16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

8. mál, aukning orkufreks iðnaðar

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þingmenn Alþfl. hafa lagt fram á þskj. 8 till. til þál. um aukningu orkufreks iðnaðar og skipun þingmannanefndar til að fjalla um þau mál og fleira því viðkomandi. Tillagan er á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd 7 þm., sem fjalli um stórfellda aukningu á orkufrekum iðnaði næstu ár til að nýta í ríkari mæli en nú er gert hinar miklu óbeisluðu orkulindir vatnsfalla og jarðhita, bæta lífskjör og auka trausta atvinnu, framleiðslu og útflutning þjóðarinnar.

Nefndin skal hafa náið samstarf við yfirvöld orkumála og umhverfisverndar. Hún skal skila Alþingi og ríkisstj. skýrslum um valkosti, m.a. varðandi gerð og stærð iðjuvera, staðsetningu, fjármögnun, hugsanlegt samstarf við erlenda aðila, fjölda atvinnutækifæra og annað, er áhrif hefur á þjóðarhag.“

Tilgangur þessarar till. er að Alþ. ákveði nú stóraukna hagnýtingu á orkulindum landsins til iðnvæðingar í þeim tilgangi að stuðla að því að stöðva þá afturför lífskjara, sem verið hefur undanfarið, og tryggja með sem skjótustum hætti batnandi lífsafkomu, aukið atvinnuöryggi, fjölga atvinnutækifærum og stöðva vaxandi landflótta. Sjálfsagt er að beinum tekjum, sem ríkið kann að hafa af stórum iðjuverum, verði síðan varið til uppbyggingar á almennum iðnaði víðs vegar um landið, svo að sem allra flestar byggðir njóti góðs af þessu framtaki.

Þjóðin býr nú við mikla óvissu um lífskjör sín og afkomu. Vöxtur þjóðarframleiðslu hefur samkv. síðustu spám Þjóðhagsstofnunar verið minni í ár en hann var árin 1976–1979. Þótt hann verði 1–2% er búist við rýrnun viðskiptakjara um 6%, sem mundi valda því, að þjóðartekjur dragist saman um 0.5–1 % á árinu. Hækkun olíuverðs og aðrar hækkanir í viðskiptalöndum ýta undir verðbólgu hér á landi eins og þar, en við þetta bætist stöðugt heimatilbúinn vandi, svo að árangurinn er óðaverðbólga og hraðversnandi viðskiptajöfnuður við önnur lönd.

Sjávarútvegur er og verður höfuðatvinnugrein þjóðarinnar en hann þarf nú að byggja upp fiskstofnana og laga sig eftir breyttum samkeppnisaðstæðum á mörkuðum. Landbúnaður glímir við offramleiðslu og aðlögun að innanlandsmarkaði. Almennur iðnaður býr við vaxandi samkeppni og vaxandi fríverslun. Allar þessar atvinnugreinar verða að fá óskiptan stuðning þjóðar og ríkisvalds á komandi árum. Er síður en svo hugmyndin með þessari till. og efni hennar að nokkuð verði dregið úr þeirri aðstoð og þeirri aðhlynningu sem þær fá, þó að ráðist verði í ný og fleiri verkefni.

Ég hygg að hinar hefðbundnu atvinnugreinar okkar muni öðlast meiri styrk ef atvinnulífið verður fjölbreyttara og öflugra með vexti hinna nýju atvinnugreina, ef þær geta tekið við verulegum hluta af mannfjölgun á vinnumarkaði, styrkt gjaldeyrisstöðuna og dregið úr brottflutningi fólks á næstu einum til tveimur áratugum. Þannig verður að leitast við að móta alhliða íslenska atvinnustefnu.

Það er gæfa okkar Íslendinga að geta fylgt slíkri stefnu með því að hagnýta hið hvíta gull, orkulindir fallvatna og jarðhita. Áætlað er að enn hafi ekki verið virkjað nema um 10% af vatnsorku í landinu, þegar frá hefur verið dregið það sem kunnugir menn telja að ekki sé rétt að nýta vegna umhverfissjónarmiða. Minna er vitað um hugsanlega nýtingu jarðhita til orkuvinnslu, en sérfróðir menn telja að vart hafi meira en rúm 6% af virkjanlegri orku í landinu verið beislað ef litið er til hvors tveggja, fallvatna og jarðhita. Samt erum við Íslendingar nú þegar orðnir þriðja mesta raforkuþjóð í heimi, ef miðað er við framleidda orku á hvern íbúa, og standa aðeins Norðmenn og Kanadamenn þar framar.

