur sá dráttur, sem orðið hefur á aðstoð við Flugleiðir, á að þýða. Hvað um allar þær rannsóknir sem verið er að búa til, — sérfræðingar fengnir frá útlöndum til þess að gera athuganir á veðhæfni eigna Flugleiða og þar fram eftir götunum? (Gripið fram í: Er þm. andvígur því?) Þm. er andvígur því að draga aðstoð við Flugleiðir á langinn. Hann er andvígur því einfaldlega vegna þess, að ástand Flug:eiða er nú þess eðlis að þar horfir til algerrar stöðvunar. Ef fjmrh. er ekki kunnugt um þetta ætti hann að kynna sér málið. Skuld Flugleiða við Clearing House í London er að verða slík, að þar er verið að loka á félagið. Sama gildir um olíufélög. Og það er stór spurning, hvort Flugleiðir geta greitt laun um næstu mánaðamót. Ef fjmrh. er ekki kunnugt um þetta, þá ætti hann að hringja í Flugleiðir og spyrjast fyrir. (Gripið fram í.) Ég vænti þess fastlega, að hv. Alþb.-menn í Sþ. láti það vera að kalla fram í eins og dónar.

Ég vil einnig benda á það í sambandi við þá umr., sem hér hefur farið fram um bakábyrgðir og um stuðning og styrk við Flugleiðir á Norður-Atlantshafsflugleiðinni, að sú hugmynd er ekki komin frá Flugleiðamönnum sjálfum. Hún er komin frá hæstv. ríkisstj. Þegar stjórn Flugleiða tilkynnti það, að hún ætlaði að hætta Norður-Atlantshafsfluginu, var það ríkisstjórn Íslands sem bað hana um að draga í land og hætta við að hætta. Ég minnist þess ekki, að það hafi verið neinn annar sem hafi gert það. Þetta gerði stjórn Flugleiða vegna þess að hún treysti loforðum um stuðning og aðstoð. Þessi stuðningur og þessi aðstoð hefur verið dregin svo á langinn að starfi félagsins og flugsamgöngum Íslendinga er stefnt í mikinn voða.

Það er öllum mönnum ljóst, sem eitthvað hafa kynnt sér Flugleiðamálið, að þróun flugs á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf, hjá öllum félögum hvar í heiminum sem þau eru, hefur verið niður á við, sífellt aukinn tilkostnaður og stöðugt meiri erfiðleikar vegna mikillar samkeppni. Það er kannske vert að minnast á það, að eignir Flugleiða voru í árslok 1977 reiknaðar um 70 millj. dollara. Í lok ársins 1978 eru þær reiknaðar 76.6 millj. dollara og í lok ársins 1979 89 millj. dollara rösklega. Ég held að það muni koma í ljós, ef menn bera saman ýmsar tölur af þessu lagi, að eftir árið 1977 og þegar kemur fram á árið 1978 fara erfiðleikarnir að gera vart við sig. Á þessu er enginn vafi og ég get sagt það hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni til hróss, að hann vakti athygli á þessu, en það var lítið undir það tekið, því miður, og hefði hans mál gengið lengra fram hér á Alþ., þá hefði þessi sambandsskortur á milli ríkisstjórnar Íslands og Flugleiða ekki verið fyrir hendi, þá hefði vandinn orðið flestum augljósari fyrr en raun varð á.

Það er vert að geta þess, að árið 1977 er hagnaður Flugleiða á Norður-Atlantshafsflugleiðinni 1 millj. 169 þús dollarar. Þegar komið er að árinu 1979 og lokum þess, þá er tapið orðið 21 millj. dollara. Slík er breytingin á þessari flugleið. Hún er svo ótrúleg að það hlýtur að taka a.m.k. leikmenn talsverðan tíma að skilja það sem hefur verið að gerast.

Forráðamenn Flugleiða hafa vissulega viðurkennt að þeir hafi gert sér það ljóst, að að þessu stefndi. En þeir hafa bætt því við, að þeir bæðu hvern mann að setja sig í þeirra spor, þegar þeir stæðu gagnvart því og frammi fyrir því að þurfa að segja upp hundruðum manna og fella niður mikilvægar flugsamgöngur. Í sambandi við þá þróun, sem hefur orðið á þessari flugleið, er hægt að nefna margvíslegar tölur. Og tölur í þessu sambandi aftur í tímann segja vissulega sögu um þróun, en þær segja heldur enga aðra sögu. Ég vil minna á það, að fulltrúi ríkisstjórnar Íslands - eða ég vænti þess að hæstv. samgrh. sé fulltrúi hennar — kom á fund í Lúxemborg í mars á þessu ári, þ.e. dagana 24. og 25. mars s.l. Á þeim fundi er bókað eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Steingrímur tók undir óskir um árangursríkan fund, en lýsti síðan áhyggjum íslenskra stjórnvalda vegna erfiðleika félagsins, sem hefðu nú í athugun ýmsar leiðir til aðstoðar,“ þ.e. íslensk stjórnvöld. „Nefndi hann í því sambandi ríkisábyrgð að upphæð 5 millj. dollara, sem til greina kæmi að auka síðar,“ takið eftir: auka síðar, „niðurfellingu lendingargjalda í Keflavík fyrir árin 1979–1981, athugun á lækkun annarra útgjalda á Vellinum og viðræður sem hafnar væru við varnarliðið um aukna flutninga á farþegum og vörum á þess vegum.“

Ég vil aðeins spyrja hæstv. samgrh., af hverju svona seint er staðið við loforð sem gefin voru í marsmánuði s.l. eða fyrir sjö mánuðum.

