03.03.1981
Sameinað þing: 55. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

383. mál, símamál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur nokkru sinnum í þessum umr. verið vikið að þm. Reykv. Það er ekki rétt að nota slíkt orðalag í þessari umr. þótt örfáir einstaklingar í okkar hópi hafi kosið, í þessu máli sem og öðrum, að gerast sérstakir talsmenn ójafnréttis í landinu. Mér finnst það miður, að margir félagar mínir í hópi þm. Reykv. hafa bæði í þessu máli og á fyrri þingum reynt að slá sig til riddara í augum kjósenda hér í Reykjavík með þeim hætti að verja það gífurlega misrétti sem tíðkast hér í landinu hvað snertir verðlag á grundvallarþjónustu eins og rafmagni, hita og símakostnaði. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að þeir, sem kjörnir eru fulltrúar fyrir þetta kjördæmi, geri það að sínum verkum hér á Alþingi að verja það hrikalega misrétti sem hér ríkir í verðlagningu á nauðsynlegum heimilisútgjöldum, hvort sem það er rafmagn, hiti eða sími. Ég vil þess vegna í þessari umr. — líkt og ég hef gert áður þegar hliðstæð mál hafa verið til umr. — lýsa því yfir, að ég er eindregið þeirrar skoðunar og mun halda áfram að berjast fyrir því, hvað svo sem einstakir félagar mínir úr hópi þm. Reykv. segja, að það eigi að jafna þennan kostnað. Það á að stefna að því að sama verðlagning verði á grundvallarþjónustu til heimilanna í landinu hvar sem menn búa.

Ég greiddi atkvæði á sínum tíma með verðjöfnunargjaldi á raforku, þrátt fyrir það að ýmsir og reyndar flestir þm. Reykv. greiddu þar atkvæði á móti. Ég hef ekki orðið var við það, að einn einasti kjósandi minn í hópi Reykvíkinga hafi mótmælt þeirri ákvörðun, ekki einn einasti. Ég hef ekki trú á því, að þeir, sem hér gerast talsmenn þessa misréttis úr hópi þm. Reykv. eigi yfirleitt meiri hljómgrunn í þessu máli heldur en hinir. Ég vil þess vegna að lokum, herra forseti, beina því til félaga minna úr hópi þm. Reykv., að þeir hugi vel að sínum málatilbúnaði áður en haldið verður áfram á þeirri braut — sem því miður hefur oft verið gert hér á Alþingi — að magna ríginn milli landsbyggðar og Reykjavíkur. Það þjónar ekki hagsmunum Reykvíkinga að þm. þeirra hér gerist talsmenn þess að halda áfram því misrétti sem ríkir í landinu.