10.04.1981
Neðri deild: 78. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3633 í B-deild Alþingistíðinda. (3716)

217. mál, lánsfjárlög 1981

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns geta þess og vekja athygli manna á því, að flestallir hæstv. ráðh. eru fjarverandi þessa umr. þ. á m. sá hæstv. ráðh. sem er flm. þessa máls. Gerist það nú æ og aftur, þegar rætt er um mál frá ríkisstj. sem hún leggur áherslu á að séu afgreidd, að enginn ráðh. hefur tíma til að vera við umr. og getur því ekki hlýtt á neinar spurningar sem til viðkomandi ráðh. kann að vera beint. Ég vil sem sé fara þess mjög eindregið á leit við hæstv. forseta, bæði nú og framvegis, að hann sjái helst til þess að a. m. k. 1. umr. í jafnstóru máli og hér um ræðir fari ekki fram öðruvísi en viðkomandi ráðh. sé viðstaddur. Það er óvirðing bæði við hæstv. forseta og viðkomandi þd. að tala hér fyrir tómum stólum ráðh. í málum sem þeir leggja höfuðáherslu á að Alþingi afgreiði á nokkrum klukkustundum. Ég vil sem sé spyrjast fyrir um það, hvort hæstv. forseti hafi gert ráðstafanir til þess að hæstv. fjmrh. sinni að þessu leyti þingskyldu sinni. (Forseti: Ég hef gert það.)

Um frv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun sem fylgir hefur þegar verið rætt mikið hér í Alþingi, bæði í ítarlegu máli í Ed. og nú fyrir örfáum dögum í Sþ. Er þeirri umr. raunar ekki lokið. Ég ætla því ekki að þessu sinni að bera í þann bakkafulla lækinn að fara að endurtaka ýmislegt af því sem þar hefur verið sagt, en fara fremur fljótt yfir sögu. Aðeins vil ég þó koma að nokkrum orðum, sem komu fram í furðulegri ræðu hæstv. fjmrh. áðan, og víkja þá fyrst að því, að það er að sjálfsögðu engin afsökun fyrir að vera að afgreiða lánsfjáráætlun nú á vordögum. Þegar lögum samkvæmt ber að afgreiða hana samfara fjárlagaafgreiðslu að hausti til, er það að sjálfsögðu engin afsökun fyrir slíku hátterni þó svo að menn hafi lagt fram eitthvert gerviplagg í des. um hugmyndir manna um ýmis atriði í lánsfjáráætluninni sem svo reyndust ekki hafa neitt hald þegar til kom. Það stendur eftir sem áður óhaggað, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. bar ekki aðeins siðferðisleg, heldur einnig lagaleg skylda til að leggja fram lánsfjáráætlun samhliða fjárlögum. Og þeim bar lagaleg skylda til þess að standa þannig að málum, að lánsfjáráætlun yrði afgreidd fyrir áramót ásamt fjárlögum, til þess að menn gætu fengið heildstæða mynd af ríkisfjármálunum, en þyrftu ekki að vera að afgreiða þau í bitum fram eftir öllum vetri. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki getað gert, og er það einkennilegt til að vita um ríkisstj. sem var fyrst og fremst, að eigin sögn, mynduð til þess að bjarga heiðri og sóma Alþingis. Hún getur ekki einu sinni hagað störfum sínum hér á Alþingi þannig að hún standi við þá starfshætti sem ríkisstjórnum er lögskylt að framkvæma á Alþingi Íslendinga. Það er ekki mikill sómi að því hjá hæstv. ríkisstj., hvað þá þegar umr. fara hér fram dag eftir dag, eins og ég hef vakið athygli á, án þess að nokkur ráðh., sem málið varðar, sé viðstaddur. — Ég vil enn ítreka spurningu mína til hæstv. forseta deildarinnar, hvort hann hafi nokkurn grun um það, að hæstv. fjmrh. sé staddur — ja, mér liggur við að segja í landinu. (Forseti: Það er von til þess, að hann verði mættur hér innan tíðar.) Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. sjái sér færi á að mæta meðan á fundi stendur. (Forseti: Við skulum vænta þess.) — Ég býð hæstv. fjmrh. velkominn til starfa sinna í Alþingi og vænti þess að hann haldi út þó ekki væri nema þær 25 mínútur sem eftir lifa af fyrirhuguðum fundartíma þessarar deildar.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni hér áðan að það skipti engu máli hvort útgjöld ríkissjóðs, hefðbundin venjuleg útgjöld ríkissjóðs, væru fjármögnuð með framlagi á fjárlögum eða með lántöku í lánsfjáráætlun, það kæmi í sama stað niður. Þetta er auðvitað algerlega út í hött vegna þess að framlag á lánsfjáráætlun, lántaka, kemur fram sem breyting á lánahreyfingum, en ekki sem útgjöld á rekstrarreikningi. Og það er náttúrlega alveg fráleitt að halda því fram, að það skipti engu máli hvort hluti af hefðbundnum útgjöldum ríkissjóðs er færður sem lánahreyfing eða til útgjalda á rekstrarreikningi. Það væri teikandi létt að búa til fjárlagadæmi fyrir ríkissjóð, þar sem ríkissjóður væri ávallt rekinn með rekstrarafgangi á rekstrarreikningi og ríkisstj. hrósaði sér yfir því að hafa alltaf jákvæðan rekstrarafgang, með því einu að fjármagna hluta af útgjöldum ríkisins ávallt með lántökum og láta það koma fram sem hreyfingu á lánareikningum.

