04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á athugasemdir hv. dm. sem tekið hafa til máls um þetta frv. Ég get vel skilið athugasemdir þeirra. Þessi mál hefur oft áður borið á góma og hér er um viðkvæm mál að ræða.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta efnislega nú. Hins vegar vil ég nota tækifærið til þess að benda á að brýna nauðsyn ber til að endurskoða lög um íslensk mannanöfn. Þau eru komin til ára sinna, nr. 54 frá 27. júní 1925. Það fellur í hlut dómsmrn. að framkvæma þessi lög að vissu marki, en hins vegar heyra þau undir menntmrn. Ég hef vakið athygli á þessu máli við hæstv. menntmrh. Það hefur verið gerð tilraun til að endurskoða þessi lög, ég held oftar en einu sinni.

Fyrir nokkrum árum var borið fram ítarlegt frv. um þetta efni sem náði ekki fram að ganga. Ég vek athygli á því með þessum orðum og bendi á að það er mjög nauðsynlegt að endurskoða þessu gömlu lög, sem í raun og veru hafa aldrei verið framkvæmd eins og efni stóðu til þegar þau voru sett.