31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3223 í B-deild Alþingistíðinda. (3359)

15. mál, landhelgisgæsla

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki tekið eftir því, að þetta mál var á dagskránni í dag, og það hefði kannske verið betra að vera búinn að hugsa málið svolítið betur áður en komið er hér í ræðustól, en það skaðar ekki að segja örfá orð. Það, sem varð þó til þess að ég kom hér upp í ræðustólinn, var kannske ekki endilega það, að menn hefðu hér ýmsir áhuga, og Alþfl.-menn auðvitað mestan, á því að rétta við hag Landhelgisgæslunnar, heldur það, að þegar ég lít á nál. á þskj. 534 blasir víð að það er frá utanrmn. — Ég heyri að það eru fleiri en ég í salnum sem hafa áhuga á að tala, en það er rétt að nota tímann. — Svo þegar ráðh. sá, sem fjallar um málið, stendur upp kemur í ljós að hann passar ekki alveg við þá nefnd, sem fékk málið til meðferðar, eða þá nefndin ekki við þann ráðh. sem talaði. Ég vissi ekki að landhelgisgæslan væri utanríkismál. Ég undrast hvernig á því stendur að einmitt þetta mál, þar sem fjallað er um gæslu hinnar íslensku landhelgi, er til meðferðar í nefnd sem á að fjalla um utanríkismál. Þau eru að sjálfsögðu allt annars eðlis og um allt annað að tala. Ég heyrði ekki heldur að í ræðu hv. tillöguflytjanda, Árna Gunnarssonar, væri nokkru sinni minnst á utanríkismál varðandi þessa tillögu. Ég óska þess vegna eftir að fá svör við því, hvort einhver sérstök ástæða sé fyrir því að þetta mál fer til meðferðar í utanrmn.

Hv. 1. flm. till., Benedikt Gröndal, sem nú er fjarstaddur og á ekki skilið af mér að ég fari að víkja ómaklega að honum; er í utanrmn. Er það kannske eina ástæða fyrir því, að þetta mál hans fór í nefnd hans? Efnislega á till. ekkert erindi þangað.

Það kemur í ljós af nál., að allir eru hátíðlega sammála um að það þurfi að gera sem mest fyrir Landhelgisgæsluna. Ég er eiginlega — má segja — sammála þeirri hugsun, að það þurfi að fylgjast vel með því, að Landhelgisgæslan sé á hverjum tíma nægilega vel í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem hún þarf að hafa á sinni könnu.

Vegna orða hv. síðasta ræðumanns, Árna Gunnarssonar, um að sjómenn héldu því fram að Gæslan væri óþörf stofnun: Ja, sumir verslunarmenn gera það vafalaust líka og sjálfsagt ekki færri. Ég held að megi segja að menn úr öllum stéttum hafi þetta og hitt álit á landhelgisgæslunni, og finnst mér ómaklegt að nefna sérstaklega sjómenn þar til, því það er rangt að það sé fremur skoðun sjómanna en annarra að Gæslan sinni ekki mikilvægum hlutverkum og sé ekki nauðsynleg. Ég hygg ef það yrði kannað, ef einhver félagsfræðiprófessorinn tæki nú að sér að rannsaka afstöðu fólks almennt til Gæslunnar, þá sé öruggt — þetta er aðeins fullyrðing — að Landhelgisgæslan fengi hærra hlutfall af jákvæðum undirtektum frá sjómönnum en öðrum. Þeir sjá ekkert frekar en aðrir eftir peningunum sem fara í landhelgisgæsluna, nema kannske eins og allir aðrir sjá eftir peningum sem ekki er farið vel með.

Það gæti vel verið að hægt væri að fara betur með peningana sem settir eru í landhelgisgæsluna. Ég er raunar viss um það. Það þarf að hafa stjórn á svona miklum peningum, fylgjast vel með notkun þeirra og kaupa fyrir gagnlega hluti og í sambandi við gæsluna þannig t. d. að Gæslan þurfi ekki að vera með neitt afgamalt drasl í staðsetningartækjum.

Ég trúi því ekki, að strandgóss sé uppistaðan í tækjunum hjá Ægi. Hefur hann ekki mjög góða radara til að staðsetja sig upp við strönd? Hefur hann ekki fullkomin Loran C tæki? Það er helsta staðsetningarkerfi sem við notum hér við strendurnar — að vísu misjafnlega ábyggilegt, eins og við vitum, eftir því hvar er.

