30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

8. mál, aukning orkufreks iðnaðar

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Margvíslegar ástæður hníga að því, að mikil umr. fer nú fram í landinu um hvernig hagkvæmast megi nýta orkulindir okkar. Ástæður þessa eru að sjálfsögðu endurtekin orkukreppa og óvissa í orkumálum heimsins, hækkandi orkuverð, sem vissulega hefur komið mjög hart niður á okkur Íslendingum, óvissa í orkumálum Íslendinga, sérstaklega að því er varðar innflutt eldsneyti. Hækkanir á innfluttu eldsneyti hafa teflt viðskiptajöfnuði þjóðarinnar í mikla tvísýnu og Íslendingar sjá nú fram á versnandi lífskjör vegna þessarar orkukreppu. Því er það að efst kemur í hugann hversu nýta megi hina innlendu orku til þess að bæta lífskjörin.

Það er rétt, sem fram kemur í þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir til umr., að margir draga nú í efa að sjávarútvegurinn geti á allra næstu árum orðið undirstaða undir bættum lífskjörum hér meðan verið er að byggja upp fiskstofna. Landbúnaðurinn á við vissa erfiðleika að etja og iðnaðurinn reyndar líka, því að eins og menn vita má helst ekkert gera til þess að styðja við bakið á innlendum iðnaði vegna þeirra fríverslunar- og frjálshyggjumanna. Það er gjarnan svo, að þegar telja þarf kjark í þjóðina benda menn á þessar miklu orkulindir, sem Íslendingar eiga, og þá glæstu framtíð, sem þjóðin á í vændum ef þær eru skynsamlega nýttar. Jafnframt hefur umræða um þessi mál oft þótt hentugt auglýsingatæki eða áróðursatriði fyrir þá sem vilja benda á dugnað sinn til að ræða atvinnuuppbyggingu okkar Íslendinga. Eins og þessi till. ber kannske með sér að vissu marki, þá er oft lítil hugsun að baki slíkri umræðu eða tillöguflutningi.

Nýting orkulinda Íslendinga er tvíþætt mál. Í fyrsta lagi er að um það að ræða að virkja þessa orku þannig að unnt sé að nýta hana og í öðru tagi að nýta hana.

Fyrsta spurningin, þegar menn standa frammi fyrir till. eins og hér hefur verið lögð fram, er því auðvitað: Hvernig er staða okkar í þessum málum í dag? Hvernig er staða okkar í virkjunarmálum í dag? Menn horfa þá gjarnan bæði til vatnsafls og jarðvarma.

Staðan í orkumálum okkar í dag er þannig, að við verðum að skammta rafmagn til stóriðjufyrirtækja, klípa um 45 megawött af því í vetur. Þetta þurftum við líka að gera í fyrra. Það er ljóst, að bót verður ekki ráðin á þessari orkuskömmtun fyrr en fyrsta aflvél Hrauneyjafossvirkjunar kemur í notkun í árslok árið 1981, ef áætlanir standast. Önnur aflvél á að taka til starfa vorið 1982 og sú þriðja væntanlega árið 1983. En jafnframt verða menn þá að hafa í huga, að miðað við þær orkuspár, sem okkar sérfræðingar hafa lagt fram, bendir allt til þess, að þrátt fyrir tilkomu Hrauneyjafossvirkjunar og þrátt fyrir það, að á næstu árum verði ekki um neinn stórnotanda að ræða eða notkun umfram eðlilega aukningu í landinu, þá verði um orkuskort í landinu að ræða 1985–1986, ef önnur virkjun verður þá ekki tekin til starfa á eftir Hrauneyjafossvirkjun.

