28.10.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

337. mál, málefni Flugleiða

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki von á því að mælendaskrá tæmist, hvorki í Ed.hv. Sþ., ef örfáir einstaklingar gleypa næstum allan tímann.

Ég kom upp til að segja aðeins örfá orð vegna þess m.a. að hv. þm. frjálshyggjunnar, Friðrik Sophusson, reifst hér mikið og lengi og hátt um það að Alþb.-menn hefðu alltaf haft þá skoðun að drepa ætti Flugleiðir niður og þeir vildu helst standa á rústum þess félags og við hefðum tafið málið á alla lund. Ég hef ekki tekið eftir því og ég hef ekki vitað það hingað til að Alþb.-menn væru neitt á móti Flugleiðum, síður en svo. Ég átti t.d. í nokkur ár sæti í stofnun — merkilegri nokkuð — sem flugráð heitir. Ég man ekki eftir því öll þessi ár að ég hafi nokkurn tíma tekið fjandsamlega afstöðu gegn Flugleiðum. Ég kalla það ekki að taka fjandsamlega afstöðu gegn Flugleiðum þó maður vilji samþykkja að einhverjir aðrir fái að fljúga hér á milli landa, en þó aðeins í „charter“-flugi, þ.e. í leiguflugi. Ég var alltaf á móti því og sat í flugráði með hæstv. núv. samgrh. þegar hann vildi endilega láta Arnarflug fá samkeppnisleyfi á móti Flugleiðum á Evrópuleiðum. Ég greiddi atkvæði gegn því þá, en hins vegar greiddi ég oft atkvæði með því, að aðrir aðilar fengju að ástunda hér leiguflug á milli landa, sem er allt annars eðlis.

Ég held að það taki varla að ansa því þegar hv. þm. íhaldsins, Friðrik Sophusson og Árni Gunnarsson, segja að Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur talað í 5 klukkutíma samtals um málið, hafi aldrei sagt allan þennan tíma hvað hann vildi í málinu. Því trúi ég ekki. Ósköp einfaldlega gæti svarið verið það, að hér liggur frammi stjfrv. sem er lagt fram af hæstv. ríkisstj., sem við styðjum báðir, ég og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þó að við séum kannske ekki alltaf sammála í pólitíkinni.

Ég verð að segja það, að mér líst illa á að við séum að hætta fé skattborgaranna, sem hæstv. ráðh. hefur undir höndum, í Atlantshafsflug. Tóku menn ekki eftir frétt sem birtist í blöðum og útvarpi í gær, þar sem haft var eftir framkvæmdastjóra IATA-samsteypunnar. Það er Knut Hammarskjöld sem er þar efstur í valdastiganum. Hann lét hafa það eftir sér, að aldrei hefði verið eins dökkt útlit í Atlantshafsfluginu og einmitt núna.

Ég sé alls ekki ástæðu til þess að menn séu að túlka okkar efasemdir í þessu Atlantshafsflugi sem andstöðu við frv. sem liggur fyrir, því í því eru sem betur fer vissir afdrifaríkir fyrirvarar, þar sem er sagt að við gætum hugsanlega veitt ábyrgðir ef tryggingar flugfélagsins eru þannig að ríkisstj. meti þær gildar. Það er kjarni málsins í þessu frv.

Mér finnst dálítið einkennilegt þegar hv. þm. Árni Gunnarsson, eftir að vera búinn að skamma alla aðila í málinu, þó sérstaklega Alþb., sem síst var ástæða til, hélt því fram að samgrh. hefði að hans dómi fullan skilning á öllu málinu. Það er merkilegt vegna þess að þótt þessi hv. þm. sé svona hrifinn af skilningi hæstv. samgrh. eru þeir ekki sammála um allt. Hæstv. ráðh. vill endilega að Flugleiðir haldi áfram Atlantshafsfluginu, en því er hv. þm. Árni Gunnarsson á móti. Og sama er að segja um málefni Iscargos. Þar eru á milli þeirra mjög skiptar skoðanir. Ég skil ekki hvernig hann getur verið svona hrifinn af skilningi Steingríms á sama tíma og þeir eru á öndverðum meiði um kjarna málsins.