Í þessari fundargerð segir einnig, með leyfi hæstv. forseta:

„Steingrímur ítrekaði vilja íslenskra stjórnvalda til aðstoðar og rakti aftur hvaða leiðir væru þar færar, sem mundu bráðlega hljóta lokaafgreiðslu í ríkisstj.

Þetta er sagt fyrir sjö mánuðum, fyrir rúmu hálfu ári. Það bólar ekki á þessari lokaafgreiðslu enn þá. Og einhvern veginn býður mér í grun að það verði allnokkur tími þar til bólar á þessari lokaafgreiðslu.

Það væri líka hægt að rekja samþykkt ríkisstj. frá 16. sept. s.l. Ég ætla þó ekki að eyða tíma þingsins í að rekja hana. Þar kemur fram svart á hvítu hvað ríkisstj. ætlar að gera, og hún ætlar að gera það strax. Ríkisstj. er ekkert farin að gera. Ég hefði álitið að flestir menn, sem komnir eru til vits og ára, mundu kalla þetta svik. Ég tel að t.d. Lúxemborgarmenn hafi staðið við sinn hluta af þeim loforðum sem gefin voru, en það hefur íslenska ríkisstj. ekki gert.

Ég nefndi áðan að ástandið hjá Flugleiðum væri nú orðið svo alvarlegt vegna skorts á lausafjármunum að innan skamms yrði lokað á félagið. Það er dagaspursmál, ekki vikuspursmál hjá Clearing House í London, sem fer með alla farmiðaskráningu og skiptifarmiða á milli flugfélaga í heiminum. Sama gildir um olíumál félagsins. Þar eru allar skuldir að komast á það stig, að það verður innan skamms lokað fyrir olíusölu til félagsins. Ég sagði líka áðan, að það væri stór spurning, hvort félagið hefði fjármagn til þess að greiða laun um næstu mánaðamót. (Gripið fram í.) Þeir standa líklega ekkert betur en útgerðin, en líklega yrðu ráðin skjótari gagnvart útgerðinni en verið hefur gagnvart Flugleiðum. Ég bendi aðeins á þetta vegna þess að ef þetta flug stöðvast og ef Alþb.menn ætla sér í raun og veru, a.m.k. ákveðinn hópur innan þess flokks, að standa á nístum Flugleiða til þess að geta stofnað ríkisflugfélag, þá er ég hræddur um að Alþb.-menn séu ekki bara á rangri leið, heldur séu þeir að færa þjóðina út í nýtt skattafen.

Ég vil geta þess og hef til þess heimild, að starfsmenn Flugleiða, sem vinna á innanlandsflugleiðum og við Evrópuflug, hafa verið að ræða það sín á milli að undanförnu — og væntanlega fæst í það mál niðurstaða mjög skjótlega — að veita félagi sínu stuðning með því að taka ekki við fullum launum og hugsanlega lána félaginu einhverja fjármuni, vegna þess að þetta flug skiptir þetta fólk miklu máli. Atvinnan skiptir það miklu máli og ef það horfir upp á það, þetta fólk, að flugið verður endanlega allt stöðvað, þá geta þeir menn, sem ráðið hafa ferðinni, rætt við starfsmenn Flugleiða.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að ég er fullkomlega andsnúinn því, að fluginu yfir Norður-Atlantshaf í fyrrverandi mynd, á milli Lúxemborgar og New York og Chicago, verði haldið áfram. Slíkt flug er brjálæði. Þeir menn, sem hafa gert sér far um að kynna sér þær áætlanir, sem fyrir hendi eru, og það útlit, sem er á þessari flugleið, hljóta að sjá það, að ef þessu flugi verður haldið áfram er stefnt út í slíkt kviksyndi að það er fullkomlega vonlaust og fullkomlega ábyrgðarlaust af stjórnvöldum að styðja það flug á einn eða annan hátt. Og þó að stjórn Flugleiða álykti sem svo í dag, að sá styrkur, sem hún geti fengið frá íslenska ríkinu og Lúxemborgarmönnum, nægi til þess að halda þessu flugi gangandi í eitt ár, þá tel ég það persónulega misskilning. Ég held að menn verði að átta sig á því, að það er spáð hækkun á eldsneyti til flugvéla á næsta ári, sem verður einhvers staðar á bilinu 25–35%. Ég held að menn verði líka að gera sér grein fyrir því, að Lúxemborgarmenn, sem ákváðu stuðning í eitt ár, ætla ekki að styðja þetta lengur en í eitt ár. Eitt ár ætla þeir að nota sem umþóttunartíma á meðan þeir geta komið flugfélagi sinu, Luxair, á þann rekspöl, að það geti tekið við þessu flugi, ef það er ábatasamt á annað borð, og þá í því formi, að um verði að ræða blandað farþega- og fragtflug.

