07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4070 í B-deild Alþingistíðinda. (4197)

263. mál, varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er mikið og merkilegt mál, og þeim ræðumanni, sem tók hér einna fyrstur til máls, þótti ástæða til þess að láta það mál, sem beðið var um að taka af dagskránni, falla undir það sem verið er að varast með samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, og líkti við að „snurrevoðin“ væri nánast mengunarvaldur á okkar hafsvæði. (HBl: Við segjum ekki „snurrevoð“ fyrir norðan). Nei, ég veit að þar segir þú bara „snurvoð“. En ég vil benda þeim hv. þm., sem eru sama sinnis og sá hv. þm., á að lesa grg. með þessu frv. Og það er kannske full ástæða fyrir þá menn að gera það fyrst og fremst sem búa á strandlengju Íslands og utan þess hafsvæðis sem hefur verið forðabúr Reykvíkinga og nálægra sveitarfélaga frá því að land byggðist. Það eru þau mið sem Reykvíkingar og nágrannabyggðir hafa sótt á frá því að land byggðist.

Sú undarlega skoðun hefur komið upp og orðið ríkjandi hér hjá þm. víðs vegar um land, að þetta hafsvæði eitt ætti að verða „stikkfrí“ frá öllum öðrum til þess að ala upp fisk fyrir þá hina sömu sem í nágrannabyggðunum búa. Það eru harla skrýtnar kenningar, og það er sjálfur hæstv. dómsmrh. sem kemur og heldur þessu fram, hafandi haft þau fríðindi fyrir sitt kjördæmi sem hann hefur haft og fengið fram m. a. með stuðningi okkar þm. hér úr Reykjavík, vegna þess að það var skynsemi í þeirri friðun sem þar var. En það er ekki skynsemi í þeirri friðun sem hér hefur verið viðhöfð gagnvart dragnótinni á liðnum árum.

En í grg. með þessu frv. segir svo, með leyfi forseta: „Samningnum“ — sem um er að ræða að staðfesta — „er sérstaklega ætlað að draga úr mengun þessa hafsvæðis frá stöðvum í landi þegar um er að ræða flutning þeirra mengandi efna, sem upp eru talin í samningnum, í frárennsli landstöðva til sjávar, bæði beint eins og í gegnum holræsi“ o. s. frv.

Nú bendi ég hv. þm. utan af landi, sem vilja berjast gegn mengun, á að gæta sín allvel á samþykkt þessa frv. Er ekki full ástæða til þess að líta í kringum sig og til sumra sjávarþorpanna þar sem aðalatvinnuvegurinn er fiskvinnsla, þar sem ekki aðeins úrgangur þaðan, heldur allur annar úrgangur frá mannfólkinu, sem þar býr, fer út á fiskimiðin sem þar eru fram undan? Ætli það sé ekki meiri mengunarhætta af þessum efnum heldur en því sem dragnótin gerir á mjög takmörkuðu svæði, innan við 10% af botnsvæði Faxaflóans, ef leyft verður í þeirri mynd sem hæstv. sjútvrh. hefur leyft sér að flytja hér á þingi? Ég geri fyllilega ráð fyrir því.

En það, sem gerði það að verkum að ég fór nú upp í ræðustól, er m. a. það, að við erum með á dagskrá nokkur frv. í dag sem flutt eru sem stjfrv., en eru flutt af einstökum ráðherrum og tilheyra þeirra málaflokki. Eigum við að geta skilið það nú á síðustu dögum þingsins, að ef einhverjir þm. koma með ósk um að málin séu tekin út af dagskrá vegna þess að viðkomandi ráðh. sé ekki við, þá verði orðið við því? Eigum við að geta komið hér upp hver af öðrum, ef við værum í þeim ham, stjórnarandstöðuþm., og stöðvað alla starfsemi þingsins í dag vegna þessa? Ég segi þetta af því tilefni sem gafst hér áðan, bæði vegna furðulegrar spurningar og beiðni hv. 6. landsk. þm, og svo úrskurðar forseta.