Það, sem varð til þess að ég kom í nokkrar mínútur upp í þennan ræðustól, var sú einkennilega fullyrðing hæstv. ráðh., að ekki væri um stefnubreytingu að ræða þegar hann veitir félaginu Iscargo leyfi til Amsterdamflugs. Þar er um grundvallarbreytingu að ræða að mínum dómi, vegna þess að þar er um reglubundið áætlunarflug að ræða, jafnvel þó að það sé talað um að þeir séu með blandað flug, bæði farþega og vörur. Slíkt blandað flug hefur alltaf verið fyrir hendi að meira eða minna leyti. Iscargo hefur hins vegar ekki haft annað en vöruflutningaleyfi, og til þess að fá að reka flugvélar milli landa í farþegaflugi eru gerðar miklu strangari kröfur. Flugfélagið þarf því að útvega sér aðrar flugvélar í það verkefni. Það þarf sem sagt að fjárfesta með stórum upphæðum til þess að annast þennan markað. Það þýðir auðvitað ekkert annað en það, að þar er ein yfirfjárfestingarvitleysan enn á leiðinni. Ég er ekki hissa á því að ýmsir séu hrifnir af því. Það virðist vera grunntónninn í efnahagsmálum hér á landi að gera eintómar vitleysur. Ég get ekki skilið hvernig það getur farið saman, að ríkissjóður sé að hætta jafnvel einhverju af fé sínu og skattborgaranna til að styðja við bakið á Flugleiðum, sem ég tel rétt í sambandi við Evrópuflugið, en á sama tíma sé verið að veita félaginu Iscargo leyfi til að keppa á þessari leið við félagið, sem hirðir auðvitað af því verulegan hagnað. Ég get ekki séð að þetta geti farið saman.

Í ræðu hæstv. ráðh. kom fram að þetta væri aðeins á einni leið. Þetta er allt ein og sama leiðin. Það munar ekki miklu hvort flogið er til Amsterdam eða Lúxemborgar. Þetta er ein leið, Evrópuleiðin. Það er ekki langt á milli Lúxemborgar og Amsterdam. Það liggur við að maður geti labbað á milli eins og frá Keflavík til Reykjavíkur!

En það er að mínum dómi grundvallarmunur á því hvort leyfa eigi samkeppni í leiguflugi eða hvort verið er að bæta fleiri flugfélögum inn í reglubundið áætlunarflug. Ég tel að sú ákvörðun hafi verið röng. Við Alþb.menn eigum fulltrúa í flugráði. Hann tók auðvitað afstöðu til þess máls eins og honum fannst réttast og best. En ég er andvígur þeirri skoðun. Þó að ég sé á þessari skoðun er ég alls ekki að mæla með algjörri einokun í flugi. Ég vil að menn fái að keppa í leigufluginu, en ég álít að þessi markaður sé ekki stærri en svo, að hann þoli ekki meira en eitt flugfélag. Hins vegar er önnur stefna sumra aðila sem hafa verið að fikta við flugmál með slæmum árangri á undanförnum árum, eins og Carter í Bandaríkjunum, sem var svo hrifinn af samkeppninni að hann sleppti öllu Atlantshafsfluginu lausu með þeim afleiðingum sem allir geta horft á, bæði þeir, sem eru hlynntir hæfilegri samkeppni, og þeir, sem vilja óhefta samkeppni, nema í þessu máli þegar allar kenningar bresta hjá frjálshyggjumönnum. Það sýnir sig að frjáls samkeppni dugar hér ekki, — gerir það alls ekki. Ég tel það þess vegna skref í ranga átt að veita Iscargo þetta leyfi.