17.03.1981
Sameinað þing: 61. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

233. mál, fjármagn til yfirbyggingar vega

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram í sambandi við þessa fsp. Hér er um að ræða leiðir eða vegi sem hljóta að flokkast undir lífshættulega vegi. Við 1. umr. um vegáætlun hér á hv. Alþingi ræddi ég þetta mál og nauðsyn þess, að þessir þrír lífshættulegu vegir yrðu teknir til meðferðar í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar, sem nú er unnið að, sem sérstakt verkefni.

Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að þetta er mál sem er ekki hægt að víkja sér undan öllu lengur. Hér er um leiðir að ræða sem eru lífsnauðsynlegar fyrir íbúa á þessum svæðum öllum að því er varðar öryggismál og eins atvinnumál og umferðarmál, bæði hvað varðar vegakerfið og ekki síður í sambandi við flugmál. Ég vil þess vegna taka undir það, að mjög brýnt er að við afgreiðslu vegáætlunar, sem fram undan er, fáist samstaða um það hér í hv. Alþingi að taka þessa vegi undir sérstök verkefni. Ég mun beita mér fyrir því og ég vænti stuðnings hv. síðasta ræðumanns við að í fjvn. verði sú niðurstaðan að leggja þetta til.