Þetta hlýtur hæstv. fjmrh. að vita og mér er hulin ráðgáta hvernig hann getur komist að orði eins og hann gerði hér áðan, að það skipti engu máli. Það er einmitt þetta sem hæstv. fjmrh. er að gera núna. Mjög venjubundin útgjöld á venjulegum rekstrarreikningi fjárlaga, eins og afborgun af lánum og vaxtagjöld, sem að sjálfsögðu eiga að færast á rekstrarreikning, t. d. af Kröflulánum, sem samtals munu nema nokkuð á sjöunda milljarð gkr., þeim er nú breytt í fyrsta skipti, svo lengi sem ég man a. m. k., í sérstaka lántöku á lánsfjáráætlun og koma þannig fram sem hreyfing á lánajöfnuði. Og ég verð að taka það fram að þetta hlýtur auðvitað að skipta máli, þegar menn skoða rekstrarreikning ríkissjóðs, að fá ekki nema hlutamynd af heildardæminu þegar búið er að breyta venjulegum rekstrarútgjöldum ríkissjóðs að verulegu leyti yfir í tilfærslur á lánareikningum.

Auðvitað er hægur vandi fyrir hvaða ríkisstj. sem er og hvaða fjmrh. sem er að haga þannig búskap sínum að velja t. d. inn á útgjaldareikning rekstrarreiknings þau útgjöld sem henni hentar og nægja nokkurn veginn til þess að tekjur dugi fyrir þeim, en taka síðan það, sem upp á vantar af rekstrarútgjöldum ríkisins, í erlendum lánum og láta það koma fram sem hreyfingu á lánareikningi og halda því svo fram og sýna reikningstölur úr ríkisbókhaldinu fyrir því, að ekki sé halli á ríkissjóði. Það er þetta sem Verslunarráðið var að benda á. Og mér er alveg hulin ráðgáta ef hæstv. fjmrh. er ekki það vel heima í þessum málum að honum sé þetta mætavel ljóst. Enn verra er þetta búskaparlag að sjálfsögðu þegar margir mánuðir líða frá því að fjárlög voru afgreidd — og útgjöld á rekstrarreikningi ríkissjóðs koma þar fram eins og þau eru áætluð — og þar til lánsfjárlög eru afgreidd, þegar verulegur hluti af rekstrarútgjöldum ríkissjóðs er færður yfir á lánsfjárlögin. Þetta hlýtur hæstv. fjmrh. að vita. Ég furða mig á því, að hann skuli halda að þetta skipti ekki nokkru máli þegar hann í öðru orðinu er að tala um hagstæða afkomu ríkissjóðs. Það er enginn vandi að búa til hagstæða afkomu á rekstrarreikningi ríkissjóðs á hverju einasta ári með svona bókhaldsbrellum.

Það athyglisverðasta í ræðu fjmrh. hér áðan var þó þegar hann var að gera uppskátt fyrir þingheimi að hann hefði fundið í rn. sínu sjálfa erfðasyndina. Hann sagðist hafa orðið þess áskynja eftir að vera búinn að sitja í eitt ár í ráðherrastóli að fyrrv. fjmrh., Matthías Á. Mathiesen, hefði skilið erfðasyndina eftir í fjmrn. Hefur nú hæstv. fjmrh. helst unnið sér það til afreks í fjmrn. að finna sjálfa erfðasyndina þar, og ég ætla að vona fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að hann gæti hennar vel svo að hún komist ekki mikið út fyrir fjmrn.

