20.05.1981
Neðri deild: 101. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4716 í B-deild Alþingistíðinda. (4921)

226. mál, atvinnuréttindi útlendinga

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. fékk til meðferðar frv. til laga á þskj. 477, um atvinnuréttindi útlendinga. Nefndin sendi þetta frv. til umsagnar og umsagnir bárust frá dómsmrn., lögreglustjóranum í Reykjavík, þ. e. útlendingaeftirliti, Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna.

Nokkrar athugasemdir komu frá þessum aðilum við frv. og virtist vera fyrst og fremst um ágreining eða athugasemdir að ræða frá dómsmrn. og útlendingaeftirlitinu við nokkrar greinar frv. Þær aths. ræddi nefndin sérstaklega og varð sammála um að gera sameiginlegar brtt. sem eru á þskj. 911. Ég mun aðeins stikla á því stærsta sem þar kemur fram.

Við 1. gr. kom athugasemd frá dómsmrn. og útlendingaeftirlitinu raunar einnig, þannig að greinin er umorðuð eins og segir í brtt.:

„Ákvæði laga þessara gildi um atvinnuréttindi útlendinga á Íslandi og í landhelgi Íslands.

Í lögum þessum telst hver sá maður útlendur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.“

2. gr. er athugasemdalaus.

Við 3. gr. kom fram ábending um það, að í lagamáli væri eðlilegra að í staðinn fyrir „atvinnurekendum“ stæði: vinnuveitendum — og í staðinn fyrir að hér er talað um „verkalýðsfélags“ stæði: stéttarfélags. Þetta eru orðalagsbreytingar sem komu fram ábendingar um að væri eðlilegt að yrðu svona.

Einnig er breyting í 2. tölul. 3. gr. Þar falli niður orðin: „Sé viðkomandi ráðinn erlendis“. Rökin fyrir þessu finnast bæði í umsögn dómsmrn. og í umsögn útlendingaeftirlitsins. Það er byggt á því, að þessi setning óbreytt gefi í skyn að útlendingar, sem hyggjast vinna hér á landi, geti ráðið sig í vinnu og fengið atvinnuleyfi eftir komu sína til landsins. Í 3. tölul. 10. gr. laga um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965, er hins vegar gert ráð fyrir að þeir útlendingar, sem hafa í hyggju að stunda atvinnu hér á landi, afli sér atvinnuleyfis áður en þeir koma til landsins. Geri þeir það ekki ber að meina þeim landgöngu eða vísa þeim úr landi, sbr. 1. tölul. 11. gr. sömu laga, sem í gildi eru. Er hér um ósamræmi að ræða, en tekið skal fram að nefnd ákvæði laga nr. 45/1965 hafa reynst mjög haldgóð í framkvæmd. Þetta er álit bæði dómsmrn. og lögreglustjóra eða útlendingaeftirlits. Nefndin taldi þess vegna eðlilegt að nema þessi orð brott þannig að greinin verði þannig:

„Enn fremur skulu vera í ráðningarsamningi ákvæði um flutning viðkomandi frá Íslandi að starfstíma loknum svo og um greiðslur ferðakostnaðar“ o. s. frv.

Einnig bætti nefndin nýrri málsgr. við 3. gr.: „Óheimilt er að veita atvinnuleyfi útlendingi sem hefur ekki dvalarleyfi hér á landi samkv. lögum nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum, eða hefur verið gert að fara af landi brott samkv. þeim lögum.“ — Er þetta staðfesting á gildandi lögum, sem verða áfram í gildi, til að taka allan vafa af í sambandi við þetta atriði.

Þá er einnig breyting í 5. tölul. 3. gr. sem var athugasemd frá Alþýðusambandi Íslands. Það er í sambandi við atvinnuleyfið að því er varðar heilbrigðisvottorð. Alþýðusambandið bendir á að nauðsynlegt sé að þeir útlendingar, sem koma hingað til starfa, gangi undir innlenda læknisskoðun. Þetta kom einnig fram í áliti dómsmrn. og þar af leiðandi bætti nefndin við síðustu mgr. 3. gr. Til viðbótar síðustu mgr. komi: þar með talið innlent heilbrigðisvottorð.

Við 4. gr., þar sem talið er upp til hvaða aðila leita skuli um atvinnuástand o. s. frv., eins og þar stendur, verði bætt: Stéttarsambands bænda, BSRB og BHM, eftir því sem við á. Það komi þannig greinilega fram að óþarfi sé að leita til allra þessara samtaka ef umsókn varðar einhverja ákveðna stétt.

Við 5. gr. gerir nefndin að tillögu sinni ábendingar sem komu fram frá þessum aðilum um vinnumálaskrifstofu félmrn. sem útbýr og dreifir skriflegum upplýsingum til sendiráða Íslands. Það væri óþarfi að bæta við: „til opinberra vinnumiðlana erlendis“. Leggur n. til að þar sé látið nægja: „til sendiráða Íslands og annarra sem þess óska“ — og felld niður setningin: „til opinberra vinnumiðlana erlendis.“

Við 8. gr, komu fram ábendingar um að þar sem stendur í 2. tölul: „hvort hann er hér heimilisfastur“ — virðist vera tekið upp úr eldri lögum sem verið er að fella úr gildi með þessu frv. — lögum frá 1951, en þá voru ekki komin lög um lögheimili sem tóku gildi 1961. N. telur eðlilegra að breyta þessu og hér verði um að ræða hvort hann eigi lögheimili hér á landi.