Ég veit ekki hvort Gæslan notar önnur staðsetningartæki eða getur notað hér Omega-kerfi eða annað þess konar. En auðvitað þarf að gæta þess fyrst og fremst, að Gæslan sé með fullkomin staðsetningartæki, því að þurfi hún að hafa afskipti af t. d. erlendum veiðiskipum nálægt eða við landhelgismörkin þurfa gæslumenn auðvitað að vera 100% vissir um hvar þeir eru staddir á sjónum. Það má ekki miklu muna, eins og við vitum.

Ég á afar bágt með að trúa því, að þessi skip, Týr og Ægir, tvö bestu skip okkar, séu ekki sæmilega búin tækjum. Ef svo er ekki er þarna hreinlega um að ræða mistök eða óstjórn eða hvað á að segja- ég þori varla að nota sterkustu orð. Það á auðvitað ekki að eiga sér stað að menn notist við úrelt drasl, kannske 10 ára gamalt eða meira, í þessum „elektrónísku“ tækjum. Það þarf að fylgjast vel með því. Og að um strandgóss sé hér að ræða getur ekki átt sér stað.

En það er líka hugsanlegt að við ættum að haga útgerð þessara skipa öðruvísi. Ég veit ekkert um það. Þau eru með gífurlegan vélarkraft og þurfa náttúrlega stundum að gripa til hans. Þau eyða mikilli olíu. Þau keyra á dísilolíu, en ekki svartolíu. Ég veit ekki með snúningshraða þessara véla eða annað í sambandi við þeirra búnað, hversu þungar þær eru, hvort þær geta notast við svartolíu eins og önnur skip. Það ætti að vera hægt á a. m. k. lengri keyrslum að brúka hana á varðskip eins og önnur skip. Það er auðvitað verra að nota svartolíu á skipum sem hafa mjög breytilegt álag á vélum, það þekkjum við, en annað eins er nú gert og að nota dísilolíu meðan verið er að hita vélina o. s. frv. sem við nennum ekki að ræða hér. En það má víða spara án þess að það komi niður á verkefnum t. d. Gæslunnar.

Það er líka hugsanlegt að hægt sé að nota skip sem ekki þurfa að vera með á milli 20 og 30 manns um borð til þess að koma skipinu á milli staða. Það er ekki svo flókið mál að færa skip á milli staða á sjónum hér í kringum landið né heldur vandasamt, og ég er ekki viss um að jafnmarga menn þurfi kannske í vél nú eins og var áður á skipum meðan kynt var með kolum. Nú eru vélar orðnar þannig að það þarf ekki eins mikið lið til að keyra þær, og ég er ekki viss um að það væri fráleitt að spara mætti talsvert fé í mannahaldi miðað við skipafjölda, þó að ég sé ekki að leggja til að við fækkum mannskap, heldur að það væri hugsanlega hægt að fjölga skipum með sömu afköstum og gæðum án þess að bæta við mannskapinn. Þetta dettur mér í hug í augnablikinu.

Varðandi flugmálin öll og Gæsluna er það löng saga og satt að segja ekkert sérlega skemmtileg. Það eru ýmsir kaflar í flugsögu Landhelgisgæslunnar einkennilegir, og munum við eftir ýmsum tilfæringum í sambandi við DC- 4 vélina, í sambandi við Albatros-bátana og þar fram eftir götunum og síðan kaupin á Fokkerunum, tveimur 50 manna farþegavélum. Það er mikil spurning hvort menn eiga að fara út í slík flugvélakaup og hvort það er nauðsynlegt að hafa svona stórar flugvélar; óhentugar vissulega að sumu leyti í lágflugi. Þær þola illa seltuna þegar menn eru að leika sér að því að kíkja á númerin og nöfnin á togurunum með vænginn rétt í sjávarskorpunni, — flugvélar sem ættu helst aldrei að fljúga neðar en 14 þús. fet. Það væri hugsanlegt að það væri hægt að nota miklu minni flugvélar með álíka mikið flugþol, t. d. Beecheraft eins og flugmálastjórnin eða af öðrum gerðum. Þær geta vel verið með loftnet fyrir Loran C og öll siglingatæki. sem menn hafa í flugvélum. Það mætti hafa alls konar tæki af því tagi. Það eru til fullkomnir „lóranar“ í slíkar flugvélar. Það eru t. d. Inerty siglingatæki og fleira og fleira sem þar kemur til álita. Þetta geta þessar vélar allt saman borið. En þær eru miklu, miklu ódýrari í rekstri, miklu ódýrari í innkaupum og fer ágætlega um menn í þeim.