Ég held að það sé ekki miklu meira sem ég hef við ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan að athuga, og fer ég ekki að gera það tímans vegna, né heldur ætlaði ég að fara mörgum orðum um lánsfjáráætlunina sjálfa, eins og ég sagði hér áðan, af þeim ástæðum sem ég tilgreindi, annað en aðeins að minna menn á að um svipað leyti í fyrra var afgreidd lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj. með samþykkt lánsfjárlaga. Samt sem áður, þó að lánsfjárlög væru afgreidd svona seint, vantaði mikið að þau stæðust. Þau lánsfjárlög, sem afgreidd voru á s. l. vori, voru raunar merkingarlaus vegna þess að svo til hver einasta tala, sem tiltekin var í afgreiðslu Alþingis, stóðst ekki þegar á reyndi. Ég minni bara hæstv. fjmrh. á að einn stjórnarliða, formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, vítti hæstv. fjmrh. fyrir það úr ræðustóli hér á Alþingi að hafa ekki haldið sig við þær heimildir til lántöku sem Alþingi veitti á s. 1 vori. Hann tók það sérstaklega fram, þessi stjórnarsinni, að það hefði verið tekið fram fyrir ári af honum og fleirum, að til þess væri ætlast að þær tölur, sem þá voru afgreiddar í lánsfjárlögum, væru fastar tölur. Því hefði hæstv. fjmrh. ekki fylgt, heldur haft afgreiðslu Alþingis að engu. Formaður fjh.- og viðskn. vítti þetta og sagði að slík afgreiðsla af hálfu Alþingis væri auðvitað marklaus. Eftir eins árs reynslu af framkvæmd hæstv. fjmrh. á þessu máli má reikna eins með því, að þau lánsfjárlög, sem hér er verið að afgreiða, verði jafnmarklaus og þau lánsfjárlög sem afgreidd voru í fyrra og því ástæðuminna að fara mjög mörgum orðum um þau efni.

Hins vegar verð ég að segja eins og er — og ástæðulaust að draga fjöður yfir það, að almennar þjóðhagshorfur á árinu í ár verða sem komið er að teljast allgóðar. Þjóðhagsstofnun hefur t. d. áætlað að verð þjóðarframleiðslu á Íslandi geti orðið óbreytt frá fyrra ári, en í millitíðinni hafa verið gerðir samningar um skreiðarsölu, sem eru 10% hærri en samningarnir sem gerðir voru í fyrra, og um saltfisksölu sem eru 70% hærri en gerðir voru í fyrra. Auk þess er vitað að fiskmjölsverð á heimsmarkaði er nú hærra en það var á s. l. ári og ríkisstj. sjálf, forsrh. sjálfur hefur sagt að hann eigi von á því — og er staðfest af sjútvrh. — að verðlagsþróun á árinu á útfluttum fiskafurðum Íslendinga í Bandaríkjunum verði hagstæð. Þá er einnig talið líklegt að verð á áli og kísiljárni muni hækka í ár og auk þess hefur gengi Bandaríkjadollars styrkst allnokkuð.

Af þessu öllu má sjá að öll ytri skilyrði okkar þjóðarbúskapar hljóta nú að teljast nokkuð góð, miklu betri en menn áttu von á. Og þessi góðu ytri skilyrði ættu að geta veitt hæstv. ríkisstj. sérstaka möguleika á því, meiri en oft áður, að ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi án þess að rýra lífskjörin. Þetta hafa ráðherrar ríkisstj. raunar sjálfir tekið fram. Þeir hafa tekið það fram og það er rétt, að ytri aðstæður séu okkur nú á ýmsan hátt miklu hagfelldari en menn áttu von á. Þeim mun vandaminna ætti að vera fyrir hæstv. ríkisstj. að tryggja stöðugleika í búskap þjóðarinnar án þess að þurfa að rýra lífskjör. Og sér í lagi ætti við þessar aðstæður að skapast tækifæri til þess að draga úr verðbólgu án almennrar kjaraskerðingar.

