28.10.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

337. mál, málefni Flugleiða

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja að ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og gera við hana nokkrar aths. Ein af uppáhaldskenningum hans er sú, að stjórnendur Flugleiða — án þess þó að ég sé neinn sérstakur fulltrúi þeirra hér á þingi — hafi gert það vísvitandi að leggja fram rangar upplýsingar eða alls engar upplýsingar. Hv. þm. nefndi það sem dæmi, að fram hefði farið mat á eignum Flugleiða, þ. á m. flugvélum félagsins. Hann var með í höndunum, að mér sýndist, ljósrit úr flugtímaritinu Flight, rakti þaðan verð annars vegar á þeim flugvélum, sem hann tiltók, og hins vegar verð á flugvélum eins og það verð kemur fram í mati Flugleiða. Á milli þessara tveggja tölulegu staðreynda taldi hann að væri 6 milljarða kr. munur, sem væru rangar upplýsingar um eignir Flugleiða.

Nú langar mig að geta þess, að hv. þm. nefndi flugvélategundina B 227–200 og hún væri metin á 10 millj. dollara í þessu riti, sem hann tiltók, en hún væri hærra metin af hálfu matsmanna Flugleiða. Sú vél, sem hér um ræðir og Flugleiðir eiga, er mun verðmætari en sú vél sem nefnd er í umræddu tímariti, einfaldlega vegna þess að í hana hefur verið bætt miklu af tækjum m.a. tölvustýritækjum sem kosta hvorki meira né minna en 1 millj. dollara, svo að það er eðlilegt að hún komi út sem dýrari flugvél.

Í öðru lagi nefndi hann vélarnar F 27-100, hinar vinsælu Fokker Friendship-vélar, sem notaðar eru í innanlandsflugi, tiltók ákveðna tölu úr Flight og taldi að hún kæmi ekki heim og saman við það mat sem Flugleiðir legðu sjálfar á þessa vél. Flugleiðir eiga enga vél af þessari tegund. Flugleiðir eiga þrjár vélar af gerðinni F 27-200 og eina af gerðinni F 27-500. Þessar vélar eru kraftmeiri, þær eru stærri og þær eru betur búnar tækjum en þær vélar sem hv. þm. Ólafur Ragnar vitnaði til í Flight, þannig að þessi munur er ákaflega eðlilegur. Þarna er ekki neitt samsæri á ferðinni. Þarna er ekki verið að gefa rangar upplýsingar vísvitandi, heldur er staðreyndin sú, að þessar vélar, sem um ræðir, eru dýrari, þær eru verðmætari. (ÓRG: Samkv. þeim tölum, sem þm. er með núna, munar enn þá 8–9 millj. dollara.)

Ég ætla líka að gera nokkrar aths. við önnur atriði úr ræðu hv. þm., sem að mínu mati var að mörgu leyti góð. Hann talaði um áhættuflug. Hann gat þess, að Flugleiðir ættu bara að hafa sitt áhættuflug annars vegar og keppa við önnur flugfélög og síðan það sem nú er farið að kalla grundvallarflug, sem mér finnst heldur leiðinlegt orð um þessa fluggrein. En á sama tíma er hann að tala um að ríkið, ekki bara íslenska ríkið, heldur ríkið í Lúxemborg, styrki þetta áhættuflug. Þetta kemur engan veginn heim og saman við staðhæfingar hv. þm. um það, að kerfið eigi að vera af þessum toga spunnið. Ég get tekið undir það með honum, að starfsfólk eigi að vera stærri þátttakendur í Flugleiðum á öllum sviðum rekstrar. Að þessu þurfum við að vinna. Þetta er nauðsynlegur þáttur til þess að skapa betri vinnumóral, svo að ég noti ljótt orð, og til að skapa betra ástand innan fyrirtækisins. En ég endurtek það engu að síður, að ég tel að áhættuflugið yfir Norður-Atlantshafið og stuðningur íslenska ríkisvaldsins ríkissjóðs — við það flug sé rangt. Þetta er nákvæmlega það sama og að greiða niður fargjöld fyrir útlendinga. Þetta er nákvæmlega sama stefnan í eðli sínu og útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir, — nákvæmlega sama stefnan. Við erum bara að steðja út í tiltekið kviksyndi og hvenær ætlum við upp úr því? Við erum eingöngu að íengja dauðastríð þessa flugs. Við erum raunverulega að lengja þá áhættu og þá erfiðleika sem það fólk á við að stríða sem hefur atvinnu af þessu flugi. Það er engin von til þess, að þetta flug geti orðið arðbært í náinni framtíð. Það gefur auga leið og það er mat allra sérfróðra manna, að það, sem á eftir að gerast á flugleiðinni yfir Norður-Atlantshaf nú, þegar enn þrengist kostur flugfélaga, er að inn í þessa mynd komi stórkostlegur stuðningur ríkisvalds hjá hverri þjóð sem heldur uppi þessu flugi, og ef Íslendingar ætla að keppa við ríkisvald, sem er af sama stærðarhlutfalli og stendur á bak við ýmis þau ríkisreknu og hálfríkisreknu flugfélög, sem stunda flug yfir Norður-Atlantshaf, þá er það óhemjulegur misskilningur. Það mun aldrei takast.

