27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

115. mál, Blönduvirkjun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna ummæla, sem féllu hér frá hv. 6. þm. Reykv. um að ég hafi tekið mig fram um að reyna að knýja á um seinkun Hrauneyjafossvirkjunar, vil ég segja nokkur orð. Það eru mál, sem birtast á síðum vissra blaða ítrekað, og fullyrðingar í því sambandi. Ég vil aðeins rifja það upp hér, að ákvæði um það að endurskoða framkvæmdaáætlun við Hrauneyjafossvirkjun var inni í málefnasamningi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sem mynduð var haustið 1978, og ég var ekki að gera annað á þessum tíma en láta fara fram mat á því, hvort réttmætt væri að breyta þessari tilhögun. Sú niðurstaða, sem þarna varð, var gerð með góðu samkomulagi stjórnar Landsvirkjunar og rn., að því leyti sem ég kom nálægt því máli, og hafði ekki í för með sér neina breytingu á gangsetningu virkjunarinnar, aðeins tilfærslu á nokkru fjármagni milli ára.

Það var vikið hér af hv. 2. þm. Suðurl. að því, að Sultartangavirkjun ætti að vera inni í virkjunardæminu, og hann kom sérstaklega að vatnsmiðlun í því sambandi. Ég vil að það komi hér fram, að það, sem ég vék að í máli mínu hér áðan í sambandi við ísvandamálin, getur einmitt tengst og mundi tengjast framkvæmdum sem síðar gætu fallið inn í Sultartangavirkjun til.þess að draga úr þessum vandkvæðum, sem sagt lág stífla á ármótum Tungnaár og Þjórsár, og hún tel ég að eigi að vera til álita í þeim framkvæmdum sem gerðar yrðu á Landsvirkjunarsvæðinu á næstu árum.

Hv. 5. þm. Suðurl. vildi telja að það hefði ekki verið eldur uppi á þessu svæði, virkjunarsvæði Landsvirkjunar, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, um langan tíma. Ég hélt að þm., sem er búsettur í Vestmannaeyjum, mundi ekki vera að draga fram tímasetningu í sambandi við eldsupptök. Ég býst við að það hafi komið honum jafnt á óvart sem öðrum þegar eldur var uppi í Eyjum, þó að ekki hefði gosið þar um 5000 ára skeið. En hraun streymdi eftir farvegi Tungnaár og Þjórsár í sjó fram fyrir um 8000 árum og þar með einnig um það svæði þar sem framkvæmdir vegna Sultartangavirkjunar eru fyrirhugaðar, þó að það liggi í jaðri þessa mikla hraunstraums, eins mesta sem þekktur er eftir að ísa leysti af landinu, svo að ég trúi ekki öðru en það sé hugur hv. alþm. að dreifa virkjunum um landið og minnka þá áhættu sem við vissulega tökum meðan við höfum okkar virkjunarkerfi staðsett eins og um er að ræða nú. Það er raunar fleira en eldurinn, það er líka úrkoman, veðurfarið, sem kemur inn í þessa mynd. Dreifing virkjana um landið verður einnig til að jafna eða draga úr áhættu vegna slíkra veðurfarssveiflna.

Hv. þm. Halldór Blöndal vefengdi hagkvæmni Fljótsdalsvirkjunar í samanburði við aðra kosti nema miðað væri við orkuafhendingu við stöðvarvegg. Það stenst, sem ég sagði áðan, að þó að þyrfti að flytja talsverðan hluta af orku þessarar virkjunar til annarra landshluta, þá er hún eftir sem áður í röð allra hagkvæmustu virkjana okkar, þó svo að sá kostnaður sé tekinn með inn í dæmið. En það hefur komið fram af minni hálfu eins og af hálfu fleiri, að fyllilega er til athugunar að stækka markað á Austurlandi með orkufrekum iðnaði sem gæti notað hluta af orku þessarar virkjunar þegar hún er komið í gagnið. Og varðandi Kröfluvirkjun, sem væntanlega er ágreiningslaust að reyna að koma í gagnið, þá man ég nú ekki betur en boraðar hafi verið þrjár holur við Kröflu á liðnu sumri og sérstaklega verið útvegað fjármagn til þeirrar þriðju. Það hefur þá fennt í mitt minni ef þetta er rangt. Ég held að það hafi verið byrjað á holu 13 og síðan haldið í holu 14 og 15 við Kröflu og hefur ekki verið þar meir að gert í þeim efnum um langt skeið.

Hv. þm. Albert Guðmundsson vék að þeim vanda sem vissulega er fyrir hendi vegna núverandi aðstæðna og kostnaðarauka við raforkuöflun, og það þarf að vera til athugunar á næstunni, hvernig við þeim vanda verði brugðist sem er mjög umtalsverður. T.d. er metið að kostnaðarauki Rafmagnsveitna ríkisins vegna aukins kostnaðar við orkuöflun á þeirra vegum sé 1100–1200 millj. gamalla kr., og það er auðvitað meira en fyrirtækið getur borið nema til komi kostnaðarauki fyrir notendur eða við því sé brugðist með öðrum hætti. Ég tel að það þurfi að leita leiða til að jafna þessi met, og þau efni, sem hv. 3. þm. Reykv. vék að, verða til athugunar nú á næstunni. Ég tel það enga goðgá, þó að það liggi fyrir að rafveitur hér á Suðurlandi, þar með Rafmagnsveita Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, taka nú með vissum hætti þátt í kostnaði vegna þess ástands sem nú ríkir, þ.e. greiða hluta þess, sem gengur til járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga upp í það tap sem hún verður fyrir vegna þess að hún hættir nú rekstri um stundarsakir, og þar er skipt í ákveðnum hlutföllum. Sú framleiðslustöðvun er metin þjóðhagslega hagkvæm af þeim aðilum sem borið hafa saman bækur sínar um þetta, þ. á m. framkvæmdastjórn járnblendiverksmiðjunnar. Öðruvísi hefði auðvitað horft ef markaður hefði verið í góðu horfi og gott verð fyrir afurð þessarar verksmiðju, en svo er því miður ekki um þessar mundir.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja þetta frekar.