Ég skal út af fyrir sig ekki leggja dóm á þessa orkuspá, en frammi fyrir þessum hugsunum standa menn. Þegar horft er til næstu virkjunar á eftir Hrauneyjafossvirkjun, þá hygg ég að öllum sé ljóst að í fyrsta lagi gæti næsta virkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun tekið til starfa árið 1986. Fram að þeim tíma er því ekki um aukningu að ræða sem neinu nemur í stóriðju hjá Íslendingum. Þess vegna verða menn að skýra svolítið nánar hvað þeir eiga við með flutningi þáttill. sem þessarar, þar sem sérstaklega er tekið fram að stefnt skuli að stórauknum orkufrekum iðnaði á næstu árum. Ég held að það sé öllum ljóst, að á næstu sex árum er ekki um það að ræða. En hvað tekur þá við?

Öllum, sem hér eru inni, er ljóst að Íslendingar eiga um þrjá kosti að velja um næstu virkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun. Í fyrsta lagi nefna menn Blönduvirkjun, sem talin er vera um 120 mw. með ársframleiðslu um 750 gwst. á ári. Í öðru tagi tala menn um Sultartangavirkjun um 120 mw. og með ársframleiðslu um 750 gwst. á ári. Í þriðja tagi tala menn um Fljótsdalsvirkjun, sem gæti verið 300–400 mw. með ársorkuframleiðslu 1350–1800 gwst. á ári, allt eftir vatnaveitum. Sérfræðingar telja að hvort sem valin væri Sultartangavirkjun eða Blönduvirkjun, þá gæti hvor um sig verið tilbúin til orkuframleiðslu árið 1986. Flestir telja að Fljótsdalsvirkjun yrði tilbúin um ári seinna. Ef menn síðan hugsa þessa hugsun svolítið lengra og leggja það niður fyrir sér, að annaðhvort Blanda eða Sultartangi yrði valið næst á eftir Hrauneyjafossi, þá er um að ræða 120 mw. virkjun, og næsta virkjun á eftir þeirri virkjun yrði væntanlega ekki komin í gagnið fyrr en eftir 3–4 ár. Ég held að það sé atveg ljóst, að ef það yrði Blanda eða Sultartangavirkjun upp á 120 mw., sem tæki við af Hrauneyjafossi árið 1986, þá sé ekki um það að ræða að ráðast í stóraukningu á orkufrekum iðnaði hér á landi á grundvelli slíkrar virkjunar. Það gæti kannske verið um það að ræða að auka ofni við málmblendiverksmiðjuna eða eitthvað slíkt, en stórfelld aukning á orkufrekum iðnaði í kjölfar þess er útilokuð. Næsta virkjun þar á eftir gæti komið 3–4 árum seinna og þá fyrst, ef hún væri stór, gætu menn ráðist í orkufrekan iðnað sem einhverju nemur, þ.e. um 10 árum frá þeirri stundu er við stöndum hér í dag, ef menn leggja málið svona niður fyrir sér, sem engan veginn er fráleitt að gera.

Ef dæmið er lagt niður þannig, þá eru menn ekkert að tala um stóraukningu á orkufrekum iðnaði á næstu árum, langt í frá. Möguleiki gæti vissulega verið á því, ef Fljótsdalsvirkjun yrði næsta virkjun á eftir Hrauneyjafossi, að unnt yrði að ráðast í orkufrekan iðnað, eða ef menn á eftir Hrauneyjafossi réðust í bæði Blöndu- og Sultartangavirkjun í einu. Þetta eru auðvitað feiknalega stórar spurningar, sem þarna koma fram, og nokkuð langt í að slíkar virkjanir taki til starfa. Hér er um stórvandamál að ræða, og næsta ákvörðun, sem menn standa frammi fyrir, er auðvitað ákvörðun í orkuframkvæmdum, hvernig menn vilji standa að þeim, og er þar meira áríðandi að taka til hendinni heldur en að ákveða orkunýtingu nú. Hvað sem gert er í þessum málum virðist ekki vera um neina stóraukningu á orkufrekum iðnaði að ræða innan 6–7 ára, og alla vega er sá möguleiki nærtækur, að það yrði ekki innan 10 ára, nema menn bókstaflega tækju stórlega til hendinni strax varðandi orkuframkvæmdir.

