20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4710 í B-deild Alþingistíðinda. (4909)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki koma með akademískar athugasemdir við málflutning hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, því að ef það eru akademískar athugasemdir, sem hann kemur með, kæri ég mig ekki um að beita þeim.

Akademískar athugasemdir hv. þm. byrjuðu á beinum ósannindum. Ég nefndi það aldrei að málflutningur hv. þm. Árna Gunnarssonar væri ógeðslegur og á lágu plani, heldur aðeins á lágu plani, alls ekki ógeðslegur. Hins vegar notaði ég heldur óþokkalegt lýsingarorð í öðru sambandi — að vísu fyrr, en ekki þarna.

Það er ákaflega einkennilegt hvernig hv. þm. getur leyft sér að halda því fram, að ég hafi með þeim orðum, sem ég mælti hér í dag um þetta efni, verið að draga konur í einhvern annan og verri dilk, í undirmálsflokk. Það er misskilningur. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum hann getur dregið þær ályktanir. Hann hefur öðruvísi og annan skilning en ég á mjög mörgum efnum, enda lítt reyndur ungur piltur. Þessi skilningur er svo sannarlega yfirskilvitlegur. Baksvið þessara orða minna var í raun og veru hvorki breitt né merkilegt, það er rétt. En ég held að hann sé að skoða eitthvað allt annað, tilbúið, upphugsað og ímyndað baksvið í sínu eigin höfði, en ekki það baksvið sem ég hafði fyrir aftan mig þegar ég var að flytja þessa stuttu ræðu í dag.

Það er áreiðanlega rétt, sem ég sagði, að það er ekki jafnréttisbaráttu kvenna, ekki heldur konum yfirleitt, til nokkurs framdráttar á einn eða annan hátt þegar þær fáu konur, sem sitja á Alþingi, láta draga sig út í það að flytja vond mál að lítt athuguðu máli, ég tala nú ekki um svo vitlausa brtt. sem ég nefndi hér í dag, sem er rökræn vitleysa. Það er slæmt ef karlrembusvín þessa þjóðfélags, eins og það heitir á máli Þjóðviljans a. m. k., geta bent á að þær fáu konur, sem veljast á þing, leyfi sér að flytja aðra eins vitleysu og þarna er um að ræða a, m. k. hjá annarri af þeim konum sem ég minntist á í dag. Ég er meira að segja alveg viss um að því miður hafi flutningur þessa frv. orðið til þess að skaða jafnréttisbaráttuna. Því miður, því að það er sannarlega ástæða til að reyna að finna einhverjar gagnlegar leiðir til að auka jafnrétti í þjóðfélaginu. Það er skelfilegt misrétti í launamálum kvenna. Ég tel að flutningur þessa frv. hafi orðið til þess að jafnréttisbaráttan fær bakslag, en ekki að þetta verði henni til framdráttar. Þetta er ekki mælt í því skyni eða með þeirri hugsun að ég sé á einn eða annan hátt að vera á móti jafnrétti í þessum efnum. Mér hefði aldrei dottið það í hug.

Herra forseti. Það er liðið mikið á fundartímann og ég ætla ekki að tala hér allan matartímann, jafnvel þó að mínar ræður geti oft komið í staðinn fyrir mat og það góðan mat. Það er auðvitað fjarri því, að ég sé haldinn einhverjum fordómum í þessum efnum, og öll orð eins og „ómeðvituð kynskipting“ og annað af því tagi læt ég sigla fram hjá mér að þessu sinni, en er reiðubúinn að ræða við hv. þm. hvar og hvenær sem er um þessi efni, aðeins ef hann hefur lag á því og vonandi vit á því að snúa ekki út úr því eða rangfæra það sem ég hef sagt.