23.02.1981
Neðri deild: 56. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2647)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að ekki hvarfli að hæstv. félmrh. að mál þetta fái afgreiðslu á þessu þingi. Hér er um mjög mörg nýmæli að tefla í þessari löggjöf sem þurfa nákvæmrar skoðunar við. Hér er gert ráð fyrir að þenja enn út ríkisbáknið, og maður gerir sér ekki alveg grein fyrir rökunum fyrir því, enda var lítið um þau fjallað. Að því leyti var ekki mikið á ræðu hæstv. ráðh. að græða.

Það er einfalt mál að fela mönnum að semja frv. eftir frv. ef lítið er eftir því farið. Og eins og þingheimi er kunnugt hefur ekki lítið verið gert af því, sérstaklega varðandi samvinnu og samráð við verkalýðshreyfinguna. Ég skal í þessu sambandi ekki setja á langar tölur um t.d. allt það samráðsbákn sem upp átti að setja með Ólafslögum og engin tilraun hefur verið gerð til að standa við.

Þetta frv. þarf að fara afskaplega víða, margir menn þurfa að skoða það og kynna sér. Þetta er ekki einfalt mál og ég geti ráð fyrir því, að nefndarmenn, sem frv. fá til umfjöllunar, muni fljótt komast að raun um að margt er hér ofsagt, of nákvæmlega fram tekið. Og náttúrlega á ríkisvaldið að vera með puttana alls staðar þegar um íslensk atvinnufyrirtæki er að ræða. Á hinn bóginn hafa þeir, sem þetta frv. sömdu, ekki gert neina tilraun til að íhuga umsvif erlendra manna hér á landi, ef þessi umsvif eru tengd störfum sendiráða sem hér eru. Hér er 11. gr. óbreytt frá því sem áður var: „Ekki þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir útlendinga í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja,“ stendur þarna.

Á síðasta Alþingi var svarað fsp. frá mér um fjölda starfsmanna erlendra sendiráða í Reykjavík. Það er afskaplega athyglisvert, að samkvæmt þeim upplýsingum, sem fengust frá hæstv. utanrrh., voru langflestir erlendir sendimenn við sovéska sendiráðið. Sovéskir þegnar beint starfandi sem stjórnarsendimenn, skrifstofutæknimenn eða þjónustustarfsmenn voru 35, auk 42 fjölskyldumeðlima. Á hinn bóginn er enginn íslenskur maður starfandi við þetta sendiráð sem hefur svona mikla þörf fyrir starfskraft. Ef tekinn er samanburður við bandaríska sendiráðið, þá voru bandarískir þegnar þar starfandi: stjórnarsendimenn 8, skrifstofutæknimenn 10, samtals 18. Hins vegar eru íslenskir þegnar starfandi sem skrifstofutæknimenn alls 14. Þetta eru mjög athyglisverðar upplýsingar. Bretar hafa íslenska þegna starfandi við sitt sendiráð, sömuleiðis Danir, Frakkar, Norðmenn, Svíar, Sambandslýðveldið Þýskaland og reyndar einnig þýska Alþýðulýðveldið, en á hinn bóginn ekki önnur kommúnistaríki sem hér hafa sendiráð.

Ef við lítum á skrá yfir fasteignir erlendra sendiráða hér á landi sjáum við fljótt að ekkert samhengi er t.d. milli umsvifa sovéska sendiráðsins hér á landi og hinna miklu eigna sem Sovétríkin eiga hér. Og ekkert samráð er milli þess og þeirra hagsmuna sem það á hér að gæta. Þarna hefur hlaupið mikill ofvöxtur í umsvifin hjá nokkrum sendiráðum. Hæstv. félmrh. gleymir algjörlega þessari hlið á því máli sem þetta frv. snertir.

Ég var að vísu ekki í bænum nú um helgina svo að ég hef ekki séð þetta frv. fyrr en núna. Ég yrði mjög þakklátur þess vegna, herra forseti, ef hlé yrði gert á fundinum og mér gæfist tækifæri til að ljúka ræðu minni á næsta fundi deildarinnar á miðvikudag, svo að ég geti frekar kynnt mér efni frv. áður en því er vísað til nefndar. Ég held að það séu heilbrigðari vinnubrögð en að reyna að knýja málið fram nú, ef það væri hægt. Ég fer fram á það, herra forseti, að málið verði tekið út af dagskrá núna og ég fái að fresta ræðu minni þangað til á næsta fundi. Er það ekki hægt? (Forseti: Það mun verða orðið við óskum þm. um að ljúka ekki þessari umr. $g tel þó ástæðu til að láta þá aðila, sem eru á mælendaskrá, taka til máls hér á eftir, en ég mun verða við þeirri ósk að fresta umr. til annars fundar.) Það er nefnilega það. Það er sjaldan orðið við tilmælum þingmanna hér. Klukkan er hálfþrjú, herra forseti, og venjulegur þingfundatími deildarinnar er til kl. fjögur.