Forsrh. lýsti því yfir — eða það er haft eftir honum í blaði í dag, að nú sé verðbólguhraðinn kominn niður í 35%. Miðað við allar þessar hagfelldu ytri aðstæður, sem ég taldi upp áðan, ætti að vera vandalaust fyrir hæstv. ríkisstj. að tryggja að verðbólgan á þessu ári færi ekki mikið yfir 40–42%. Til þess hefur hún allt í höndunum. Hún hefur hækkandi verð á ýmsum helstu útflutningsvörum landsmanna. Hún hefur miklu hagstæðari samninga um skreiðarsölu. Hún hefur 70% hærra saltfiskverð en var í fyrra. Hún horfir að eigin sögn fram á líklega verðhækkun á íslenskum fiski í Bandaríkjunum. Hún hefur stöðugt gengi Bandaríkjadollars. Hún hefur líklega verðhækkun á áli og kísilmálmi. Allt þetta ætti að gera henni þetta verk miklu auðveldara en ríkisstjórnum á undanförnum árum. Það ætti því að vera hæstv. ríkisstj. innan handar að tryggja að verðbólgan, sem nú er 35%, fari ekki mikið yfir 42–45%. Og gangi það ekki eftir, þá er það, eins og komið hefur fram í máli ríkisstj. sjálfrar, ekki ytri aðstæðunum að kenna, sem ráðherrarnir hafa keppst hver við annan um að lýsa sem svona hagfelldum, heldur því einu að ríkisstj. hefur mistekist að nýta sér það lag sem nú er til þess að ná árangri. Nái ríkisstj. ekki þeim árangri á árinu að verðbólgan fari ekki yfir 42–45%, þá er það vegna þess að hún hefur ekki getað nýtt sér þessar hagstæðu ytri aðstæður sem forsrh., fjmrh. og sjútvrh. eru ávallt að guma af.

Það er satt, að ríkisstj, hefur a. m. k. þrjú s. l. ár aldrei haft jafngóð tækifæri til þess eins og nú vegna hagstæðra ytri aðstæðna að ná árangri. Og þá stendur upp á þessa ríkisstj. að sýna hvað hún getur. Þeir hafa sagt það, hæstv. ráðh., að ef svo færi eins og ég er að lýsa hér og þeir hafa sjálfir lýst, þá sé þetta ekki mikill vandi. Nú skulum við sjá. Nú hefur verið samið um 10% hærra verð á skreið en í fyrra, 70% hærra verð á saltfiski, kísilmálmur hækkar verulega á heimsmarkaði, ál einnig. Að sögn sjútvrh. á hann von á fiskverðshækkun á Bandaríkjamarkaði. Staða Bandaríkjadollars er styrk, verðbólgan er að sögn hæstv. forsrh. komin niður í 35%. Ef ríkisstj, nær ekki þeim árangri sem hún segist stefna að, sem hún hefur betra tækifæri til að ná nú í ár heldur en margar ríkisstj. á umliðnum árum hafa haft, hverjum er það þá að kenna, við hvern getur forsrh. þá sakast annan en sjálfan sig? Að sjálfsögðu engan. Hins vegar gefur sú lánsfjáráætlun, sem hér er til afgreiðslu, því miður ekki góðar vonir um að ríkisstj. kunni að halda á þessum hagfelldu ytri aðstæðum sem ég skal vissulega ekki draga úr að er rétt hjá henni að hún á nú að fagna.

Herra forseti. Þá kemur það einnig til með að hjálpa ríkisstj., sem aðrar ríkisstjórnir hafa ekki fengið að njóta góðs af, að nú í fyrsta skipti um margra ára bil er um verulega innlánsaukningu að ræða hjá öllum bankastofnunum í landinu. Nú er vaxtastefna Alþfl. loksins farin að skila þeim árangri að það er að verða jafnvægisbúskapur í peningamarkaðnum í landinu og með mánuði hverjum aukast innlán í bönkum og ráðstöfunarfé bankanna til útlána. Hæstv. ríkisstj. gumar af því, að þetta hafi gerst, en hún gleymir að geta þess, hverjum það er að þakka og hverju. Það er auðvitað því að þakka, að upp var tekin sú vaxtastefna sem að skoðun allra bankamanna, án tillits til hvar þeir eru í flokki, hefur skapað þetta ástand á peningamarkaðnum. Þeir standa upp núna, þegar bankarnir flytja ársskýrslur sínar, hver eftir annan — og enginn þeirra tengdur Alþfl. — til þess að lýsa því yfir, að þarna hafi orðið alger kaflaskipti á s. l. mánuðum í þróun peningamála og innlánsmála lánastofnana. Og hver eftir annan lýsa þeir því yfir, að þetta sé að þakka ákvæðunum sem við Alþfl.-menn höfum verið skammaðir hvað mest fyrir að hafa beitt okkur fyrir að sett yrðu í hin svonefndu Ólafslög vorið 1979.