Um þessar mundir er verið að ljúka stóráföngum við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði og álverið í Straumsvík, en Hrauneyjafossvirkjun mun taka til starfa á næsta ári. Nú er því tímabært og nauðsynlegt að móta stefnu fyrir a.m.k. næsta áratug um orkuframleiðslu og taka um leið ákvörðun um hagnýtingu orkunnar umfram venjulegan vöxt orkuþarfar í landinu. Gefur auga leið, að hinar miklu orkulindir verða ekki nýttar á hagkvæmari hátt en með orkufrekum iðnaði, og er því nauðsynlegt að taka ákvarðanir um það samhliða þróun á orkusviðinu.

Ég hygg að auðlindir okkar séu svo miklar, að við getum hafst mikið að fram til aldamóta og samt sem áður muni bróðurpartur af hinni óbeisluðu orku enn þá vera ónýttur og standa þjóðinni til afnota á næstu öld eftir því sem þá virðist hagstæðast og réttast. Auk þess er rétt að gera sér grein fyrir því, að t.d. vatnsvirkjanir eru engan veginn endanleg notkun á því afli sem þar er um að ræða, heldur eru þetta mannvirki sem vel geta eftir áratugi eða mannsaldra horfið af sjónarsviðinu og önnur komið í þeirra stað sem beisla hina sömu vatnsorku. Gæfa okkar er sú að vatnsorka og jarðhiti endurnýjast í sífellu, en ganga ekki til þurrðar eins og olía og gas.

Hæstv. iðnrh. hefur skýrt svo frá, að orkufrekur iðnaður sé til athugunar í ráðuneyti hans, en lítið sem ekkert hefur frést af þeirri athugun nema hvað snertir helst undirbúning virkjana. Þar eð taka verður örlagaríkar og stefnumarkandi ákvarðanir á þessu sviði virðist nauðsynlegt að um þetta mál fjalli einnig hópur manna þar sem allir þingflokkar eigi fulltrúa, enda koma slík mál til kasta og ákvarðana Alþingis á lokastigi. Þetta er meðal veigamestu pólitískra ákvarðana, sem framundan er að taka, og tel ég því nauðsynlegt að Alþ. verði nú þegar aðili að undirbúningi þessara mála, ekki á þann hátt að ryðja burtu neinum þeim sérfræðingum, sem að þeim vinna, heldur til þess að starfa með þeim og við hlið þeirra.

Þegar samningar voru undirbúnir um álverið í Straumsvík var sett sérstök nefnd með tveim fulltrúum frá hverjum þáv. þingflokki og vann þessi nefnd mikið starf sem tryggði að þingflokkarnir fengju að fylgjast með öllu og hefðu með góðum fyrirvara allar nauðsynlegar upplýsingar til að taka afstöðu til málsins.

Þá er þess að geta, að núv. iðnrh. virðist að minni hyggju vera áhugalítill um stóriðju og lítið hefur gerst á því sviði sem vitað er um í starfsstjórnartíð hans. Flokkur hans, Alþb. hefur barist gegn stóriðju við hvert tækifæri, og hefði Alþb. eitt ráðið þessum málum síðustu 15 ár má telja víst að hér væri hvorki álver ná járnblendiverksmiðja. Hins vegar er ástæða til að ætla að meirihl. alþm. sé almennt fylgjandi frekari stóriðju, og er því rík ástæða til að þingflokkarnir taki frá upphafi þátt í könnun málsins og athugun á valkostum.

Alþfl. hefur stutt uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi og lagasetningu Alþ. um þau mál. Flokkurinn hefur verið andvígur hugmyndum um að opna allar dyr fyrir erlendu fjármagni til slíks iðnaðar, en hefur talið rétt að Alþ. fjallaði um hvert mál fyrir sig. Þetta er ennþá stefna flokksins. Hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða allra meina bót í efnahagsmálum, það væri fjarstæða að halda því fram, en þetta er einn veigamikill þáttur sem getur bætt og treyst afkomu þjóðarinnar í framtíðinni. Þetta eru að mestu ónotaðar auðlindir þjóðarinnar, og hún á að snúa sér að því að fara að hagnýta þær í ríkari mæli en gert hefur verið.

