30.03.1981
Efri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

258. mál, ný orkuver

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er búið að segja oft í þessum umr. að þetta sé viðamikið frv. Það má vel vera að svo sé, en mér finnst þó í meginatriðum að þetta sé botnlaust frv., vegna þess að í því eða grg. þess eru á engan hátt veitt svör við því sem hlýtur þó að vera grundvallarspurning í allri þessari umr. um virkjunarhraða og virkjunarmagn. Það er spurningin um það, ef á að fara í þær virkjunarframkvæmdir allar sem hér er gerð till. um, hvernig á þá að nýta orkuna á hagkvæman hátt?

Það liggur við að í þessu frv. sé lögð til grundvallar sú forsenda, að það eitt að virkja sé af hinu góða, án þess að meta þá arðsemi sem fæst úr fjármagninu sem til virkjunarframkvæmdanna er varið. Það er nokkuð sérkennilegt, að sá þingflokkur, sem einna helst hefur hallast að hagkerfi arðseminnar og markaðsbúskaparins, skuli hér á Alþingi leggja fram frv. um orkuframkvæmdir án þess að nokkru leyti sé tekið tillit til þessa grundvallarþáttar. Við höfum hér ákveðnar áætlanir um það, hver orkuþörfin sé miðað við aukningu almennrar orkunotkunar í landinu fram til aldamóta. Ef farið er í allar þær virkjanir, sem hér er gerð till. um, þá blasir það við, að allveruleg orka verður afgangs, jafnvel 2000 gwst. eða meira en það, sem flm. þessa frv. — og reyndar ýmsir sem hafa talað á sama veg og t. d. hæstv. viðskrh. gerði hér áðan — þurfa að svara, og það er spurningin um það, hvernig þeir ætla að nýta þessa orku á hagkvæman hátt. Og þá er svarið allt í einu orðið voðalega einfalt, bara eitt orð: Stóriðja, stóriðja. — En við skulum líta til þeirra tveggja stóriðjufyrirtækja, sem hér eru í landinu, og skoða reynsluna af þeim.

Hv. þm. Stefán Jónsson hefur rakið það hér, að þrátt fyrir álit sérfræðinga, sem sett var fram fyrir nokkrum árum, þrátt fyrir það að forsvarsmenn Járnblendifélagsins hafi á hverju ári á undanförnum 3–4 árum lýst því yfir, að á næsta ári færi fyrirtækið að skila hagnaði, þrátt fyrir það blasir sú staðreynd við, að það er stórkostlegt tap á járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Hún er í dag stórkostlegur baggi á orkubúskap landsmanna, eins og hér hefur verið rakið, slíkur baggi að það hefur orðið að taka úr sambandi meginofn verksmiðjunnar.

„Þess vegna ber ég fram þá spurningu til þeirra, sem hér nefna orðið stóriðja sem lausnarorð, hvers konar verksmiðjur? Ef þessir hv. þm. vilja láta taka sig alvarlega, eins og þeirra hátíðlegu ræður benda til, verða þeir að svara því efnislega, hvers konar framleiðsla, hvers konar verksmiðjur'? Er það járnblendi? Er það kísilmálmur? Eru það álverksmiðjur? Hvað eru þessir menn að tala um? Á það er ekki minnst einu orði. Á nýtingu orkunnar er ekki minnst einu orði né farið út í umr. um það, hvað sé hagkvæm nýting.

