02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3403 í B-deild Alþingistíðinda. (3476)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram í umr. áðan að það væri skaðlegt að við hefðum ekki hernaðarsérfræðing, og vissulega mundi það auðvelda ákvarðanatöku á þessu sviði ef svo væri. Reyndar vitum við ekki hve mikið vantar á að við höfum hernaðarsérfræðing fyrr en við fáum hernaðarsérfræðing. Þá væri hægt að gera samanburð á þeirri þekkingu, sem hér hefur verið á borð borin, og þeirri þekkingu, sem væri hin eina sanna og rétta.

Hins vegar kom það fram að formaður þingflokks Alþb. lýsti því yfir, að hann teldi það skyldu sína að hafa á það jákvæð áhrif hvar hernaðarmannvirki væru staðsett í þessu landi, ef þau væru staðsett í þessu landi. Jafnframt kom það fram, að þeir þm. Alþb. eru reiðubúnir að benda á ákveðinn stað sem þeir telja æskilegri en aðra staði til mikilla muna svo að staðsettir verði þar olíugeymar varnarliðsins sem nú valda mengun og er ekki um deilt. Það kom einnig fram í ræðu hv. þm., að það, sem rætt er í utanrmn., er algert leyndarmál og ekki ætlað að verði gert opinbert. (Gripið fram í: Nema sérstaklega sé ákveðið.) Þess vegna gæti svo farið, ef ekki yrði sérstaklega ákveðið, að þingheimur fengi aldrei að vita hverjar tillögur Alþb. eru í þessu máli. Ég tel að þó að auðvitað væri hentugra að útskýra þetta með landabréfi og skipulagi á landabréfinu sé hægt að gefa þetta upp í staðarnöfnum, þó að lengd og breidd verði látin liggja milli hluta, og menn leiti svo að því á kortinu, þegar þeir koma heim til sín, hvar þessi staður er, vegna þess að það má hv. þm. fullkomlega ljóst vera að lausn þarf að fást í þessu máli.

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim fróðleik sem hv. þm. hafði fram að færa um hvar sprengjum verði varpað á Ísland ef til kjarnorkustyrjaldar kemur. Ég hef enga ástæðu til að efa að hann viti hvað hann er að tala um í því sambandi. Ég hef enga ástæðu til að efa það og treysti mér yfirleitt sakir þekkingarskorts alls ekki til að deila við hann um það atriði. En vissulega sýnist mér að það væri jákvætt ef olíugeymarnir væru allir á einum stað, hvaða skoðanir sem menn hafa svo á tilvist þeirra. Það sýnist mér að væri jákvætt af þeirri ástæðu sem hér hefur verið rakin.

En aðalatriðið með því að koma hér upp var sem sagt að skora á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, 11. þm. Reykv., að tala hér ekkert tæpitungumál um þessi efni í trausti þess að þingheimur og þjóðin sé fær um að hlusta á málflutning hans í þeim efnum án þess að hafa neina trú, aðeins skoðanir. Vissulega eru menn ekki svo blindir að þeir horfi á eina vík sem endanlegan leik og allt annað sem vonlausa taflstöðu í þessum efnum. En við viljum fá spilin á borðið og ég mælist til þess að hann hafi það hugrekki að hann leggi þau á borðið hér og nú.