21.05.1981
Sameinað þing: 87. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4773 í B-deild Alþingistíðinda. (5023)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar á þinginu 1978–1979 fluttum við þm. Alþb. þá skoðun, að það væri nauðsynlegt að grípa til varnarráðstafana gagnvart þeirri mengun sem íbúum nokkurra byggðarlaga á Suðurnesjum stafar af birgðum bandaríska hersins. Þessi skoðun Alþb., að það beri að fjarlægja þá olíugeyma, sem hafa hindrað eðlilega þróun byggðarlaganna í Njarðvík og Keflavík, og bægja frá þeirri mengunarhættu, sem þessir geymar veita byggðarlögunum, var síðan ítrekuð við fyrri umr. um þá till. sem nokkrir þm. Alþfl. og Sjálfstfl. fluttu hér fyrr í vetur. Í þeim umr. sagði hæstv. félmrh. m. a.:

„Við erum reiðubúnir til þess, svo lengi sem herinn er hér, að taka þátt í því að létta mengunarhættu frá bandaríska hernámsliðinu af íbúum Suðurnesja. Við erum hins vegar ekki reiðubúnir til þess að horfa upp á það, að bandaríska hernum verði leyft að efna til meiri háttar aukningar á geymarými sem flokkast má í raun undir hernaðarframkvæmdir í þessum efnum. Við skiljum algerlega á milli mengunarvarna og hernaðarframkvæmda.“

Hæstv. félmrh. vék einnig að því í umr. um þá till., sem hér var lögð fram og nú er til umr. í breyttri mynd frá utanrmn., að eins og hún lægi fyrir þá orðuð væri hún í raun ótímabær og ekki flutt út frá efnisgrundvelli málsins, heldur í reynd út frá annarlegum pólitískum sjónarmiðum. Í þessum sömu umr., sem fóru fram hér á Alþingi fyrir nokkrum vikum, ítrekaði ég einnig sömu skoðun Alþb. á þessum málum sem ég hef hér lýst með tilvitnun í ræðu hæstv. félmrh., á þann veg, að við þm. Alþb. höfum verið fylgjandi því, að gerðar væru nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þá mengunarhættu sem byggðarlögunum á Suðurnesjum stafar af dvöl hersins, en við værum hins vegar algerlega á móti því, að þær mengunarvarnir væru gerðar að verslunarvöru við bandaríska herinn þannig að Bandaríkjaher fái í staðinn fyrir mengunarvarnir sínar gífurlega aukna aðstöðu til hernaðarumsvifa á Íslandi.

till., sem nokkrir þm. Sjálfstfl. og Alþfl. lögðu fram hér fyrr í vetur, bar heitið Tillaga til þingsályktunar um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík og hún hljóðaði á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela utanrrh. að hraða svo sem verða má byggingu olíustöðvar í Helguvík á grundvelli þess samkomulags sem undirritað var af nefnd skipaðri af utanrrh. og fulltrúum varnarliðsins í umboði NATO 23. maí s. l.

Við lýstum því yfir, þm. Alþb., að sú yfirlýsing, sem fælist í þessari þáltill., að samþykkja þá framkvæmdaályktun, sem gerð var við fulltrúa varnarliðsins um að reisa olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík, væri þess eðlis, að við gætum ekki að henni staðið. Sú framkvæmd og þar með þáltill., sem þessir þm. stóðu að, fól í sér í raun og veru þrjá meginþætti:

1. Byggingu sérstakrar olíuhafnar og birgðastöðvar í Helguvík.

2. Gífurlega stækkun á eldsneytisgeymabirgðum hersins á nágrenni Keflavíkursvæðisins.

3. Að fjarlægja þá geyma sem skapað hafa Keflavík og Njarðvík mengunarhættu.

Síðasta atriðið af þessum þremur gátum við stutt, en hinum tveimur að Alþingi færi nú að lýsa yfir stuðningi við Helguvíkurframkvæmdirnar og Alþingi færi nú að lýsa yfir stuðning við þá áætlun, að eldsneytisgeymabirgðir hersins væru stækkaðar svo stórkostlega sem fólst í þessari áætlun, værum við á móti.

