13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3680 í B-deild Alþingistíðinda. (3762)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 1. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir minni afstöðu til þessa frv., sem er um framlengingu á olíugjaldi til fiskiskipa. Ég þarf því ekki að hafa um það mörg orð nú, en eins og fram kemur á þskj. 618 varð sjútvn. þessarar hv. deildar ekki sammála í afstöðunni til frv. Við þrír nm. leggjum til að frv. verði fellt. Það eru hv. þm. Pétur Sigurðsson og Halldór Blöndal ásamt mér.

Þar er nú fyrst til að taka, að það er auðvitað óhæfa að vera að afgreiða mál sem þetta þegar komið er undir lok vetrarvertíðar. Hér er um að ræða ákvæði sem átti að taka gildi um s. l. áramót. Vissulega er þetta ekki í fyrsta skipti sem mál sem þetta dregst á langinn, en þó hygg ég að þetta sé með því lengsta sem dregist hefur að ákvarða í máli sem þessu.

Það hefur komið fram í umr. um þetta mál, ekki bara núna í sambandi við þetta frv., heldur og oft áður, að almennt eru menn sammála um að þessi gjaldtaka sé raunar með öllu óhæf. Hæstv. sjútvrh. hefur þrívegis fylgt úr hlaði frv. um olíugjald og í öll skiptin hefur hæstv. ráðh. talað gegn gjaldinu í því formi sem það nú er og hefur verið. Fyrst þegar hæstv. ráðh. lagði fram frv. eftir að hann tók við embætti sjútvrh, var það um lækkun úr 7.5% í 2.5%. Síðan hefur þetta hækkað aftur í meðförum hæstv. ráðh. og ríkisstj. og er nú í 7.5%, eins og það var þegar hæstv. ráðh. tók við. Þarna skýtur auðvitað skökku við. Þegar hæstv. ráðh., sem frv. flytur talar svo eindregið gegn því, sem gerst hefur í þrjú skipti, er með öllu óskiljanlegt hver kúvending hæstv. ráðh. er frá því að hann talar fyrir frv. og þar til hann leggur til og leggur blessun sína yfir að það verði samþykkt. Sama á og við um hv. þm. Garðar Sigurðsson, formann sjútvn., því hann hefur í öll skiptin, sem frv. af þessu tagi hefur verið til meðferðar hér á Alþingi, fordæmt það hinum hörðustu orðum og talið það óskynsamlegt á allan hátt, en á sama hátt og hæstv. ráðh. alltaf greitt atkvæði með því, að málið næði fram að ganga. Þetta er auðvitað með öllu óskiljanlegt. Þó ekki sé meira sagt er öllum þeim, sem eru með vísitölugreind fyrir ofan meðallag, óskiljanlegt að menn skuli haga sér með þessum hætti, hvort sem um er að ræða hæstv. ráðh. eða hv. þm. formann sjútvn.

Ég minnti á það hér, bæði í okt. s. l., þegar sams konar frv. var hér til umræðu, svo og við 1. umr. þessa máls nú, að þarna skyti ekki hvað síst skökku við í ljósi þess að hæstv. sjútvrh. lofaði að beita sér fyrir því á s. l. vori — þegar vestfirskir sjómenn áttu í kjaradeilu lofaði hann vestfirskum sjómannasamtökum því — að þetta olíugjald yrði lækkað og með öllu afnumið. Það er að vonum að sjómannasamtökunum þyki leitt að ekki skuli vera hægt að byggja á loforðum ráðamanna, ekki síst hæstv. ráðh., og að þeir skuli ganga þvert gegn þeim loforðum sem gefin eru.

Með nál. eru birt tvö fskj. Annars vegar er fskj. I. Það er yfirlýsing frá stjórn Sjómannafélags Ísfirðinga þar sem þetta er rakið frá þeirri deilu, sem ég áður nefndi, og bent á hver loforð hæstv. ráðh. gaf sjómönnum á Vestfjörðum. Raunar á það ekki einungis við um sjómenn á Vestfjörðum. Það hefði að sjálfsögðu gilt um alla sjómannastéttina þó að loforðið hafi verið gefið vestfirskum sjómönnum.

Ekki þarf fram að taka að sjómannasamtökin hafa frá fyrstu tíð verið andvíg þessari gjaldtöku í því formi sem hún er. Þau hafa mótmælt henni og margítrekað þau mótmæli sín og síðast á þingi Sjómannasambands Íslands á s. l. hausti. Þar voru samþykkt eindregin og harðorð mótmæli gegn áframhaldandi olíugjaldi í því formi sem það nú er og eins og þetta frv. gerir ráð fyrir að það verði.

Einnig er birt sem fskj. í nál. bréf frá Sjómannasambandi Íslands, undirskrifað af formanni þess, Óskari Vigfússyni, þar sem enn eru ítrekuð mótmæli sjómannasamtakanna við þessari gjaldtöku.

Það er því ljóst að frv. sem þetta verður einungis til þess að auka þann ófrið sem verið hefur milli sjómanna og stjórnvalda um þetta mál, ekki síst í ljósi þeirra loforða sem hæstv. sjútvrh., að ég hygg í nafni allrar hæstv. ríkisstj., gaf í sambandi við lausn sjómannadeilunnar á Vestfjörðum.

Ég skal ekki, herra forseti, fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Mín afstaða hefur verið ljós. Við þessir þrír nm. í sjútvn. leggjum eindregið til að frv. verði fellt þannig að það nái ekki fram að ganga, en lýsum okkur reiðubúna að kanna allar hugsanlegar leiðir til að breyta þessu fyrirkomulagi. Við teljum, eins og við höfum áður lýst yfir, að vissulega sé rekstrarvandi útgerðarinnar mikill vegna sívaxandi olíuhækkunar, en þann vanda eigi ekki að leysa með því að rýra kjör sjómanna einna saman. Það hlýtur að vera í þessu tilfelli eins og í sambandi við aðrar olíuverðshækkanir að þar eigi þjóðarheildin að taka á sig byrðar, en ekki þessi eina stétt, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir að verði.