Á s.l. áratug hafa verið reist tvö orkufrek iðjuver, álverið í Straumsvík og járnblendiverksmiðjan á Grundartanga. Raunar má telja fleiri verksmiðjur hér í svipuðum flokki þótt minni séu. Nokkur reynsla er því fyrir hendi af starfsemi þessara verksmiðja og má benda á eftirfarandi atriði í því sambandi:

1) Miklar gjaldeyristekjur hafa verið af verksmiðjunum og er talið að á næsta ári, þegar þeir áfangar við byggingu verksmiðjanna, sem nú er um það bil lokið, fara að sýna árangur, muni gjaldeyristekjurnar af verksmiðjunum nálgast 20% af útflutningstekjum þjóðarinnar.

2) Nú þegar hafa nálægt 1000 manns beina atvinnu við þessar verksmiðjur og þær eru ekki láglaunasvæði, eins og andstæðingar þeirra spáðu, heldur veita þær góð kjör og góð vinnuskilyrði, enda eru starfsmannaskipti þar lítil og störf við verksmiðjurnar eftirsótt.

3) Lítið sem ekkert hefur borið á félagslegum vandamálum af völdum þessara iðjuvera og er þó ekki rétt að ganga fram hjá þeirri hættu við framtíðaruppbyggingu og hafa jafnan félagslegu hliðina í huga. Á hinn bóginn hafa þessi iðjuver augsýnilega aukið verulega velmegun næstu byggða.

4) Með byggingu og rekstri iðjuveranna, sem er að langmestu leyti í höndum Íslendinga, hefur flust inn í landið þýðingarmikil tæknikunnátta og reynsla. Ég hygg ég fari með rétt mál um það, að við álverið í Straumsvík sé aðeins einn útlendingur í ábyrgðarstöðum sem gera verulegar kröfur til tæknikunnáttu, en voru margir í upphafi.

5) Hvað áhrif þessara verksmiðja á lífrænt umhverfi sitt snertir er nú ljóst og það fyrir nokkru, að of litlar kröfur voru gerðar til álversins um mengunarvarnir og hefur enn ekki verið að fullu bætt úr því. Á sínum tíma var verulega mikið rætt um mengunarhættu af þeirri verksmiðju, en skilningurinn var ekki meiri en svo eða þekkingin á þeim tíma, að það var skoðun manna að sú hætta mundi ekki reynast alverleg. Varð því niðurstaðan að gera ekki kröfur um hreinsunartæki þar í upphafi. En sem betur fer var hafður varnagli á því, þannig að Íslendingar eiga kröfu á að þau tæki verði sett upp og er nú verið að því smám saman. Hins vegar er reynsla af verksmiðjunni á Grundartanga önnur og bendir til þess, að með nýjustu hreinsitækjum megi hindra mengun og náttúruskemmdir. Þó er nákvæmum umhverfisrannsóknum á því svæði ekki lokið, enda stutt síðan verksmiðjan tók til starfa.

6) Ýmsar þjónustugreinar, sérstaklega málmiðnaður, hafa eflst við tilkomu verksmiðjanna og enn eru óbyggðar verksmiðjur sem gætu tekið við fljótandi áli og þar með sparað orku og mótað úr því margvíslega hluti, eins og gera mætti við verksmiðjuna í Straumsvík.

Vafalaust mætti einnig telja fram ýmsa ókosti sem stóriðjan hefur, en erfitt er að komast hjá þeirri ályktun, að kostirnir séu stórum veigameiri en gallarnir og hrakspár um þessi iðjuver hafa ekki ræst.