Ég er viss um að þeir, sem kíkja eftir ís í kringum landið á þessum dögum, sjái betur til íssins í flugmálastjórnarvélinni en í Fokkernum, þó ekki væri fyrir annað en að gluggarnir í Kingernum eru „pólariseraðar“ þannig að við getum bara snúið þeim til og séð ísinn í birtu eins og okkur þykir best. Svo mætti lengur telja. Ég er viss um að ef talað hefði verið við menn, sem þekkja til flugvéla og þess háttar af langri reynslu, kæmi í ljós hvað væri heppilegast, — auðvitað nógu gott, annað sæmir ekki Gæslunni en ódýrara og betra í rekstri og eiga þá fleiri vélar.

Ég get ekki skilið og hef aldrei botnað neitt í þyrlukaupum Gæslunnar. Það væri fróðlegt að vita hvernig hún passar aftan á varðskipin þessi nýja þyrla, Sikorsky, sem nýbúið er að kaupa. Hún er ekki hæf til þess að stunda langa björgunarleiðangra til hafs. Svona dýrar vélar, sem kosta milljónir gamalla króna á flugtíma, henta ekki til landhelgisgæslu, við strandgæslu hér, við að passa að bátarnir séu ekki að þvælast of grunnt út af Pétursey eða Dyrhólaey eða Ingólfshöfða eða einhvers staðar þar sem þarf að fylgjast með þeim. Þar er miklu betra að hafa minni vélar sem koma innan af hálendinu og demba sér yfir þá. Það þarf ekki að kenna þeim kúnstirnar, þeir þekkja þær sjálfir landhelgisgæslumenn.

Þessi þyrlumál hafa löngum verið einkennileg. Þyrlur eru ákaflega dýr tæki í rekstri. Ég teldi að það væri t. d. afar gott að eiga tvær til þrjár vel búnar tveggja hreyfla vélar með góðum mótorum — skrúfuþotur — tvær til þrjár slíkar vélar með mikið flugþol, 8, 9 eða 10 tíma eftir atvikum, að sinna þessu verkefni.

En það er verulega alvarlegt mál ef satt er hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, — ég efast ekki um að hann hefur reynt að kynna sér þessi mál, — en ég á óskaplega erfitt með að trúa því, að nú í byrjun árs séu menn farnir að spara þannig olíuna að varðbátarnir komist ekki til hafs. Það er útgerð í lagi ef menn fá ekki einu sinni olíu á tanka til að stunda gæslustörf. Það verður að sjá til þess að fiskveiðiþjóð eins og Íslendingar, sem eiga bráðum 100 togara og geta gert þá út, að því er sagt er, eigi olíudropa handa þessum varðskipum. Annað er ekki sæmandi. Ég trúi því varla. Eitthvað er þá einkennilegt við reksturinn.

Ég hef grun um að það sé óæskileg setning í lok grg. á þskj. 16, þvert ofan í skoðun hæstv. dómsrh., þar sem segir að nefnd þessi þurfi að vera bundin trúnaðarskyldu. Hún á einmitt ekki að vera bundin trúnaðarskyldu. Við eigum að opna þetta þannig að það sé ekki verið að fara í neina launkofa með þessi mál. Það á að opna þessi mál eins og önnur því að það er erfiðara að gera vitleysur ef menn vita að öllum verði augljóst eða megi vera a. m. k. það sem þarna er að ske. Þetta eiga ekki að vera nein leyndarmál. Það er hægt að þegja yfir því, hvert flugvélarnar eru að fara eða hvar varðskipin gráu halda sig. Það má þegja yfir því og sjálfsagt og skylt, en ekki yfir því, hvernig farið er með milljarða kr. Það á ekki að þegja yfir því. Það eiga allir að geta fylgst með því, að reksturinn sé góður, skynsamlegur, hagkvæmur og gagnlegur.