Einnig er í síðustu málsgr. 8. gr. gert ráð fyrir í frv. að eftir fjögurra ára samfellda búsetu megi þó veita slíkt atvinnuleyfi til ótiltekins tíma. Þessi tímamörk eru hvergi í lögum annars staðar og eftir ábendingu dómsmrn. og útlendingaeftirlitsins færð upp í fimm ár: Eftir fimm ára samfellda búsetu má þá veita slíkt atvinnuleyfi til ótiltekins tíma.

Við 9. gr. er sama breytingin og í 4. gr. Þar er til samræmis bætt inn í: Stéttarsambands bænda, BSRB og BHM eftir því sem við á. Einnig skal í staðinn fyrir „Umsækjandi sé heimilisfastur“ koma: Umsækjandi eigi lögheimili.

Þá er lagt til í 9. gr. að 3. tölul.: „umsækjandi hafi óflekkað mannorð“, falli brott þar sem dómsmrn. t. d. vekur athygli á því, að með breyt. á hegningarlögum og ýmsum öðrum lögum árið 1961 var dregið mjög úr áskilnaði um óflekkað mannorð og er þess ekki lengur krafist við ýmis atvinnuréttindi. Þetta er einnig tekið fram í umsögn lögreglustjórans í Reykjavík. Var nefndin sammála um að fella þetta niður.

Það stendur í 1. málslið 11. gr.: „Útlendinga, sem stunda nám í skólum, sem íslenska ríkið á eða styrkir.“ Um þetta komu talsverðar ábendingar, bæði frá útlendingaeftirlitinu og eins frá dómsmrn., þar sem m. a. kemur fram: „Hefur heimild þessi verið misnotuð svo sem þegar útlendingur skráir sig í skóla, en stundar ekki nám, en fer að vinna, eða útlendingur hefur nám, t. d. í námsflokkum, en vinnur fulla vinnu. Það þyrfti að þrengja þessa undanþágu eða jafnvel fella hana niður.“ Nefndin varð sammála um að breyta þessu lítillega: Útlendinga, sem stunda eingöngu nám í skólum, sem íslenska ríkið á eða styrkir. Aftan við greinina bætist svo nýir töluliðir. Í fyrsta lagi b-liður: 5. danska ríkisborgara, sem lög nr. 18 24. mars 1944, sbr. lög nr. 85 9. okt. 1946, taka til. — Þetta er nauðsynlegt að hafa inni. Einnig: útlendinga, sem undanþegnir eru atvinnuleyfi skv. alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Og 7. liður: danska, finnska, norska og sænska ríkisborgara er dvalið hafa þrjú ár samfleytt eða lengur í landinu. — Þetta er samkv. samningum milli Norðurlanda, sem ekki verður vikist undan, og er nauðsynlegt að taka fram í lögum sem eiga að vera upplýsandi um þessi atriði.

Við 12. gr. flytur n. brtt. um að upphaf greinarinnar umorðist. Í staðinn fyrir „Brot gegn ákvæðum laga þessara varða atvinnurekendur og erlenda starfsmenn þeirra sektum frá 500–5000 kr, til ríkissjóðs“ komi: Brot gegn ákvæðum laga þessara varða þann, er hefur útlending í vinnu án leyfis, svo og útlending, er starfar án leyfis, sektum. — Niður er felld sektarupphæðin þar sem ætti að nægja almennt refsihámark hegningarlaga í þessu sambandi.

Við 15. gr. leggur n. til að verði gerð breyting. Eins og hún er í frv. stendur svo: „önnur ákvæði, er fara í bága við lög þessi.“ Þetta falli niður því það er að mati dómsmrn. og útlendingaeftirlitsins óþarfi að hafa í frv. Þetta er óljóst ákvæði og hér er um að ræða væntanleg lög, sem eru beinskeytt, taka ekki yfir önnur lög.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa lengra mál um þetta nál. Eins og hv. alþm. er kunnugt var þetta frv. fyrst og fremst samið vegna ágreinings um aðbúnað innlendra farandverkamanna. Var skipuð um það nefnd með það fyrir augum að semja nýjar reglur þar að lútandi og gera hins vegar könnun á stöðu og rétti útlendra verkamanna hér á landi og gildandi ákvæðum samninga og laga á hinum Norðurlöndunum hvað þetta varðar í þeim tilgangi að endursemja lög um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi.

Með lögum þessum falla niður lög nr. 39 frá 15. mars 1951, um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi. Þetta er vissulega nauðsynleg löggjöf. N. varð sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem ég hef nú skýrt hér frá. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv., og hefur ein slík brtt. komið hér fram.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir áliti n. og við leggjum til að frv. verði samþykkt með breytingunum á þskj. 911.