12.05.1981
Efri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4231 í B-deild Alþingistíðinda. (4335)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Jón Helgason:

Herra forseti. Í umr. í allshn. um þetta mál lét ég í ljós þá skoðun mína, að ég væri nokkuð íhaldssamur á varðveislu íslenskra mannanafna, en þegar lítið var yfir nöfn sumra þeirra, sem sækja um ríkisborgararétt og allir voru sammála um að fengju hann, þá eru nöfn þeirra ákaflega fjarri íslenskri málhefð og íslenskri tungu. En eins og síðasti ræðumaður sagði eru önnur þannig að það er ákaflega einfalt að breyta þeim og ætti ekki að særa neinn þó að þeim væri breytt alveg að íslenskum mannanafnalögum.

Ég hef orðið var við að við framkvæmd þessa lagaákvæðis, eins og það er núna, hefur stundum komið fyrir að þeir, sem óskað hafa eftir að halda nafni sem er eins og íslenskir þegnar hafa, fæddir hér á landi, þá hefur þeim ekki verið veitt heimild til þess að nota slíkt nafn. Ég undirstrika að mér finnst að slíkt sé allt of langt gengið.

Með þessari brtt., sem nú er flutt, er vitanlega gengið miklu skemmra í átt við breytingu á lögunum en fólst í hinni fyrri brtt. og ég taldi að útilokað væri að styðja. Ég stakk upp á því í n., að sett væri ákvæði í brtt. um að það yrði fyrra nafnið sem væri íslenskt, en það hlaut eigi stuðning. En í brtt. á þskj. 786 er haldið því ákvæði, að viðkomandi aðili skuli bera íslenskt nafn og það tel ég ákaflega mikils virði. Ég mun því ekki beita mér gegn þessari breytingu og vænti þess, að framkvæmdin verði þannig að hið íslenska nafn verði þá notað ekki síður en hitt, auk þess sem afkomendurnir kenna sig við það.