Engin ríkisstj. hefur áður búið við slíkt árferði í peningamálum, — engin. Íslendingar, sem þekkja ekki aðra bankapólitík en þá að lánsfé sé svo takmarkað að það verði að skammta úr hnefa, horfast nú í fyrsta skipti í augu við þann möguleika að bankarnir geti haft yfir mjög verulegu innlánsfé að ráða sem standi til ráðstöfunar m. a. fyrir hæstv. ríkisstj. Ég ætla aðeins að biðja menn að hugsa um þau orð í þessu sambandi sem féllu á ársfundi Seðlabanka Íslands nú fyrir nokkrum dögum. Og ég ætla að biðja menn að skoða fréttir blaðanna af aðalfundum bankanna sem haldnir hafa verið að undanförnu, þó að það séu að vísu undantekningar, einkum og sér í lagi um einn ríkisbankann. En nú standa vonir til að eitthvað fari þar að rofa til, a. m. k. ef marka má dugnað og framtak hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem þar er bankaráðsformaður og ætlar að beita sér af sínum alkunna dugnaði fyrir því að reyna að rífa þann banka upp og áfram.

Engin ríkisstj. hefur áður búið við slík skilyrði í peningamálum og mér er sagt að ef þessi þróun haldi áfram geti ríkisstj. átt kost á því sem engar ríkisstjórnir hafa átt á umliðnum árum að breyta mjög verulega til á árinu um lánaáform sín og hverfa frá því að taka eins mikið af erlendum lánum og að er stefnt, en auka þess í stað lántökur sínar á innlendum peningamarkaði. Það er álit bæði Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar að þessi möguleiki sé fyrir hendi, ef sú hagkvæma þróun í innlánsmálum bankastofnana heldur áfram sem þegar er hafin. Slíkum ytri aðstæðum hafa engar ríkisstjórnir átt að fagna önnur en sú sem nú situr að völdum í landinu. Því sameinast allt, bæði út á við og inn á við, sem ætti að geta hjálpað þessari hæstv. ríkisstj. að ná árangri í ár. Hitt er svo allt annað mál, hvort hæstv. ráðherrar og þeir, sem að ríkisstj. standa, eru menn til þess að leika þannig úr þeim spilum, sem þeir hafa fengið á höndina, að þeir nái einhverjum árangri, að þeir fái einhverja slagi.

Herra forseti. Það mál, sem almenningur bíður sjálfsagt hvað óþreyjufyllstur eftir að hljóti afgreiðslu hér í þessari deild, er till., sem kom fram í Ed., um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka lán til að hefja byrjunarframkvæmdir við flugstöð á Keflavíkurflugvelli ef að áliti utanrrh. verður nauðsynlegt að hefja þær framkvæmdir á þessu ári. Nú hefur því verið haldið fram, m. a. af nokkrum þm. Framsfl. í Ed., að málið væri ekki enn það vel undirbúið og undirbúningi væri ekki lokið þannig að ekki væri ástæða til þess að taka um það ákvörðun nú. Vegna þessara yfirlýsinga hef ég aflað mér sérstakra upplýsinga í utanrrn., bæði hjá varnarmáladeild og hinni almennu deild. Þar er mér tjáð að öllum undirbúningi að smíði flugstöðvarinnar sé lokið og útboð geti farið fram. Að sögn utanrrn.-manna er ekkert að vanbúnaði, að þessi ákvörðun sé nú þegar tekin, og enginn undirbúningur, sem eftir er að vinna, sem geti komið í veg fyrir að hafist sé handa er ákvörðun liggur fyrir. Ég hef óskað eftir því, að þeir utanrrn.-menn og forstöðumaður varnarmáladeildar utanrrn. komi á fund fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis á mánudagsmorgun til að staðfesta þetta fyrir nefndinni sem ég hef hér sagt.

