09.02.1981
Efri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni athyglisvert frv. og varðar mjög þýðingarmikið mál, sem er lánamál húsbyggjenda. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um ástand þessara mála. Ég tek undir það sem hann sagði um þörf þess að bæta úr. Og ég er sammála því markmiði sem liggur til grundvallar þessu frv. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera hér að endurtaka eða tíunda frekar það sem hv. 1. flm. sagði um þetta efni, en mér þykir þó ástæða til að segja hér nokkur orð.

Ég tel að þetta frv. þurfi að taka til ítarlegrar athugunar. En ég er fyrir fram ekki viss um að frv. feli í sér raunhæfar aðgerðir til lausnar þeim vanda sem því er ætlað að ráða bót á.

Frv. gerir ráð fyrir að stofna til sérstakra innlánsreikninga í lánastofnunum landsins, verðtryggðra, og að því fé sem þannig fæst verði varið til viðbótarlána til húsbyggjenda. Það er ekkert við þessa hugsun að athuga, að mínu viti, en spurningin er hvort þetta úrræði er raunhæft. Spurningin er hvort fé fæst inn á þessa reikninga þrátt fyrir að innlánsreikningarnir verði verðtryggðir. Ég segi þetta ekki út í loftið. Ég segi þetta með tilliti til þess, að sú hugsun, sem þetta frv. byggist á, er ekki ný í sambandi við húsnæðismálin.

Það vill svo til, að það voru í 10–20 ár — mig minnir nær 20 árum, ef ekki lengur — ákvæði í lögum um húsnæðismálastjórn sem voru mjög hliðstæð ákvæðunum sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Samkv. fyrri lögum um húsnæðismálastjórn var gert ráð fyrir að væri sérstök innlánsdeild við Byggingarsjóð ríkisins þar sem menn gætu lagt inn fé sitt og þetta innlánsfé væri verðtryggt. Því fylgdu enn fremur þau réttindi, að þeir, sem legðu fé inn á þessa reikninga, hefðu forgangsrétt að lánum frá Byggingarsjóði ríkisins. Var það ekki lítils vert á þeim tímum þegar enn þá verr var hægt að fullnægja eftirspurninni eftir íbúðalánum en nú er. Enn fremur gerði löggjöfin ráð fyrir að þeir, sem ættu þetta innlánsfé, fengju 15% hærra lán úr Byggingarsjóði en aðrir. Þarna var því til mikils að vinna.

Ég var einn af þeim sem á sínum tíma lögðu mikið upp úr þessu ákvæði, og ef ég man rétt, þá minnir mig að ég hafi meira að segja verið einn af þeim sem höfðu forustu um að fá þetta ákvæði inn í löggjöfina á sínum tíma. En því miður: Þó að þetta ákvæði væri vel hugsað og vel upp byggt, eins og okkur fannst sem að því stóðum á sínum tíma, reyndist þetta í framkvæmd atgerlega dautt ákvæði. Það var ekki hægt að fá neitt aukið fé í Byggingarsjóð ríkisins þrátt fyrir þetta lagaákvæði.

Mér finnst ástæða til að benda á þessa reynslu. Þegar lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins voru síðast endurskoðuð, 1980, og byggt var á frv. Magnúsar H. Magnússonar, þáv, félmrh., tók sá ráðh. mið af þessari reynslu og felldi þetta ákvæði út. Það var ekki í frv. Magnúsar H. Magnússonar, og það er ekki í lögunum frá 1980 eins og þau nú standa.

Mér þykir rétt að minna á þetta og rifja þetta upp. Það er ekki vegna þess að ég vilji gera lítið úr því frv. sem hér liggur fyrir, enda bentu þau orð, sem ég sagði í upphafi máls míns, ekki til þess. Þvert á móti tel ég að það þurfi að athuga þetta frv. vel, en ég er ekki viss um fyrir fram að þetta sé hin rétta leið. Ég held að það verði ekki komist fram hjá því, hvernig sem við veltum húsnæðismálunum fyrir okkur, að efla Byggingarsjóð ríkisins á markvissan hátt og byggja þá á því sem unnið hefur verið í þessu efni áður.