Ég held að það hafi ekki komið neinum deildarmanni á óvart hversu langar tölur hæstv. félmrh. setti á í sinni ræðu um það sem kallað hefur verið farandverkafólk. Við höfum orðið vör við það og orðið vitni að því á undanförnum misserum, einkum á þeim tíma þegar hann var sjálfur ritstjóri Þjóðviljans, að allt í einu og skyndilega var gífurlega mikið gert með þetta fólk sem hafði raunar verið gleymt fram að þeim tíma. Og m.a. sá maður, sem hæstv. félmrh. hefur nú hvatt til að semja það frv. sem hér liggur fyrir, Jósep Kristjánsson, ættaður úr Axarfirði af ágætum framsóknarættum þar, var á þeim tíma starfsmaður Verkalýðsfélags Raufarhafnar og formaður félagsins. Og ég man eftir því, að svo mikið var viðhaft af Alþb.-mönnum meðan verið var að auglýsa upp samtök farandverkafólks, að hann var gerður að sérstökum ræðumanni Háskólans hinn 1. des. 1976, má ég segja, eða 1977. (Gripið fram í: 1979.) Mig minnir að hann hafi talað þegar hann var fulltrúi á Alþýðusambandsþingi. Var það ekki 1976 eða 1977? Hvað um það, hvenær sem það hefur verið, þá varð hann að gera hlé á störfum sínum á þessu þingi Alþýðusambandsins til þess að skjótast upp í Háskóla til að tala þar um farandverkafólk og fór það vel úr hendi. Eða var það ekki um farandverkafólk? Guðmundur jaki hristir höfuðið. Hann fylgdist vel með verkalýðsmálum á þessum tíma. Það var um þær mundir sem menn voru að berjast fyrir „samningunum í gildi“ og töldu að fráleitt væri hinn 1. mars 1978 að samþykkja sérstaka löggjöf hér í þinginu um að skerða launin. (Gripið fram í. ) En eins og við munum var mikil barátta um það hér í þjóðlífinu á árunum 1977 – 1978, einmitt á þessum árstíma, að knýja á um öryggi verkafólks, bæði farandverkafólks og annars. Og Jósep þessi var þar framarlega í hópi. (Gripið fram í: Er hann ekki Skaftfellingur í móðurættina?) Það er hann nú ekki, þetta er ekki rétt. Að vísu er hann kominn af Hrólfi Bjarnasyni, en það er miklu lengra í það.

Já, herra forseti, eins og ég var að segja voru miklar umr. um þetta leyti um það, bæði hér á þingi og annars staðar, hvort rétt væri að setja löggjöf um það hér á Alþingi að skerða launin. Og þá töluðu stjórnvöld einmitt um það, að mjög mikils virði væri að reyna að búa svo um hnútana að hinir lægst launuðu, þeir sem verst væru staddir, fengju sérstakar láglaunabætur, — sérstakar láglaunabætur, gagnstætt því sem nú er talað um í sambandi við brbl. sem gefin voru út í des. Í þeim var ekki gert ráð fyrir neinu af því tagi svo að naumast er við því að búast að það gangi fram.

Aftan við það lagafrv., sem hér liggur fyrir, er prentað sérálit Þorsteins Pálssonar við 3. gr., svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Félmrh. veitir atvinnurekendum atvinnuleyfi fyrir útlendinga, ef sérstakar ástæður þykja mæla með því, svo sem ef um er að ræða erlenda sérfræðinga eða aðra kunnáttumenn, sem ekki verða fengnir innanlands, eða ef atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl, sem ekki er fáanlegt innanlands.

Útlendingar skulu njóta launa og starfskjara sem heimamenn og hafa réttindi og bera skyldur í samræmi við viðkomandi kjarasamning.