Varðandi orkunýtingu í ljósi þessa, ef menn gera ráð fyrir Blöndu eða Sultartanga næst á eftir Hrauneyjafossi, þá hljóta menn að velta því fyrir sér, hvort orkunýtingarnefnd í þessum dúr hefur gildi nú. Þær upplýsingar, sem hún safnar nú, yrðu vafalaust að 6–7 árum liðnum eða 10 árum orðnar að verulegu leyti úreltar. Í þessari þáltill. er líka, eins og Íslendingum er mjög gjarnt að gera, vitnað til þeirra miklu auðlinda sem við eigum í jarðhitasvæðum landsins, í háhitasvæðunum. En þá gleyma menn því, að háhitasvæði Íslendinga eru lítið rannsökuð enn sem komið er, jafnvel þó að menn hafi nú rekið sig nokkuð áþreifanlega á það í reynd. Það er lítið vitað um okkar háhitasvæði. Það er nánast ágiskun hversu mikla orku megi vinna þar. Rannsóknir háhitasvæðanna eru mjög tímafrekar og feiknalega dýrar, vegna þess að viðhlítandi upplýsingar fást ekki nema ráðist sé í boranir. Sérfræðingar álíta að ef taka eigi háhitasvæði til notkunar sé eðlilegur tími, sem líði frá fyrstu forathugunum til gerðar útboðsgagna, um 10 ár, það sé um 10 ára verk að ganga frá nauðsynlegum rannsóknum, fylgjast með svæðinu eftir boranir, kanna gufumagn, jarðlög, gufusamsetningu og þrýsting og annað slíkt, aflgetu svæðisins, þetta sé um 10 ára verk áður en unnt sé að nýta svæðið. Þessi háhitasvæði okkar eru misjafnlega rannsökuð, og það er ljóst, að feiknalega mikið verk er óunnið við athuganir og rannsóknir á þessum miklu auðlindum Íslendinga, sem þeir gjarnan tala um að nýta og jafnvel helst á næstu árum. Það, sem vissulega væri ástæða til í þessu sambandi að Alþingi léti til sín taka, væri að samþykkja sérstaka rannsóknaráætlun um háhitasvæðin, sérstaka áætlun um það, hvernig rannsóknum þessara miklu auðlinda skuli hagað og hversu miklu fé skuli verja til slíkra rannsókna. Geri menn þetta ekki, þá er nánast ekki um það að ræða að nýta þessi háhitasvæði í þeim mæli sem þáltill. í þessum dúr gera ráð fyrir.

Í þessu sambandi vil ég geta um miðstjórnarfund Framsfl., sem haldinn var snemma á þessu ári, þar sem gerð var mjög ítarleg ályktun í orkumálum. Um rannsóknir háhitasvæðanna segir í þessari ályktun, með leyfi forseta:

„Gerð verði heildaráætlun um rannsóknir á háhitasvæðunum. Rannsóknin beinist fyrst og fremst að þeim háhitasvæðum sem liggja best við nýtingu, þ.e. svæðin á Reykjanesi, við Hengil, Námafjall, Kröflu og Þeistareyki, svo og Torfajökulssvæðið. Vegna kostnaðarsamra rannsóknarborana verður að veita auknu fé til jarðhitarannsókna. Orka háhitasvæðanna verði endurmetin.“