Þegar sú staðreynd blasir við, að Grundartangaverksmiðjan hefur verið stórfelldur baggi á íslenskum orkubúskap, og það blasir síðan við, að Íslenska álfélagið svokallaða — sem er gerviheiti fyrir Alusuisse — hefur, ef tekinn er rekstur s. l. 10 ára eða svo — ég fer að vísu með þetta eftir minni þannig að ég skal ganga úr skugga um það eftir öðrum leiðum — hefur skilað samtals sem niðurstöðu af rekstri s. l. 10 ára: er það gróði? Nei, það er ekki gróði. Það er tveggja milljarða tap, sem er niðurstaðan af 10 ára rekstri þess fyrirtækis. Ég spyr þá sem stundum tala frekar af óvirðingu um möguleika sjávarútvegsins á Íslandi: Þætti það góður rekstur í sjávarútvegi eða öðrum grundvallaratvinnuvegum landsmanna að þar hefðu fyrirtæki komið út með slíkan taprekstur sem Járnblendifélagið og hið svokallaða Íslenska álfélag hafa gert á undanförnum árum?

Við höfum reynslu af tveimur stóriðjufyrirtækjum hér í landinu, og sú reynsla sýnir ótvírætt að bæði fyrirtækin hafa verið stórfelld tapfyrirtæki. Ég skora á þá menn, sem hér eru að leggja til stórfelldari virkjanir til að framleiða afgangsorku til frekari erlendrar stóriðju, að nefna hér þær tegundir af verksmiðjum sem þeir telja arðbærar fyrir íslenskan þjóðarbúskap, sem réttlætanlegt sé út frá tekjumarkmiðum að verja til þeirri gífurlegu fjárfestingu sem hér er um að ræða. Meðan menn nefna það ekki er þetta botnlaus umr., gersamlega botnlaus umr. Mér finnst það vera megingallinn bæði á frv. og þeirri umr. sem hér fer fram. Að vísu er frv. orðað svo sérkennilega, að ekki skuli hefjast handa við Fljótsdalsvirkjun fyrr en samið hefur verið um stóriðju á Austurlandi.

Mér finnst sérkennilegt að hv. þm. Egill Jónsson og hv. þm. Sverrir Hermannsson skuli hafa látið plata sig svona stórkostlega, vegna þess að samkv. þessu frv. liggur ekkert fyrir um það, að virkjað verði á Austurlandi á næstu árum. Sjálfstfl. hefur lagt hér fram frv. þar sem það kemur skýrt fram, að engar ákvarðanir eru um það að virkja á Austurlandi — ekki nokkrar. Ákvörðun um virkjun á Austurlandi er eingöngu tengd því, að hægt sé að semja um erlenda stóriðju. En það er ekki nefnd ein einasta tegund slíkrar stóriðju: hvers konar framleiðsla, hvers konar fyrirtæki. Það er allt saman botnlaust. Ég er alveg viss um það, að þessir herramenn hafa ekki hugmynd um hvers konar framleiðsla er líklegust til þess að geta skilað arði. Þess vegna finnst mér það stórmerkilegur pólitískur atburður, að hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni — sýnir mikla pólitíska snilli hans — skuli hafa tekist að fá Egil Jónsson og Sverri Hermannsson til þess að standa að frv. sem felur í sér að það er skilað auðu um virkjun í Fljótsdal. Það er bara ákvörðun sem vísar inn í blámóðu framtíðarinnar og á alls ekki að vera á dagskrá fyrr en búið er að semja um stóriðju þessa landshluta. Þess vegna var sú ræða, sem Egill Jónsson flutti hér áðan, gersamlega út í hött. Hún var ekkert um þetta frv. Hún var um eitthvað allt annað frv., sem er greinilega bara til í hans eigin kolli, en hefur ekki verið lagt hér fram í hv. deild.

