13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3682 í B-deild Alþingistíðinda. (3764)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram, að ég stóð ekki að neinu nál. í þessu máli. Ástæðan fyrir því er að ég komst ekki á fund n. þegar málið var afgreitt fyrr en eitthvað 15 mín. eftir að n. kom saman og þá var búið að ganga frá afgreiðslu málsins. Það kom fram hjá formanni n. áðan, að ríkisstj. ætti ekki meiri hl. í n. Ég sé heldur enga ástæðu til þess, að þó ríkisstj. eigi ekki meiri hl. í þessari n. noti þm. sér meirihlutaaðstöðu til að tefja fyrir málum ríkisstj. Ég fyrir mitt leyti vil ekki gera mig sekan um það. Að því leyti til skiptir ekki höfuðmáli hvort ríkisstj. hefur meiri hl. í n. eða ekki ef hún hefur sitt stuðningslið til þess að koma málum fram. Þó að ég sé á margan hátt andvígur afstöðunni til þessa máls er það skylda þm. að greiða fyrir málum, en leggjast ekki á þau.

Ég vil líka að fram komi að hringlað hefur verið mjög með þetta olíugjald til og frá að ástæðulausu — fyrir u. þ.b. ári sérstaklega með því að lækka það þá verulega og hækka það svo aftur í næstu umferð um 200%. Ég hygg að það hefði verið hyggilegra að halda því óbreyttu og hafa sveiflurnar minni. Þegar þetta gjald fyrst kom á var hins vegar litið á það sem bráðabirgðaráðstöfun og þá voru ekki skiptar skoðanir um að líta þannig á málið, en þar sem þróunin hefur orðið slík sem við vitum, að olían hefur sífellt farið hækkandi samfara því sem stjórnvöld hafa orðið að grípa til margvíslegra ráðstafana í að takmarka veiðar skipa og draga þannig úr tekjum bæði útgerðar og ekki síður sjómanna í því sambandi, hef ég og fleiri varpað fram þeirri hugmynd, að hér ætti að leita annarra úrræða með því að leggja einhvern sameiginlegan skatt á. Ég gæti fyrir mitt leyti vel fallist á það sem málamiðlun að hluti af þessum kostnaði væri lagður á í formi einhvers slíks gjalds, en stærri hlutinn yrði aftur tekinn með sameiginlegum skatti til að lækka þennan olíukostnað.

Á s. l. hausti kom það fram á þessu þingi í nál. okkar stjórnarandstæðinga, að við værum reiðubúnir til samstarfs við stjórnina um að finna einhverja slíka lausn. Hæstv. sjútvrh. hefur ekki viljað ljá á því máls þrátt fyrir marggefnar yfirlýsingar sínar um að hann væri á móti olíugjaldi í þeirri mynd sem það er lagt á og hér er lagt til að gert verði. Þrátt fyrir allar þessar mörgu yfirlýsingar heldur hann áfram að leggja þetta gjald á með þeim hætti sem við erum andvígir. Það er því hans sök eða ríkisstj. að engin tilraun hefur verið gerð til breytinga í þessu efni.

Ég tek alveg undir þá gagnrýni formanns n. og hv. þm. Karvels Pálmasonar að það er auðvitað mjög ámælisvert hversu seint þetta frv. er á ferðinni, þegar svo langt er liðið á vertíðina. Ég tel að með þessu fyrirkomulagi sé þetta gjald sett á á ábyrgð þeirra þm. sem ríkisstj. styðja. Hæstv. sjútvrh. eða ríkisstj. hafa vafalaust fengið umboð stuðningsmanna ríkisstj. að gefa þetta fyrirheit við fiskverðsákvörðunina og þá er það þeirra að standa við það.

Ég tek alveg undir það, að útgerðin þarf á þessu fjármagni að halda og þó meira væri. Því óskaði ég eftir því við formann n., að hann fengi skriflega yfirlýsingu frá oddamanni yfirnefndar Verðlagsráðs um hvort þetta gjald hafi verið ein af forsendum þess, að samningar tókust um fiskverð milli oddamanns, sem er fulltrúi ríkisvaldsins, og fulltrúa seljenda og kaupenda. Það kemur fram í bréfi oddamanns, sem er dagsett 2. apríl:

„Vegna fyrirspurnar skal tekið fram að við ákvörðun fiskverðs frá 1981 var bókað í fundargerð yfirnefndar Verðlagsráðs sjávarútvegsins að forsenda verðákvörðunar væri að olíugjald til fiskiskipa yrði 7.5% af skiptaverði.“

Við afgreiðslu verðákvörðunar lá fyrir samþykkt ríkisstj. um þetta efni. Ríkisstj. skuldbindur sig til þess að lögfesta þetta olíugjald. Ríkisstj. óskar ekki eftir að hafa neitt samráð eða samstarf við stjórnarandstöðuna í þessum efnum. Því er stjórnarandstaðan á engan hátt bundin af því að verða við þessu erindi. Hins vegar treysti ég ekki hæstv. ríkisstj. til að standa við það fyrirheit að bæta útgerðinni þetta peningalega upp nema þetta frv. verði samþykkt eins og það liggur nú fyrir því þetta hefur í raun verið í gildi frá 1. jan. s. l. Ég mun því ekki greiða atkvæði fyrir mitt leyti á móti þessu frv. þó að ég telji mig á engan hátt skuldbundinn til að styðja það og gæti þess vegna með tilliti til skoðunar minnar á málinu greitt atkvæði á móti., Þar sem svo langt er liðið á vertíðina og þessi skuldbinding er gefin við fiskverðsákvörðun vil ég ekki greiða atkvæði gegn frv., þó að ég geti efnislega algjörlega verið samþykkur því nál. sem hv. þm. Karvel Pálmason talaði fyrir.