Ég vil — til þess að lengja ekki þessa umr. — minna á það, að fulltrúi ríkisstj. — sem í þessu tilviki er ekki hv. þm. Garðar Sigurðsson — hét því í mars, fyrir sjö mánuðum, að veita aðstoð. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni áðan. Það var hæstv. ríkisstj. sem sagði við þá Flugleiðamenn þegar þeir ákváðu að hætta fluginu yfir Norður-Atlantshaf: Hættið ekki, herrar mínir, við munum hjálpa ykkur.

Ég er líka þeirrar skoðunar, að framið hafi verið mjög alvarlegt brot á samkomulagi sem gert var þegar Flugfélag Íslands og Loftleiðir voru sameinuð á sínum tíma, þess efnis, að þau skyldu hafa forgang og þau skyldu hafa nánast einokun á öllum flugleiðum út frá Íslandi. Það er brot á þessu samkomulagi að láta annað flugfélag hafa leyfi til flugs á milli Reykjavíkur og Amsterdam. Það lá fyrir í samgrn. umsókn frá Arnarflugi um þetta flug. Það félag er mun betur búið tækjum til að flytja farþega heldur en Iscargo. En það fékk ekki leyfi. Og Flugleiðir höfðu ákveðið í ágústmánuði að taka upp flug á þessari flugleið. Það er rangt, á sama tíma og verið er að tala um að veita Flugleiðum stuðning, að skafa utan af félaginu á þennan hátt.

En ég vil taka undir það með hv. þm. Friðrik Sophussyni, að það vantaði rauða þráðinn í alla ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann kom aldrei í allri sinni löngu ræðu að því, hvað hann vildi gera. Hann hvatti ekki til þess, að ríkisstj. tæki nú ákvarðanir fljótt til þess að bjarga því sem bjargað verður. Ekki einu einasta orði minntist hann á það. Hann talaði eingöngu um það, hvað hann hefði sagt og hvað Alþb. hefði sagt og gert. Ég vil taka undir það með hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni, að aðstoð við Flugleiðir á þessum tíma er nauðsynleg, en nauðsynlegast er að hún komi skjótt. Og ég vil skora á hæstv. samgrh. að beita sér fyrir því, og jafnvel vil ég skora á hæstv. forsrh., sem hér var inni ekki alls fyrir löngu, að þeir reki af sér slyðruorðið og láti ekki Alþb.mennina draga úr sér kjarkinn í þessu máli og dragi það á langinn. Ég veit að hæstv. samgrh. hefur fullan hug á því og fullan skilning á mikilvægi góðra flugsamgangna fyrir okkur Íslendinga. Og honum er ekkert fjær skapi en það að reyna að stöðva þetta flug. En það eru aðrir aðilar, áhrifaaðilar í ríkisstj., sem hafa tafið þetta mál óeðlilega mikið, fram hjá því verður ekki gengið.

Ég vil svo ítreka enn á ný í lok þessa máls, að við höfum eytt miklum tíma í umr. um þessa annars ágætu skýrslu.

Enn meiri tími mun að öllum líkindum fara í umr. um það frv. sem hér liggur fyrir um aðstoð við Flugleiðir. En kjarni þessa máls er afskaplega einfaldur. Hann er ekki sá, hvað hefur verið að gerast á undanförnum misserum og árum, heldur hvað við Íslendingar ætlum að gera í samgöngumálum þjóðarinnar. Það er kjarninn í þessu máli, og að því ber okkur að vinna.