13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3689 í B-deild Alþingistíðinda. (3771)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég veit ekki betur en að það sé komin ákaflega athyglisverð og út af fyrir sig eftirtektarverð skýring hjá hæstv. ráðh. á því sem hv. þm. Karvel Pálmason spurði um. Ég heyrði ekki betur en hæstv. ráðh. hefði þau orð hér í ræðustól áðan að það væri sitt hvað skoðun og stefna. Er það ákaflega athyglisverð yfirlýsing út af fyrir sig og passar mjög við afstöðu Framsfl. til ýmissa mála á síðustu dögum að það sé sitt hvað þar á bæ skoðun og stefna. Auðvitað er þetta skýring hæstv. ráðh., því það fer ekki milli mála að það er skoðun hæstv. ráðh. að afnema beri olíugjaldið. Það fer heldur ekkert á milli mála að það er stefna hæstv. ráðh. að hækka það. Þess vegna tel ég að það sé alveg fullgild skýring sem hann hefur hér gefið, að það sé sitt hvað skoðun og stefna.