Ég vil þess vegna gera það alveg skýrt, að í þessu frv. er í raun og veru verið að leggja bara til tvennt. Það er verið að leggja til áframhaldandi virkjanir á Þjórsársvæðinu og virkjun Blöndu, svo framarlega sem samningar nást við bændur. Og síðan, einhvern tíma í framtíðinni, ef það kann að finnast hagkvæm stóriðja á Austurlandi, þá á í framtíðinni að virkja á Austurlandi. En það er engin trygging fyrir því í þessu frv., að það finnist slíkur hagkvæmur stóriðjukostur fyrir Austurland — ekki nokkur slík trygging. Reyndar hefur enginn aðili innlendur mér vitanlega, sérfræðingur né annar, lagt fram neina sannfærandi greinargerð um það, hvers konar stóriðja á Austurlandi væri arðbær. Það liggur ekkert fyrir um það enn. Þess vegna skulum við hafa það alveg á hreinu, um hvað þetta frv. er þegar það er í raunveruleikanum skoðað, og það verður örugglega í minnum haft á Austurlandi í langan tíma þegar þeir voru plataðir svo gersamlega, Egill Jónsson og Sverrir Hermannsson, af öðrum þm. í þingflokki Sjálfstfl. Ég skal ekki segja hvort mönnum þyki það tíðindi á Austurlandi, að hv. þm. Egill Jónsson hafi látið plata sig, en ég er alveg viss um að þeim mönnum, sem hafa heyrt Sverri Hermannsson í gegnum árin hafa hátt um Fljótsdalsvirkjun, þykja það mikil tíðindi að hann skuli hafa látið plata sig til að standa að frv. af þessu tagi, þar sem ákvörðun um virkjun á Austurlandi er tengd algerlega og alfarið samningum um stóriðju, þótt ekkert liggi fyrir um það, hvers konar verksmiðjurekstur, hvaða framleiðslugrein eða hvaða rekstrarform sé arðbært í þessum landshluta.

Væntanlega er Sjálfstfl. ekki að leggja það til hér eða hæstv. viðskrh., að það verði bara stóriðja á Austurlandi hvort sem hún verður arðbær eða ekki. Stefna Framsfl. hefur þá tekið miklum stakkaskiptum ef svo er, enda skildi ég viðskrh. ekki þannig. Hann hefur hins vegar sjálfsagt einhverja trú á því, að það finnist einhver stóriðja á Austurlandi sem sé arðbær, en hún hefur ekki fundist enn mér vitanlega. (Viðskrh.: Iðnrh. er að leita.) Já, það eru sjálfsagt margir að leita. En staðreyndin er bara sú, að hún hefur ekki fundist enn, m. a. vegna þess, hæstv. viðskrh., að þau tvö stórfyrirtæki, sem hæstv. ráðh. vill láta stækka hér í landinu, álverksmiðjan og járnblendiverksmiðjan, eru með stærstu tapfyrirtækjum sem hafa verið rekin hér í landinu á undanförnum árum. Þeir hv. herramenn, sem vilja leggja til að farið verði út á þessa braut enn frekar, verða að svara hér spurningum um það í fyrsta lagi, hvers vegna járnblendiverksmiðjan hefur skilað svona miklu tapi, hvers vegna álverksmiðjan hefur skilað svona miklu tapi og hvaða horfur eru á því, að önnur stóriðjufyrirtæki muni reynast arðbærari. Hvaða fyrirtæki eru þessir herramenn þá að tala um? Eru þeir að tala um vinnslu á kísiljárni? Eru þeir að tala um vinnslu á kísilmálmi? Eru þeir að tala um frekari álvinnslu? Eru þeir að tala um eldsneytisframleiðslu? Hvað eru þeir að tala um? Það hefur ekki komið fram í þessum umr., það er skilað auðu hvað það snertir. En samt sem áður tala menn hátíðlega um það, að hér séu á ferðinni einhverjar best undirbúnu og ítarlegustu áætlanir um nýsköpun í íslensku atvinnulífi, en um sjálfa framleiðslustarfsemina er ekkert sagt, ekki eitt einasta orð.

Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé í sjálfu sér að leggjast gegn því hér, að einhverjir slíkir möguleikar séu skoðaðir. Það er ég ekki að gera. Ég er bara einfaldlega að vekja athygli á því, að hv. stjórnarandstaða hér á Alþingi eða aðrir þeir, sem um þessi mál tala, hafa ekki enn þá mér vitanlega lagt á borðið greinargerð fyrir neinu stóriðjufyrirtæki sem er arðbært. Ég skora á þá talsmenn Sjálfstfl. og Alþfl., sem hafa talað í þessum umr. og hafa talað hér á Alþingi fyrir slíkum fyrirtækjum, að nefna tegund framleiðslu, stærð fyrirtækis og annað það sem þarf til að menn geti áttað sig á stærð rekstrareininga, svo að við hinir getum þá skoðað það, hvort hér er á ferðinni till. um arðbært fyrirtæki eða ekki, því að varla vænti ég þess, að þessir herramenn séu að leggja til áframhaldandi göngu á þeirri tapbraut sem járnblendiverksmiðjan og álverið hafa verið. Hef ég þó ekki nefnt þær miklu uppgötvanir sem hér hafa komið fram á nokkrum mánuðum undanfarið um það svindl sem ÍSAL hefur stundað og Alussuisse gagnvart Íslendingum og á eftir að koma enn frekar til umr. hér síðar á þessu ári þegar öll gögn liggja fyrir í þessu máli.

Þá vil ég spyrja hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og þm. Sjálfstfl. aðra, sem hafa talað í þessum umr.: Ef það kemur á daginn eftir gagngera skoðun á gögnum frá Alusuisse og öðrum þeim sem um þessi mál hafa fjallað, að Swiss Aluminium hefur framið svik gagnvart Íslendingum, þau svik sem talað hefur verið um að allar líkur bendi til, hver verða þá þeirra viðbrögð? Vilja þeir áframhaldandi samninga við þetta sama fyrirtæki? Vilja þeir áframhaldandi sölu til þeirra á því raforkuverði, sem hér hefur verið, eða ekki? Eða eru þeir reiðubúnir til þess að ganga inn á sömu braut sem mér fannst hæstv. viðskrh. vera að fikra sig inn á áðan og var eitt af því jákvæða í hans ræðu, lá við að ég segði: Það eina, en ég ætla ekki að gera það vegna þess að kynni að skemma fyrir andanum í stjórnarsamstarfinu. En eitt af því jákvæða, sem hann sagði í sinni ræðu, var að Íslendingar skoðuðu það þá að yfirtaka þetta fyrirtæki sjálfir. Við stöndum frammi fyrir því verkefni, alþm. Íslendinga, sem höfum verið kjörnir til þess af þjóðinni að gæta hagsmuna hennar, að taka ákvörðun um það síðar á þessu ári, þegar fyrir liggur ítarleg skoðun á svindlmáli Alusuisse, að taka afstöðu til þess, hvað við viljum þá gera. Ef öll gögn þess máls benda í lokaniðurstöðu til þess sem í upphafi virtist, þá er augljóst að við stöndum frammi fyrir einhverju stærsta svindlmáli í íslenskri fjármála- og athafnasögu. (ÞK: Er búið að rannsaka þetta?) Nei, ég sagði, ef lokaniðurstaðan verður til þess að sýna fram á það sem í upphafi virtist koma fram. Það er ósköp eðlilegt að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson vilji vona í lengstu lög að svo verði ekki. (ÞK: Vill ekki hv. þm. það líka? Eða vonar hann að hér sé—) Mín von er bundin við það, að þetta mál leiði í ljós fyrir hv. þm. og aðra hvers eðlis erlend auðfyrirtæki eru í viðskiptum við Íslendinga. Við skulum ekki deila um það, hver niðurstaðan kunni að verða. Við skulum hins vegar vona — komi það í ljós að fyrirtækið hafi stundað hér stórkostlegt fals á gögnum um sölu hráefnis, fals sem m. a. hefur leitt til miklu minni greiðslna til Íslendinga en samningurinn gerir ráð fyrir — að þá hafi stjórnarandstaðan á Alþingi sem og við í stjórnarliðinu manndóm til þess að segja við Þetta fyrirtæki: Hingað og ekki lengra. — Þá standa Íslendingar frammi fyrir því, hvað viljum við gera nú? Viljum við setja fram kröfur um að yfirtaka þetta fyrirtæki? Viljum við setja fram kröfur um að fá raunhæft verð fyrir rafmagnið'? Eða ætla þeir, sem stóðu að álsamningnum á sínum tíma, Geirsarmurinn í Sjálfstfl., aðrir þm. Sjálfstfl. og Alþfl., að lyppast niður og segja bara við Swiss AIuminium: Yðar syndir eru fyrirgefnar.

