19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (3120)

181. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra farseti. Frv. það, sem hér um ræðir, hefur alloft verið á ferðinni hér á Alþingi, fyrst vorið 1976. Það hefur margsinnis verið flutt, en aldrei hlotið fullnaðarafgreiðslu. Réttarfarsnefnd hefur endurskoðað þetta frv. frá því að það kom hér fyrst fram í upphaflegri gerð og þannig, í endurskoðaðri mynd, var það lagt fyrir 102. löggjafarþing, en hlaut þá ekki umfjöllun.

Allshn. þessarar deildar hefur fjallað um þetta frv. og fengið til viðræðna við sig m. a. ráðuneytisstjóra dómsmrn. Nefndin er sammála um að mæla með samþykkt frv. með einni brtt. Í frv. segir nú í 44. gr., að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1981. Af eðlilegum ástæðum flytur nefndin nú þá brtt. að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1982.

Í þessu frv. felast nokkur nýmæli sem flest miða að því að gera gang þessara mála greiðari en verið hefur.

Í fyrsta lagi er lagt til að sáttanefndir verði lagðar niður og sáttastörf þess í stað falin dómurum.

Í öðru lagi að tekinn verði upp aðalmálflutningur mála, þar sem fram komi þær skýrslur sem gefa á munnlega, og síðan fari munnlegur málflutningur fram í beinu framhaldi af því.

Í þriðja lagi verði úrskurðir að jafnaði án forsendna og dómar verði styttir.

Í fjórða lagi hefur þetta frv. í för með sér að nokkrir sérdómstólar verði lagðir niður, þ. á m. sjó- og verslunardómur, merkjadómur í Reykjavík og á Akureyri og aðrir fasteignadómstólar.

Í fimmta og síðasta lagi eru í frv. tillögur um einstök atriði sem eiga að stuðla að hraðari meðferð dómsmála og ótvíræðari reglum en nú gilda. Um sumt er þar stuðst við venjur sem myndast hafa, t. d. um skriflegar greinargerðir og aðilaskýrslur.

Herra forseti. Ég tel óþarfa að hafa um þetta fleiri orð. Allsn. mælir með samþykkt frv. með þeirri brtt. sem ég hef gert grein fyrir.