Ég legg sérstaklega áherslu á það, að orkuvinnslugetan, sem menn tala um fyrir þessi háhitasvæði, er ágiskun. Sjálfsagt er hún í neðra marki og vel gæti hún verið tvisvar til þrisvar sinnum meiri en menn gera ráð fyrir í opinberum tölum, vegna þess að þetta hefur lítið verið athugað. Til gamans geta menn velt fyrir sér varðandi orku jarðhitasvæðanna, að fyrir nokkuð mörgum árum áætlaði Gunnar Böðvarsson að árlegt varmauppstreymi íslensku jarðhitasvæðanna samsvaraði orku um 3.5 millj. tonna af olíu á ári eða um sexföldum ársinnflutningi okkar af olíuvörum. Miðað við þær tölur, sem menn nú nota, er ekki fjarri lagi að áætla að nýtanleg orka okkar, bæði í vatnsafli og jarðhita, gæti samsvarað árlega um 8–10 millj. tonna af olíu. Mér sýnist að nýting jarðhitasvæðanna sé nokkuð langt undan ef menn taka ekki beinlínis til hendinni, eru tilbúnir að leggja fé til rannsókna þeirra og tilbúnir að vinna þokkalega áætlun um hversu að þeim rannsóknum skuli staðið. Mitt mat er þess vegna það, að það sé röng tímaáætlun hjá þeim flm. að skoða ekki betur orkuframkvæmdir og rannsóknirnar, en varpa fram till. sem virðist miða að stóraukningu orkufreks iðnaðar á næstu árum, þegar alveg er ljóst að í venjulegum skilningi orðanna „næstu ár“ er ekki um þetta að ræða og til þess að veruleg aukning orkufreks iðnaðar geti orðið á árunum þar á eftir þurfa menn að fara að búa sig undir að taka verulegar ákvarðanir um orkuframkvæmdir.

Ég vil sérstaklega benda á það í þessu sambandi, að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstj. er kveðið á um að skipuð skuli nefnd er vinni að mótun heildarorkustefnu. Þar er auðvitað orkunýtingin aðeins einn þáttur. Á hinn bóginn er engin ástæða til að gera lítið úr athugunum á orkunýtingu, þó að þessi mál standi svona hjá okkur í dag, langt frá því. Án verulegrar athugunar á orkunýtingu og án mótunar orkunýtingarstefnu er útilokað að ná fram neins konar hámarksnýtingu orkulindanna, og án slíkrar orkunýtingarstefnu getum við ekki heldur samræmt nýtingu þessara miklu orkuauðlinda okkar öðrum áformum í atvinnu- og þjóðfélagsuppbyggingu.

Í þessu sambandi vakna feiknarlega margar spurningar: Hversu hratt vilja menn ganga í þessi mál, hversu hratt vilja menn virkja o.s.frv.? Og það eru feiknarlega mörg atriði sem viðamikillar athugunar þurfa við. Við þurfum að gera okkur glögga grein fyrir orkusölusamningum sem í kjölfar slíkra iðjuvera hljóta að koma. Við þurfum að gera okkur glögga grein fyrir orkuverði, verðviðmiðun og endurskoðunarákvæðum í slíkum samningum. Við þurfum að gera okkur glögga grein fyrir mengunar- og umhverfissjónarmiðum og við þurfum vissulega að velta fyrir okkur eignaraðild og fjármögnun og ekki síður beinlínis skattastefnu. Framsfl. hefur mótað sér þá stefnu, að í orkufrekum iðnaði verði fyrst og fremst um það að ræða, að fyrirtækin séu að meiri hluta til í eigu Íslendinga og um verði að ræða fyrirtæki sem lúti íslenskum umráðum, yfirráðum og lögum í öllu tilliti.

Það er sjálfsagt mjög eðlilegt, að allir flokkar hafi hönd í bagga með stefnumörkun í orkunýtingu. Ég óttast það hins vegar svolítið, þegar ég les þessa till. og hlusta á málflutninginn með henni, að till. sé ekki síður hugsuð sem áróðurstillaga Alþfl., og mér finnst það dálítið skaða málið, að henni fylgja eins konar árásir á Alþb. í þessum málaflokki. Ég hygg að slíkt sé ekki vænlegt til árangurs, ef menn eru að reyna að ná fram till. um samstarf allra flokka, og það er engin ástæða til að vekja upp sérstakar deilur um málið á þessu stigi. En í ljósi þess, sem menn hafa sagt varðandi orkunýtingu, og orða þeirra Alþfl.manna um að lítið hafi verið gert í þeim málum, og í ljósi þeirrar stöðu, sem við nú erum í í orkuframkvæmdum, mega menn ekki heldur gleyma hinum fjórum s-um sem mikið hafa verið til umr. að undanförnu og rannsóknir eða athuganir gerðar á. Á ég þar við sykurverksmiðju, saltverksmiðju, steinullarverksmiðju og stálverksmiðju sem mundi nýta brotajárn. Talsverðar athuganir hafa farið fram og verulegar vonir eru bundnar við að slík atvinnufyrirtæki gætu risið hér og orðið þjóðinni til hagsbóta.