Áður en atvinnuleyfi er gefið út skal leita eftir umsögn viðkomandi verkalýðsfélags eða landssambands, ef ekki er verkalýðsfélag á staðnum.

Sé útlendingur ráðinn erlendis getur ráðh. sett það skilyrði fyrir útgáfu atvinnuleyfis, að atvinnurekandi greiði ferð útlendings frá Íslandi að ráðningartíma loknum, svo og ef um er að ræða heimflutning vegna veikinda, sem gera útlendingi ókleift að vinna út ráðningartímabilið að mati læknis.

Skilyrði þetta gildir eigi, ef útlendingur riftir ráðningarsamningi af ástæðum sem atvinnurekandi á ekki sök á. Ráðh. er enn fremur heimilt að binda atvinnuleyfi því skilyrði, að atvinnurekandi hafi hæfilegt húsnæði fyrir útlendan starfsmann meðan ráðningarsamningur er í gildi, ef hinn útlendi starfsmaður hefur ekki slíkt húsnæði sjálfur.

Heimilt er félmrh. að veita nafnlaust atvinnuleyfi til bráðabirgða. Fullnaðaratvinnuleyfi má ekki veita fyrr en fyrir liggur heilbrigðisvottorð viðkomandi starfsmanns ásamt yfirlýsingu um síðasta dvalarstað áður en komið er til landsins. Fullnaðaratvinnuleyfi má eigi heldur veita nema fyrir liggi undirrituð yfirlýsing útlendings þess efnis, að hann hafi kynnt sér þær upplýsingar sem kveðið er á um í 5. gr. þessara laga. Heimilt er ráðh. að víkja frá skilyrðum þessarar málsgreinar þegar í hlut eiga ríkisborgarar annarra Norðurlanda.

Óheimilt er að veita útlendingi atvinnuleyfi sem ekki hefur dvalarleyfi hér á landi samkv. lögum nr. 45 1965, um eftirlit með útlendingum, eða hefur verið gert að fara af landi brott samkv. þeim lögum.“

Þannig vill Þorsteinn Pálsson orða 3. gr.

Ég vil nú, herra forseti, aðeins skjóta því inn, að löngu fyrir jól lagði ég fram frv. um að afnema flugvallagjald. Það fékkst ekki tekið fyrir á síðasta fundi vegna þess að öðrum málum þurfti að koma fram sem ríkisstj. hafði lagt fram miklu síðar. Það fæst ekki heldur fyrir tekið á þessum fundi á undan því máli sem til umr. er. Og hæstv. forseti getur ekki hugsað sér að hliðra til fyrir þingmenn, að þeir geti kynnt sér mál eins og beðið er um. Þarf þó ekki langa íhugun til að sjá að sú beiðni, sem ég bar fram, var ekki óeðlileg, nú yrði gert hlé á umr. til þess að geta kynnt sér málin með eðlilegum hætti. (Forseti: Út af ummælum hv. þm. vil ég endurtaka það sem ég sagði hér áðan, að ég verð fúslega við þeirri ósk hans, að þessari umr. verði frestað, að málinu verði ekki vísað til nefndar, heldur verði umr. frestað til næsta fundar. En eins og ég tók fram eru hér nokkrir á mælendaskrá, og ég vil ljúka ræðum þeirra.) Ég óska þá eftir því, herra forseti, að fá að gera hlé á minni ræðu, að henni verði frestað. (Gripið fram í.) Það er nú ekki þannig samkvæmt fundarsköpum. En er það samþykkt, þannig að ég haldi mínum óskoraða rétti til að tala tvisvar? (Gripið fram í.) Er hæstv. forsrh. eitthvað órólegur? Svo vil ég einnig spyrjast fyrir um það, hvort frv. mitt um flugvallagjald verði tekið fyrir á þessum fundi — eða kannske ekki á næsta fundi heldur? (Forseti: Næsta mál á dagskrá á eftir þessu máli er flugvallagjald, frv., 126. mál, sem hv. þm. hefur framsögu fyrir.) Ég veit nú satt að segja ekki hvort á að gera það fyrir hæstv. forseta, vegna þess að það er skemmtilegra að kljást við aðalforsetann ef um deilur er að tefla. En ég vil aðeins ítreka óánægju mína yfir þessu og mælast til að til þess verði tekið tillit á næsta fundi deildarinnar um þetta mál, ef ástæða verður til, að ég hafi óskoraðan ræðutíma og geti fengið að tala um málið á þeim grundvelli.