10.03.1981
Sameinað þing: 59. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (2927)

202. mál, þingmannanefnd er vinni að auknu samstarfi Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um kjör þingmannanefndar er vinni að auknu samstarfi Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga. Flm. þessarar till. eru úr öllum flokkum. Auk mín eru flm. hv. þm. Stefán Jónsson, Halldór Ásgrímsson, Sverrir Hermannsson, Matthías A. Mathiesen og Páll Pétursson.

Í till. er gert ráð fyrir því, að Alþingi álykti að kjósa fjóra þingmenn í nefnd, einn úr hverjum þingflokki, er hafi það hlutverk, ásamt þingmannanefndum frá Færeyjum og Grænlandi, að vinna að auknu samstarfi um sameiginleg hagsmunamál þjóðanna.

Lengi hefur verið um það rætt á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi, hve nauðsynlegt sé að auka öll samskipti þessara þjóða á þeim mörgu sviðum er hagsmunir þeirra gætu verið sameiginlegri. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þessa átt. Á síðari árum hefur áhugi manna einkum beinst að því, að þessi samvinna gæti komist í fastar skorður og að hún tæki á sig ákveðnari mynd en verið hefur.

Samskipti þessara grannþjóða hafa verið nokkuð tilviljanakennd, en þeim ekki beint í ákveðinn farveg. Engin ein þjóðanna getur tekið ákvörðun um hvernig samstarfinu skuli háttað, og er því nauðsynlegt að koma á fót fastri samstarfsnefnd þingmanna þjóðanna er móti og geri tillögur um hvaða leiðir skuli farnar. Samstarfið getur verið á breiðum grundvelli, og má þar nefna atvinnu- og landbúnaðarmál, samgöngumál, orkumál, menningarmál, og þó ber einkum að nefna fiskveiðar og fiskvinnslumál.

Ég vil aðeins staldra við fiskveiðar og fiskvinnslumál og minna hv. þm. á þá afburði sem hafa verið að gerast að undanförnu við Grænland, þar sem Efnahagsbandalag Evrópu hefur alfarið í sinni hendi úrskurðar vald um hvað veitt er og hvernig veitt er á heimamiðum Grænlendinga, en þeir sjálfir geta ekki rönd við reist. Ég tel, ásamt með væntanlega öllum flm., að við verðum að átta okkur á hinum gífurlega áhrifamætti þessara þriggja þjóða ef þær standa saman. Þær ráða yfir einhverju stærsta hafsvæði heims og líklega einhverju mesta matarforðabúri veraldar. Þessi þáttur í samskiptum þjóðanna er því brýnni en flestir aðrir sem hér um ræðir.

Innan Norðurlandaráðs hefur talsvert verið fjallað um samvinnu af þessu tagi og nefnd embættismanna hefur skilað ítarlegu áliti um nauðsyn á nánara samstarfi þessara þriggja þjóða hér norður í hafi, þó svo að þessi tillaga sé hvergi bundin því áliti embættismannanna. Hins vegar er hún í fullu samræmi við þær umræður sem fram hafa farið innan veggja Norðurlandaráðs á undanförnum árum, og má geta þess í sambandi við tillöguna, að sérstök nefnd hefur starfað frá því í desember á s. l. ári, sem í eiga sæti embættismenn frá Íslandi og Færeyjum, og embættismenn frá Grænlandi munu einnig bætast í þá nefnd. Þessi nefnd hefur á fjárlögum Norðurlandaráðs fengið talsverða peningaupphæð til þess að ráða starfsmann.

Um þessar mundir mun verið að ráða þennan starfsmann og hann mun annaðhvort hafa aðsetur í Færeyjum eða hér á Íslandi. Hafi hann aðsetur hér á Íslandi mun hann starfa hjá byggðadeild Framkvæmdastofnunar, en hafi hann aðsetur í Færeyjum mun hann einnig hafa aðstöðu til starfa hjá byggðadeild Framkvæmdastofnunar.

Þessum starfsmanni er ætlað það hlutverk að vinna að margvíslegum verkefnum sem gætu stuðlað að nánari samvinnu þjóða á þessu svæði, sem stundum hefur verið nefnt „Vest-Norden“, en þar eru fyrrnefndar þrjár þjóðir einkum hafðar í huga.

Ég legg mikla áherslu á það, að þessi till. fái skjótan framgang. Hún hefur þegar fengið mjög skjótan framgang á Landsþinginu í Færeyjum, þar hafa verið kjörnir þingmenn í samstarfsnefnd af þessu tagi, og Grænlendingar hafa mikinn áhuga á því að flýta kjöri sinna manna í þessa nefnd. Nú er ekki þar með sagt að sá þingmannahópur, sem kjörinn verður í þessa nefnd, þurfi allur að starfa í þessari samstarfsnefnd, heldur geti hann innan sinna vébanda kjörið einn eða tvo menn í einhvers konar undirnefnd. En brýnast er að þetta mál fái nú skjótan framgang og að við sýnum í verki að við höfum áhuga á samstafi þessara þriggja þjóða sem við í skálaræðum höfum oft stór og falleg orð um að við þurfum að taka upp bætt og betra samstarf við.

Sannleikurinn er nefnilega sá, að við höfum átt samskipti við þessar þjóðir meira eða minna þegar það hefur komið okkur sjálfum vel, og það er okkar skömm. Þess vegna tel ég að samstarf, sem gæti verið virkt árið um kring, gæfi betri árangur, við gætum undirbúið sameiginleg hagsmunamál og — eins og ég gat um áðan, — einkum og sér í lagi þau mál er varða hin miklu verðmæti í hafi okkar, og einnig það, að það hafsvæði, sem við ráðum yfir, er nú eitt hernaðarlega mikilvægasta svæði á norðurhveli jarðar, og er það mál út af fyrir sig.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu. Ég tók það fram, að flm. væru úr öllum flokkum. Að lokinni þessari umr. óska ég eftir því, að málinu verði vísað til utanrmn., og ég vænti þess fastlega að hún sjái sér fært að afgreiða till. hið allra fyrsta.