Staða málanna er sem sagt sú, að orkunýting er ævinlega á dagskrá, en undirstöðuna vantar að nokkru. Orkuskömmtun er í landinu í dag, orkufrekur iðnaður gæti í fyrsta lagi tekið til starfa í einhverjum mæli eftir 6–7 ár, rannsóknir jarðhitasvæðanna taka vafalaust 8–10 ár og þar er knýjandi þörf að taka á.

En það er líka vert að rifja það upp hér, þegar menn ræða orkunýtingu, nýtingu orkulindanna, hvernig í raun er búið að orkufyrirtækjum okkar. Landsvirkjun stendur fjárhagslega mjög illa, og það er enginn vafi á því, að ákvæði verðbótavísitölu skerða mjög hag innlendra orkufyrirtækja. Ég hef margsinnis lýst þeirri skoðun minni, að það sé þjóðinni allri fyrir bestu, að innlend orka verði tekin út úr verðbótavísitölu, með þeim hætti getum við best byggt þessi fyrirtæki upp þannig að þau geti tryggt okkur betri lífskjör í framtíðinni. Þessi fyrirtæki eru eign allra landsmanna og þau eru trygging lífskjara í framtíðinni. Veik staða þeirra veikir allt áframhaldandi starf okkar að nýtingu orkulindanna. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að við eflum þessi innlendu orkufyrirtæki og að við veitum fé til jarðhitarannsókna á þessu þingi.

Ég vil sérstaklega nefna það líka, að það er knýjandi nauðsyn að reynt sé að fá fram endurskoðun á raforkusölusamningnum við álverið. Í ljósi þeirra gífurlegu breytinga, sem orðið hafa í heiminum á orkuverði í kjölfar orkukreppunnar, er algerlega knýjandi að slíkir samningar séu enn á ný teknir upp. Álverið mun nú borga um 6.5 mill fyrir raforku, en mér kæmi ekki á óvart að víða úti um lönd teldust 18–20 mill ekki óeðlilegt raforkuverð til stóriðju.

Orka okkar er sjálfsagt ekki mikil á heimsmælikvarða og það er ekki heldur auðvelt að ákveða hversu hana skuli nýta eða á hvern hátt. Í þessum málum er feiknarlega ör og mikil þróun og á þessari stundu getur enginn svarað því t.d., hvert verður eldsneyti framtíðarinnar. Er það hentugt fyrir okkur að byggja hér upp orkufrek iðnaðarfyrirtæki? Eða er líklegt að næstu ár, kannske örfá, muni skera úr um það, hvort hentugast verði fyrir okkur að framleiða fljótandi eldsneyti sjálfir hér í landinu, hvort sem það yrði bensín- og olíuframleiðsla eða vetni? Ég skal ekki leggja dóm á það, en þetta eru mál sem eru tilefni mikillar umhugsunar og erfitt að skera úr um og nánast ófært á þessari stundu, en munu skýrast á allra næstu árum.

Það er enginn vafi á því, að þessar orkulindir okkar verða og eiga að vera grunnurinn að bættum lífskjörum þjóðarinnar á næstu árum. Ég hygg að það láti nærri, að Íslendingar geti framleitt mesta orku á íbúa allra þjóða heims. Það, sem fyrst og fremst liggur á í þessum málum, er að móta alhliða orkustefnu. Í þessari þáltill. er aðeins fjallað um orkunýtingarþáttinn. Sá þáttur er aðeins einn liður í þessum málaflokki og það er beinlínis hættulegt að slíta þetta mál úr samhengi við áætlanir um sjálfar framkvæmdirnar.