Ég fagna því, herra forseti, að í utanrmn. náðist alger samstaða um að breyta þessari till. á þann veg, að stuðningur við olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík er felldur burt, og öll tilvísun til þeirrar sérstöku framkvæmdaáætlunar, sem vikið er að í hinni upphaflegu tillögu sem Ólafur Björnsson og fleiri þm. Sjálfstfl. og Alþfl. fluttu, er einnig felld burt og eftir stendur það eitt, sem við Alþb.- menn fyrr í vetur töldum nauðsynlegt að Alþingi tæki atstöðu til hér og nú, þ. e. að það ætti að fjarlægja þá geyma sem sköpuðu byggðarlögunum í Keflavík og Njarðvík mengunarhættu. Sú brtt., sem utanrmn. stendur öll að, er á þá leið, eins og hér hefur verið kynnt af formanni n., að utanrrh. er falið að vinna að því að framkvæmdum til lausnar á vandamálum, sem skapast hafa fyrir byggðalögin Keflavík og Njarðvík vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins, verði hraðað sem kostur er. En öll tilvísun til þess, með hvaða hætti þetta verði gert, eða stuðningsyfirlýsing við Helguvíkurframkvæmdirnar er tekin brott.

Ég tel að það sé mikið fagnaðarefni, að það skuli hafa náðst í utanrmn. samstaða um að Alþingi Íslendinga fari ekki að lýsa yfir stuðningi við þessa áætlun. Ástæðan er sú, að í meðferð utanrmn. á málinu komu fram upplýsingar og sjónarmið sem sýndu rækilega fram á það, að þessi áætlun um framkvæmdir í Helguvík var mjög varasöm og jafnvel hættuleg, og það sem er þó aðalatriðið, að það væri hægt að fara aðrar leiðir sem sameinuðu þrennt: í fyrsta lagi að fjarlægja alla þá geyma sem skapað hafa vandamál fyrir Njarðvíkinga og Keflvíkinga, í öðru lagi fælu ekki í sér aukningu á umsvifum hersins hér á landi og í þriðja lagi væri hægt að framkvæma á mun skemmri tíma en þá áætlun sem vitnað er til í upphaflegu till.

Ég hafði fyrirvara um stuðning við álit nefndarinnar. Sá fyrirvari byggðist annars vegar á því, að ég gerði fyrirvara við orðið varnarlið þar eð ég tel að eðli þess hers, sem hér er, sé ekki af því tagi að það réttlæti þetta orð. En hins vegar — og það er aðalatriðið — gerði ég fyrirvara þess efnis, að ég tel að þær framkvæmdir til þess að bægja mengunarhættunni frá þeim byggðarlögum, sem nefndar eru í hinni nýju útgáfu till., eigi að vera með þeim hætti, að það geti gerst skjótt og vel og án þess að það leiði til neinna breytinga á almennum umsvifum hersins hér á landi.

