27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

115. mál, Blönduvirkjun

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af þeim umr. sem hér hafa farið fram. Ég hygg að það sé öllum ljóst að ekki verður dregið öllu lengur að taka ákvörðun um næstu virkjun á landi okkar. Ég hygg að flestum sé ljóst að þrátt fyrir tilkomu Hrauneyjafossvirkjunar er líklegt að hér verði orkuskortur um 1986 þó ekki komi til nein stóriðja eða stórnotandi. Menn hafa réttilega bent á það í umr. nú að það eru þrjár virkjanir sem mest eru höfð augun á í þessu sambandi.

Hér hafa talað þm. fyrir Norðurland vestra og lagt mikla áherslu á virkjun í Blöndu. Varðandi það mál vil ég aðeins segja það, að vonandi tekst að lægja þær öldur sem í því kjördæmi eru varðandi þessa virkjun þannig að unnt sé að ráðast í hana. En ég vil mjög vara við því að menn knýi fram ákvörðun um virk un Blöndu ef miklar deilur standa í héraði um það mál. Ég held, að menn ættu að hafa lært sína lexíu af Laxárvirkjunardeilunni, og ég held, að það væri mjög vafasamt að ætlast til þess að Alþingi, eins og mér fannst einn hv. þm. segja áðan, taki þetta mál í sínar hendur á þann hátt að taka ákvörðun í þessu áður en þau mál eru leyst, án þess að vita hverjar afleiðingar kunna af því að verða: bótagreiðslur, stefnur, tafir og annað slíkt. Ég skal ekki leggja á það neinn dóm, en ég vil vara menn við því að hlaupa um of til áður en slíkar deilur eru leystar. Það er engum til góðs, og ég er ekki tilbúinn að standa að slíkri ákvörðun.

Annað er það varðandi Fljótsdalsvirkjun, að þar er mikil vinna óunnin. Fleiri orð mætti hafa um það, en tími minn er búinn hér.

Aðeins þetta að lokum: Ég er ekki frá því að Sultartangavirkjun sé eina virkjunin á þessu stigi, ef þessar deilur leysast ekki við Blöndu, sem getur komið strax á eftir Hrauneyjafossi þannig að ekki verði beinlínis orkuskortur og orkuskömmtun þegar virkjun þar er fullnýtt.