Í annan stað er því haldið fram, að framkvæmdin við flugstöðina þurfi ekki að hefjast fyrr en í síðasta lagi fyrir októbermánuð árið 1982, því að þá fyrst falli fjárveiting Bandaríkjaþings úr gildi. Þetta er ekki rétt. Að vísu er það rétt, að fjárlagaár Bandaríkjanna hefst í okt. 1981 og lýkur í okt. 1982 og í okt. 1982 fellur úr gildi sú fjárveiting sem samþykkt var til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. En að áliti utanrrn. — og þetta mun ég líka fá staðfest í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar á morgun — er nauðsynlegt að geta hafið framkvæmdir helst fljótlega eftir n. k. áramót. Því er að mati utanrrn. tímabært að taka ákvörðun nú. Það má e. t. v. slá henni á frest í fáar vikur eða örfáa mánuði, en utanrrn., bæði ráðh. og starfsmenn utanrrn. sem við þetta mál hafa fengist, telja tímabært að taka ákvörðunina nú og nauðsynlegt að einhverjar framkvæmdir verði hafnar fljótlega eftir næstu áramót. Þetta verður einnig staðfest á fundi fjh.- og viðskn. — ætla ég — n. k. mánudag.

Þá er það tvímælalaust álit utanrrh., að flokksbræður hans í Framsfl. allir séu honum sammála um þetta flugstöðvarmál. Þeir hafa hins vegar kosið að snúa við honum baki og skilja hann einan eftir um afstöðu, a. m. k. í Ed. Ég trúi vart að það sé að undirlagi Framsfl. sem það er gert, að utanrrh. var þar látinn standa einn, en flokksbræður hans sneru baki við honum. Slíkt verður aðeins að undirlagi eins hóps manna hér á þinginu, að undirlagi þeirra 11 þm. Alþb. sem að mati utanrrh. eru einu þm. sem andvígir eru þessari framkvæmd af hinum 60 sem hér sitja. Finnst mönnum það rétt lýðræði og rétt þingræði, eins og málið er í pottinn búið, að 11 þm. á 60 manna löggjafarsamkomu skuli mynda hér meiri hl., að 11 þm. Alþb. skuli beygja alla þm. Framsfl. utan einn og sá eini skuli vera látinn standa einn af sínum flokksbræðrum, þó svo hann sé aðeins að framfylgja stefnu flokksins sem fyrst var mörkuð af varaformanni Framsfl. 22 okt. 1974 og var síðast ítrekuð á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. s. l. sunnudag? Það er von að menn spyrji hvernig það geti gerst, að næststærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar skuli láta 11 alþm. Alþb. svínbeygja sig með þessum hætti. Skýringin er mjög einföld. Skýringin er sú, að árið 1978 varð Framsfl. fyrir mesta pólitíska áfalli í sögu sinni. Þá tapaði hann ekki aðeins fjölmörgum þingsætum og varð minnsti flokkur landsins, heldur tapaði hann í ýmsum tryggustu kjördæmum sínum talsverðu af sínu tryggasta fylgi yfir til kommúnista. Einn af þeim, sem beið hvað mest tap í þessum kosningum, er núv. formaður Framsfl., hæstv. sjútvrh., sem ekki aðeins varð að horfa á eftir heilum sveitahreppum yfir til Alþb., heldur missti einnig þingsæti í sínu kjördæmi vegna uppgangs Alþb. Og þessir menn urðu svo skelfingu lostnir yfir þessum tíðindum, að þeir tóku þá ákvörðun að þeir yrðu framvegis að lima sig svo þétt upp að íslenskum kommúnistum, að ekki gengi þar hnífurinn á milli, og það mætti aldrei koma til ágreinings milli Framsfl. og kommúnista ef Framsfl. ætti að vinna þetta fylgi aftur. Þess vegna var það í ríkisstj. Ólats Jóhannessonar að ef kom upp ágreiningur í ríkisstj. milli kommúnista og Alþfl.-manna, þá vöruðu framsóknarmenn sig alltaf á því að ganga ávallt með Alþb. í þeim leik. Þeir þorðu ekki að efna til ágreinings við þá.

