01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3312 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er eðlilegt að menn vilji ræða það mál, sem hér er nú til umr., nokkuð ítarlega. En ég held að nauðsynlegt sé, ekki síst með tilliti til þess sem kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að velta fyrir sér örfáum atriðum í þessu máli.

Hver er ástæðan fyrir því, að þetta mál er nú komið hér inn á Alþingi? Jú, hún er sú, að hæstv. félmrh. hefur, a. m. k. í almenningsálitinu og í hugum allflestra Íslendinga, að ég hygg, þverbrotið þau jafnréttislög sem við höfum í landinu. Það er ástæðan fyrir því, að þetta mál er hér komið inn nú og með þessum hætti. Og það er ekki nema eðlilegt að þeim, sem kannske hafa talað hæst fyrir jafnrétti, hæst hafa haft í orði, en sýna síðan á borði að þeir virða ekki slíka löggjöf, — það er ekki nema eðlilegt að þeim sé svarað eins og hér er gert þegar rætt er um Alþb. sem slíkt. Þó að ekki verði komið lögum yfir hæstv. félmrh. í þessu máli, eins og hugur alls almennings hefði staðið til, þá er — (AG: Þá er söm hans gerð.) Þá er söm hans gerð, já, hv. þm., það er rétt. En það breytir ekki því, að það er nauðsyn á að fá löggjöf sem veiti konum rétt til jafns við karla, og það getur verið þörf á því í versta tilfelli, það skal ég viðurkenna, í versta tilfelli að stíga skref eins og t. d. hér er gert ráð fyrir, þegar menn neita jafnréttinu þó að löggjöfin sé fyrir hendi.

Mér ofbýður sú sýndarmennska hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur að rjúka nú hér upp og tilkynna að hæstv. félmrh., sökudólgurinn sjálfur í málinu, ætli nú að skipa nefnd til þess að gera tillögur um breytingar á löggjöfinni, — nefnd líklega til þess að leiða í ljós sök hans gagnvart lögunum nú. Við höfum ekkert að gera með nefnd, ef hún á að starfa í sama anda og hæstv. félmrh. hefur gert. Við höfum nóg af slíku. Hæstv. félmrh. hefur ekkert látið til sín heyra hér í kvöld og er, að mér sýnist, fjarstaddur umr. (Gripið fram í: Hann er í húsinu.) Hann er í húsinu, já, kannske hann heyri til mín, vonandi. En ég spyr bara: Af hverju er þessi hv. þm., Guðrún Helgadóttir, að flytja brtt. við þetta frv., ef það er mikill áhugi og kannske ákveðinn hjá hæstv. félmrh. að skipa nefnd í málið til þess að koma nauðsynlegum leiðréttingum og lögum yfir sjálfan sig?

Menn vita allir að undirrót þessa máls er sú margumrædda embættisveiting fyrir norðan. Það er ástæðan fyrir því, að þetta mál er komið hér upp á Alþingi, og það er ástæðan fyrir því, að öll umræða um málið meðal fólks í landinu hefur verið á þann veg einan, að ég held, að það telur að hæstv. ráðh. hafið virt að vettugi anda laganna og að öllum líkindum lagabókstafinn sjálfan, eins og hann var meintur þegar löggjöfin ver sett. Það er ástæðan fyrir þessu máli, og það breytir ekki eða bætir stöðu hæstv. ráðh. þó að hér sé lýst yfir af hans flokksbræðrum að væntanleg sé nefndarskipun í málið. Það er best að fá úr því skorið, hvernig þessir hv. þm. Alþb., sem mest hafa um þetta mál talað, koma til með að greiða atkv. í málinu eða hvort þeir ætla sér að drepa málinu á dreif og svæfa það. En það segir líka sína sögu ef það gerist.

Það er auðvitað neyðarúrræði að þurfa að lögfesta ákvæði eins og hér um ræðir. En það getur verið nauðsynlegt þegar æðstu embættismenn þjóðarinnar, fulltrúar fólksins í landinu, virða að vettugi þau lög sem Alþingi hefur sett og þeim ber skýlaus skylda til að fara eftir. Þá getur verið þörf á því. Og ég sé ekki betur en að slík þörf sé fyrir hendi í þessu tiltekna máli.