04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu rétt, sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, að ákvæðum þessara laga var breytt og þar var farinn eins konar meðalvegur. Sömuleiðis hygg ég að nauðsyn sé, eins og hæstv. dómsmrh. ræddi um áðan, að endurskoða lög um mannanöfn. Það er áreiðanlega ekki ofsagt, að framkvæmd þeirra hefur verið býsna frjálsleg um árabil.

En því óskaði ég eftir orðinu hér aftur, að mig langaði að beina einni spurningu til hæstv. dómsmrh. Ég veit ekki hvort hann getur leyst úr henni hér og nú.

Hjá þeim sem orðið hafa að sæta því að taka sér nýtt nafn, veit ég þess dæmi eftir að þessu ákvæði var breytt að menn vil ja taka upp sitt fyrra föðurnafn og fá að halda því ævi sína út. Því spyr ég hvort grundvöllur sé fyrir því — í ljósi þess að ákvæðunum hefur verið breytt — að þeim einstaklingum, sem hafa orðið að sæta nafnbreytingu, sé heimilt að taka upp að nýju sitt fyrra nafn — og þá aðeins þeim, en ekki þeirra niðjum. Ég held að enginn láti sér detta í hug að menn vilji kasta íslensku nafnakerfi og þeim siðum, sem við höfum viðhaft, fyrir róða. Hins vegar er þetta spurning um það, hversu nærri á að ganga þeim einstaklingum sem óska eftir íslenskum ríkisborgararétti. Ég held að rétt sé að þeir fái að halda nöfnum sínum, eins og kom fram áðan, en afkomendur þeirra fari að íslenskum venjum og réttum reglum.