23.02.1981
Efri deild: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2471 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel að hæstv: sjútvrh. hafi ekki farið algjörlega rétt með áðan þegar hann talaði um að ég hefði skipað nefnd til að endurskoða olíugjaldið. Nefndin var skipuð til þess að athuga hlutaskiptareglur og var ekki bundin við olíugjaldið eitt. Hitt er ljóst, að olíuverðið og þróun olíuverðs koma auðvitað inn í þá mynd og sjálfsagt fyrir nefndina að líta á það m.a. En verkefnið var langtum víðtækara sem fyrir nefndina var lagt. Þessari leiðréttingu vil ég koma á framfæri.

Nú flytur hæstv. sjútvrh. enn einu sinni frv. til laga um olíugjald. Við því er ekki mikið að segja annað en það, að margsinnis hefur það gerst hér áður, að hann hafi flutt þetta frv. í einni eða annarri mynd, og þá ævinlega lýst því yfir, að hann væri andvígur því frv. sem hann væri að tala fyrir. Mér leikur forvitni á að vita hvort svo sé enn.