Við skulum þess vegna átta okkur á því, að þessi stóriðjuumræða er miklu flóknari en komið hefur fram í þessari umræðu fram til þessa. Það að nefna bara eitt orð sem lausn á orkunýtingarvandamálunum er botnlaus málflutningur. Við getum rætt arðsemi hinna ýmsu virkjana sem hér hafa verið nefndar, Fljótsdalsvirkjunar, Blönduvirkjunar, Þjórsársvæðisins. Og það er sjálfsagt að gera það. En þegar menn í tillöguflutningi sínum, eins og bæði málflytjendur Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og Alþfl, hafa gert hér, leggja til stórkostlegar umfram virkjanir, þá er ekki nema tvennt til gagnvart þessu frv. Annað er það, sem ég nefndi áðan, að tillagan um Fljótsdalsvirkjun er gervitillaga. Hún er bundin því skilyrði, að samið verði um stóriðjunýtingu á orkunni og þangað til búið er að semja um það verði ekki byrjað á þeirri virkjun. Þess vegna er það alveg ljóst, að samkv. þessu frv. verður Fljótsdalsvirkjun langsíðasta virkjunarframkvæmdin í þessari röð, og mjög merkilegt að Egill Jónsson og Sverrir Hermannsson skuli standa að þeirri tillögu.

Annaðhvort er niðurstaðan að af klókindum hafi flm. haft Fljótsdalsvirkjun með, en geri sér grein fyrir því, að þeir skilyrði hana á þann hátt, að hún er ekki raunhæfur möguleiki. Hinn möguleikinn er sá, að þessir herramenn viti af einhverri stóriðjuframleiðslu — hvort sem það er járnblendi, ál eða eitthvað annað — sem sé arðbær fyrir Íslendinga, arðbærari en reksturinn af álverinu og járnblendiverksmiðjunni til þessa. En þeir möguleikar hafa ekki enn verið nefndir í þessari umr. Þess vegna skora ég í fullri alvöru á þessa ágætu þm. — vegna þess að ég vil gjarnan að fram fari raunhæf umr. um þessi mál — að þeir nefni slíka kosti, sýni okkur gögnin sem ákvörðun þeirra er byggð á, en séu ekki að leggja fram tillögur um stórkostlegar virkjanir og afgangsorku og hafi svo sjálfir ekki hugmynd um hvernig eigi að nýta hana. (ÞK: En hvað er iðnrh. með? Veit ekki hv. þm. það?) Iðnrh. er alveg fullfær um að svara fyrir sig, og við í Alþb. höfum haft forustu um vönduð vinnubrögð í þessum efnum.

Það væri betur að þeir menn, sem stóðu að Búrfellsvirkjun á sínum tíma og að samningnum við Swiss Aluminium, hefðu haft meiri forsjá en kapp þegar þeir samningar voru gerðir. Þá stæðu Íslendingar ekki frammi fyrir þeim stóra vanda sem þingheimur allur mun standa frammi fyrir síðar á þessu ári. Þess vegna höfum við unnið að þessum málum á þann hátt, að þær ákvarðanir, sem væru teknar, væru skynsamlegar ákvarðanir sem mundu leiða til farsældar fyrir íslensku þjóðina, en ekki binda henni slíka bagga sem þær ákvarðanir leiddu til sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur áður staðið að og hann leggur nú til að verði haldið áfram að binda þjóðinni.