Ég hef gagnrýnt hér Alþb. fyrir þátt þess í þessu máli.

Ég gagnrýni Alþb. fyrir það kommissarakerfi sem það vill koma á í sambandi við rekstur Flugleiða, þar sem einhverjir opinberir fulltrúar verði með nefið niðri í hverjum reikningi og hverri ákvörðun sem tekin er í herbúðum þar. Menn eiga að fá að reka fyrirtæki sín í friði.

Ég er líka fullkomlega andsnúinn þeirri hugmynd sem komið hefur fram um sérstaka rekstrarstjórn fyrir Norður-Atlantshafsflug, ef því verður haldið áfram. Hvað er verið að gera með þessu? Það er auðvitað verið að setja eftirlitsmenn, kommissara, yfir félagið, sem eiga að vera þar með puttana í öllum málum.

Ég geri mér það ljóst, að Flugleiðir hafa átt við mikil innanhússvandamál að stríða, sem eru talsverður þáttur í þeim heildarvanda sem nú blasir við. Það hefur verið mikið úr þessum innanhúsvanda gert og kannske meira en efni standa til. Ég held að sá vandi hafi byrjað þegar þessi tvö flugfélög, Flugfélag Íslands og Loftleiðir, voru sameinuð án þess að gerð væri gangskör að því að sameina flugmannafélögin tvö. Síðan hafa logað heitir eldar innan þessa félags.

Ég sagði í upphafi að vandi Flugleiða drægi mjög dám af þeim vandamálum sem nú ríkja hjá flugfélögum almennt í veröldinni. Ég held að það megi gjarnan bera ástand Flugleiða saman við það ástand sem skapaðist hjá ísraelska flugfélaginu El Al á síðasta ári. En þar var ekki hlaupið til og byrjað að skera niður. Forstjóri þess flugfélags gerði starfsmönnum grein fyrir því, að það væri ekki hægt að reka það án þess að starfsmennirnir kæmu sér saman um rekstrargrundvöllinn, um kostnaðinn, um flugleiðir og um fleiri atriði sem nauðsynleg eru í flugrekstri hvers einasta félags. Þetta hefur borið þann árangur, að hagur þess félags hefur batnað stórkostlega á tiltölulega skömmum tíma.

Ég vil segja það, herra forseti, hér undir lokin, að við getum auðvitað staðið í þessari pontu eins lengi og okkur dettur í hug. Við getum deilt um það, hverjir hafi tekið réttar og hverjir hafi tekið rangar ákvarðanir. Um það getum við deilt endalaust. Við getum deilt um tölulegar staðreyndir, velt þeim fyrir okkur á hvern þann veg sem við kjósum. Það er aðeins eitt atriði, sem stendur upp úr öllu þessu máli. Okkur hér, þessum 60-menningum, er treyst til þess að sjá landinu fyrir góðum samgöngum — það er það sem máli skiptir — góðum samgöngum milli þessa lands og annarra landa svo og innanlands. Þetta er okkar verkefni og þetta er okkar skylda. Ég tel sem sagt að Flugleiðir — með þann flugvélakost, með þá þekkingu og þá reynslu sem það félag býr yfir — eigi að fá að starfa áfram og við eigum að stuðla að því að styrk ja það í þeirri baráttu að koma sér á réttan kjöl á nýjan leik. Annað er raunverulega fíflaskapur. Að tala um eða gefa í skyn að innan þess félags hafi átt sér stað einhver meiri háttar fjármálaleg hneyksli, að þar hafi ákvarðanir verið stórkostlega vítaverðar, þetta skiptir ekki máli lengur. Það, sem nú skiptir okkur máli, er að koma þessu flugi á réttan kjöl. Og ef núv. ríkisstj. ætlar að fara þá leiðina, sem mér sýnist hún ætla að gera, að koma allri ábyrgðinni af þeim vanda, sem nú blasir við, yfir á félagið sjálft eða leysa þann vanda með því að láta eitthvert annað flugfélag taka við, sem kannske er í farvatninu, áhugamál sem búin eru til af pólitískum ástæðum, þá er það ríkisstjórnarinnar að fara þá leið. En ég er hræddur um að allir þeir, sem hugleiða þessi mál og hafa hugleitt þau sómasamlega, átti sig á að grundvallaratriðið í öllu þessu máli er að

styrkja og styðja við bakið á þessu félagi sem við eigum og er í landinu, hefur þekkinguna, hefur reynsluna, hefur markaðskerfið, hefur flugvélarnar. Allt annað væri hrein fásinna.