Eitt viðkvæmasta deilumál í sambandi við orkufrekan iðnað hér á landi hefur verið og verður trúlega lengi þátttaka erlendra aðila. Um það efni setur Alþfl. á þessari stundu ekki fram neina fasta formúlu og telur sem fyrr að fara verði eftir aðstæðum í hverju tilviki, en markmiðið eigi að sjálfsögðu að vera eins stór hlutur í íslenskum höndum og framast er unnt. Meta verður hverju sinni hversu mikla fjárhagslega áhættu Íslendingar vilja taka eða hve mikið af áhættunni þeir vildu láta erlenda aðila taka ef þess væri kostur. Einnig þarf að meta hver þörf er að sækja tæknikunnáttu til annarra landa í viðkomandi iðngreinum, hverjar sem þær kunna að verða, og hver þörf er samstarfs um öflun hráefna eða markaðsmál.

Um þennan þátt sagði Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, sem er mjög kunnugur stóriðjumálum og reyndur á því sviði, í erindi s.l. vor, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er t.a.m. ekki í vafa um það, að Íslendingar hafa nú bolmagn til þess og lánstraust með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengin er, að ráðast í nýtt stóriðjufyrirtæki sambærilegt við þau, sem fyrir eru, sem yrði algjörlega í íslenskri eigu.“

Svonefndir fjölþjóðahringar, hin alþjóðlegu stórfyrirtæki, eru um margt varhugaverðir, enda sumir svo voldugir að þeir gætu gleypt íslenskt efnahagslíf með húð og hári. Rétt er fyrir smáþjóð að hleypa ekki slíkum hringum til áhrifa í landi sínu. Þrátt fyrir það má þjóðin ekki hræðast samskipti við erlenda aðila eða óttast um of að hún geti ekki haft skipti við þá með fullri reisn og án þess að verða hlunnfarin. Reynslan hefur þegar sýnt að hér býr framsækið og menntað fólk, sem getur ráðið við öll verkefni stóriðju.

Ég vil því leggja áherslu á að við Alþfl.-menn flytjum þetta mál nú í þessari tillögu á þeim grundvelli, að hugsanleg erlend þátttaka þurfi ekki lengur að vera úrslitaatriði í málinu. Það er samkomulagsatriði okkar í milli, Íslendinga, um það, hvernig við viljum haga þeim málum, hversu miklu við viljum til hætta, hvað við teljum okkur hagstætt og nauðsynlegt að hafa mikil samskipti við aðra og þannig hvort við höfum erlenda aðila að slíkum verksmiðjum eða hvort við gerum það ekki.

Staðsetning stóriðjuvera getur orðið viðkvæmt deilumál. Kunnugir menn telja að á næstu árum verði í þeim efnum um tvær meginstefnur að ræða. Annars vegar eru þegar til mannvirki, rafleiðslur, hafnir, vegir o.fl. sem gera stækkun þeirra verksmiðja, sem fyrir eru, mjög hagkvæma. Hins vegar eru þau sjónarmið, að þjóðarnauðsyn sé að dreifa nýjum verksmiðjum um landið og safna ekki allri stóriðju á suðvesturhornið, auk þess sem umhugsunarvert sé hversu við viljum gera þeir erlendu aðilum, sem við höfum þegar samstarf við, sérstaklega varðandi álverið, kost á að auka umsvif sín hér á landi. Það yrði eitt af verkefnum væntanlegrar nefndar að kanna valkosti hvað staðsetningu snertir og leggja fyrir þing og stjórn, e.t.v. með eigin tillögum.

Atvinnulíf okkar á um þessar mundir í vök að verjast. Atvinnuöryggi er minna en það hefur verið, og brottflutningur af landi burt fer ískyggilega vaxandi. Stórframkvæmdir á sviði orkufreks iðnaðar næstu tvo áratugi eru án efa besta tækifærið til að auka atvinnu, bæta og tryggja lífskjör þjóðarinnar. Þetta mál er svo stórt í sniðum að ekki dugir að pukrast með það í þögn í einu ráðuneyti. Hér þarf að taka á næstunni stórpólitískar ákvarðanir, og Alþ. á að sjálfsögðu að hefja athugun á þessum málum, samhliða því sem sérfræðingar, er að þeim hafa unnið, halda starfi sínu áfram, og hafa samvinnu við þá. Þess vegna er þessi tillaga flutt um að kalla nú þegar til fulltrúa allra þingflokka sem með hinum sérfróðu mönnum undirbúi málið vandlega og án tafar til endanlegrar ákvörðunar Alþ. og tryggi það að ekki verði óþarfur dráttur á framhaldi slíkrar uppbyggingar í landinu.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.