Í kosningunum 1979 þóttust framsóknarmenn hafa fengið sönnur fyrir því, að þessi stefna um undirlægjuhátt við kommúnista væri rétt því að þeim tókst að vinna aftur nokkuð af þeim atkvæðum, sem þeir höfðu tapað til Alþb. í kosningunum þar áður, og formaður flokksins endurheimti þingsætið á Vestfjörðum. Eftir þessi úrslit, þar sem framsóknarmenn þóttust vera búnir að fá sönnur fyrir því, að undirlægjuskapur við kommúnista skilaði þeim árangri í atkvæðum, hefur Framsfl. að örfáum mönnum undanskildum verið svínbeygður undir íslenska kommúnista, meira að segja gengið svo langt, að formaður þingflokks Framsfl. lýsir því í blaðaviðtali að hann viti ekki betri menn, hreinskiptnari menn eða menn, sem hann vildi heldur eiga samleið með, heldur en íslenska kommúnista. Slík er skelfingin orðin. (Gripið fram í.) Þeir eru orðnir svo hræddir og svo háðir Alþb., framsóknarmennirnir, slíkir taglhnýtingar Alþb. margir hverjir, að ef Alþb. skildi við þá mundu þeir ekki vita hvert þeir ættu að snúa sér þegar þeir fyndu ekki lengur taglið. Og einn af þeim, sem ekki vissi hvert hann ætti að fara ef hann fyndi ekki lengur taglið, var að kalla fram í fyrir mér áðan.

Herra forseti. Að sjálfsögðu munum við láta reyna á þessi mál hér í þinginu. Við munum láta reyna á það, hvort framsóknarmenn í Nd. ætla líka að láta utanrrh. sinn standa einan og hafa að engu samþykkt síns eigin flokks, gera ómerking úr fyrrv. utanrrh. sínum og varaformanni flokksins, Einari Ágústssyni, vegna hræðslunnar við kommúnista, vegna þrælslundarinnar í þeirra garð. Við skulum bíða og sjá hvernig þau átök og það uppgjör endar.

Í blöðunum hefur verið látið að því liggja að einn mætur maður hér á Alþingi, Albert Guðmundsson, mundi hlaupa þar undir bagga. Ég hef enga trú á að svo muni verða. 26. mars s. l. voru þessi mál til umr. hér á Alþingi. Þar var hv. þm. Albert Guðmundsson ekkert að liggja á sínum skoðunum frekar en hann er vanur að gera þegar hann stígur hér í ræðustól og þarf að taka afstöðu til mála. Afstaða hv. þm. var mjög afdráttarlaus og skýr. Hann sagði um flugstöðina á Keflavíkurflugvelli orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, m. a. þetta:

„Það hefur komið í ljós að við samkomulag um myndun ríkisstj. var gerður svokallaður málefnasamningur milli þeirra sem standa að ríkisstj., leynt eða ljóst. Í þessum málefnasamningi segir að ákvörðun skuli ekki tekin um flugstöðvarbyggingu nema að fengnu samþykki allra aðila innan ríkisstj. og allir séu sammála um að málið komi á dagskrá. Ég tel að enginn flokkur eigi að hafa neitunarvald, hvorki innan ríkisstj. né á Alþingi, um slík mál sem þessi. Ég vil mótmæla því, að þetta mál komi ekki fljótlega á dagskrá. Ég óska eftir því, að þetta stórmál komi á dagskrá Alþingis hið fyrsta og að Alþingi taki ákvörðun um framhaldið. Ef ríkisstj. telur sér ekki fært að bera þetta mál fram verða þeir, sem telja sig frjálsa og óháða, að bera málið fram og láta reyna á það á Alþingi hver hinn eiginlegi vilji Alþingis og alþm. í þessu máli er. Og ég hef þá trú að þrátt fyrir málefnasamninginn sé meirihlutavilji á Alþingi fyrir því að framkvæmd við flugstöðvarbygginguna verði hafin sem fyrst.“ (Forseti: Á hv. þm. langt eftir af ræðu sinni?) Nei, ég á örfáar setningar eftir.

Þetta, herra forseti, sagði þessi mæti þm. 26. mars s. l. um flugstöðvarbygginguna. Hann talaði enga tæpitungu.

Hann bað um að málið yrði látið ganga til Alþingis strax. Hann sagði að ef ríkisstj. gerði það ekki yrðu þm. að taka sig saman um að gera það. Og hann bað um að málið kæmi hér til afgreiðslu svo að hægt væri að samþykkja það. Og halda menn að hv. þm. Albert Guðmundsson, sem þannig talaði 26. mars, muni í byrjun apríl greiða atkv. í þveröfuga átt?