Það, sem hefur haft mesta þýðingu fyrir uppbyggingu Byggingarsjóðs ríkisins, er launaskatturinn. Þegar löggjöfin kom til endurskoðunar á síðasta þingi höfðu þau mál staðið svo um árabil að 2% af launaskatti runnu í Byggingarsjóð ríkisins, en 1.5% í ríkissjóð. Það er skömm að þessu þegar haft er í huga að þegar launaskatturinn var lagður á var það yfirlýstur tilgangur með honum að efla Byggingarsjóð ríkisins og menn voru almennt sammála um að það þyrfti. Það er því á röngum forsendum, miðað við upphaf löggjafarinnar um launaskattinn, að nokkuð skuli hafa farið í ríkissjóð.

Það sem þurfti að gera, þegar lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins voru endurskoðuð á síðasta þingi, var fyrst og fremst að efla tekjustofna Byggingarsjóðs ríkisins. Það voru miklar umr. um það frv. á sínum tíma og ég skal ekki hér fara að rifja það upp. En megináhersla mín og fleiri í þeim umr. hneig að því að auka tekjustofnana. En hvað skeði í þeim efnum? Ég minni hv. síðasta ræðumann á að frv. það sem hann hér hefur vitnað til, frv. Magnúsar H. Magnússonar, gerði ekki ráð fyrir neinni aukningu á tekjustofnum Byggingarsjóðs ríkisins. Það var meginókosturinn við það frv. En það var ekki nóg með það. Það frv. gerði ráð fyrir auknum umsvifum og hlutverki Byggingarsjóðs ríkisins frá því sem verið hafði þannig að næmi 10 milljörðum gkr. á ári, miðað við verðlag árið 1979. Þrátt fyrir þetta var ekki gert ráð fyrir neinni aukningu tekjustofna til Byggingarsjóðs ríkisins. Þetta er mjög alvarlegt. Og hvað þýðir þetta þegar svona er unnið í þessum málum? Það getur ekki þýtt annað en samdrátt í lánamálum húsbyggjenda, sem í reynd hefur verið þannig að lánin hafa lækkað í hlutfalli við byggingarkostnað, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á.

Rétta leiðin að mínu viti og eðlilega til að auka fjármagn til byggingarlána og hækka lánin er að sjálfsögðu að efla Byggingarsjóð ríkisins. Þá getum við stefnt að því og haft það fyrir takmark, sem stendur núna í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, að lánin megi nema allt að 80% af byggingarkostnaði Ég er að rifja þetta upp hér vegna þess að ég er ekki viss um — ég vil ekki segja meira — að sú leið, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sé heppilegasta, sé sú beinasta, sé sú raunhæfasta til að ráða bót á þeim mikla vanda sem hv. síðasti ræðumaður gerði vel grein fyrir varðandi húsnæðismálin.

Ég hef hér minnt á hvernig frv. Magnúsar H. Magnússonar var með tilliti til eflingar Byggingarsjóðsins og það var ekki gott en verri og ekki sambærilegur er þó hlutur hæstv. núv. ríkisstjórnar. Magnús H. Magnússon gerði ráð fyrir að Byggingarsjóðurinn héldi 2% af launaskatti eins og hann hefði haft. Ég held að honum hafi ekki komið annað til hugar eða þeirri ríkisstj. sem þá sat. En núv. ríkisstj. hefur tekið þessi 2% af Byggingarsjóði ríkisins, þannig svipt Byggingarsjóð ríkisins algerlega þessum tekjustofni. Auðvitað segir ríkisstj. að það eigi annað að koma á móti. Ég ætla ekki að fara út í það hér eða hefja almennar umr. um húsnæðismálin. Ríkisstj. segir að það eigi að taka lán, Byggingarsjóður eigi að taka lán, en það er augljóst mál, að það getur ekki komið í staðinn fyrir bein og óafturkræf framlög eins og launaskattinn, ef það er hugmyndin að efla Byggingarsjóð ríkisins eins og þarf.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að fara að hefja hér almennar umr. um húsnæðismálin. En mér þótti rétt að láta þær aths. koma fram sem ég hef gert, um leið og ég fagna allri viðleitni til að ráða bót á því ófremdarástandi sem nú er í lánamálum húsbyggjenda og horfir þó í enn meiri vanda ef ekkert verður að gert.