27.04.1981
Neðri deild: 82. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (3869)

234. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna þess að þungaskattsmál heyra undir fjmrn. þykir mér rétt að upplýsa það, að þungaskattsmál hafa verið í endurskoðun í rn. á undanförnum vikum og mánuðum og hefur verið í smíðum frv. sem felur í sér nokkrar breytingar á álagningu þungaskatts. Eitt af þeim atriðum, sem komið hafa til greina, er lækkun þungaskatts af strætisvögnum og sérleyfisbifreiðum. Einnig geta komið þar til greina fleiri breytingar sem eru af skyldum toga spunnar. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það. Ég veit ekki hvort efni eru til að fella þungaskatt með öllu niður í slíkum tilvikum, en margt mælir með því, að þungaskattur sé lægri, þegar strætisvagnar eiga í hlut, heldur en aðrar bifreiðar sem aka á þjóðvegakerfi landsmanna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það frv. sem er í smíðum, vegna þess að um það hefur ekki verið fjallað í ríkisstj. Ég er hér einungis að gera grein fyrir því, að það mál, sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, er í sérstakri athugun.