Í grg., sem utanrmn. fékk frá Olíufélaginu hf. og forstjóri þess kynnti á fundi n., kom fram að á undanförnum árum hefur orðið mjög lítil breyting á olíunotkun hersins hér frá ári til árs og s. l. þrjú ár hefur eldsneytisnotkun hins bandaríska hers á Íslandi verið nánast óbreytt. Í ljósi reynslu s. l. þriggja ára og sérstaklega þegar tekið er tillit til þess, að með starfrækslu hitaveitu minnkar enn frekar olíuþörf hersins, er því ekki nauðsynlegt að stækka olíurými hersins hér. Í þessari greinargerð frá forstjóra Olíufélagsins kemur einnig fram mjög veigamikil gagnrýni á fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík og olíubirgðastöðina þar. Ég ætla ekki að rekja þá gagnrýni hér, en það væri vissulega tilefni til að gera það síðar. Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir, að þingflokkur Alþb. telur að sú till., sem forstjóri Olíufélagsins setur fram fyrir þess hönd í greinargerð til utanrmn. um það, með hvaða hætti sé hægt að fjarlægja jafnvel þegar á næsta ári alla þá geyma sem skapað hafa byggðarlögunum í Njarðvík og Keflavík þá mengunarhættu sem hér hefur orðið tíðrætt um, — sú till., sem Olíufélagið gerir um hvernig þetta megi leysa, sé mjög athyglisverð og við erum reiðubúnir til að lýsa yfir stuðningi við að það verði unnið að lausn málsins á þeim grundvelli. Við teljum að þeir menn, sem hafa annast olíuviðskipti við bandaríska herinn og hafa byggt hér olíugeyma og starfrækt olíuflutninga árum saman, séu meðal þeirra Íslendinga sem hafi hvað ríkasta reynslu á þessu sviði.

Þau ánægjulegu tíðindi hafa gerst fyrir byggðarlögin í Keflavík og Njarðvík, að af hálfu Olíufélagsins hf. eða ESSO, eins og það er oft og tíðum nefnt í daglegri umræðu, hefur verið sett fram áætlun um hvernig megi leysa þessi mengunarvandamál byggðarlaganna og fjarlægja alla geymana án þess að til nokkurra framkvæmda í Helguvík komi. Þessi till. er fólgin í því, að á því svæði, sem samkv. greinargerð frá 23. maí er á Keflavíkursvæðinu og átti að reisa 32 þús. rúmmetra tankrými, verði reist 51 þús. rúmmetra tankrými í staðinn, en bygging 169 þús. rúmmetra tankrýmis í Helguvík, sem átti að koma til viðbótar við þetta 32 þús. rúmmetra tankrými á Keflavíkursvæðinu sjálfu, verði hins vegar algerlega lögð niður. Tillaga Olíufélagsins felst sem sagt í því, að alger óþarfi sé að leggja í 169 þús. rúmmetra framkvæmdir í Helguvík og það sé hægt að leysa vandamál byggðarlaganna með því að byggja á því svæði, sem gerðar voru tillögur um á Keflavíkursvæðinu sjálfu, 51 þús. rúmmetra tankrými, sem er tæpur 1/3 af þeirri heildartillögu sem fram kom 23. maí s. l., og gera það fyrir kostnað sem er aðeins 10–20% af þeim heildarkostnaði sem upphaflega Helguvíkurframkvæmdirnar fólu í sér og þáltill., sem hér var upphaflega til umr. fjallaði um.

En það, sem er kannske aðalatriðið í þessari till., er að hún byggir á því, að slíkri framkvæmd gæti orðið lokið á árinu 1982 eða í síðasta lagi á árinu 1983. Stjórnvöld hafa hér fengið áætlun frá öflugasta olíufélagi landsins um það, hvernig megi leysa mengunarvandamál sem stafa af eldsneytisgeymunum fyrir Njarðvík og Keflavík, fjarlægja alla þessa geyma og gera það innan 12–18 mánaða. Þingflokkur Alþb. er reiðubúinn að lýsa yfir stuðningi við þessa áætlun, sem Olíufélagið hefur sett fram, og væntir þess, að það myndist þjóðarsamstaða um það, hér á þingi sem annars staðar, sérstaklega hjá þeim mönnum sem hæst hafa talað um að það þurfi að leysa mengunarvandamálin og geymavandamálin fyrir Njarðvíkinga og Keflvíkinga, að við sameinumst allir um að leysa þessi vandamál nú innan 12–18 mánaða á grundvelli þeirrar framkvæmdaáætlunar sem þeir Íslendingar og viðskiptaaðilar, sem hafa mesta reynslu í þessum efnum, hafa nú lagt fram. Það væri farsæl lausn á þessu máli fyrir íbúa Njarðvíkur og Keflavíkur og væri jafnframt lausn sem væri í samræmi við íslenska hagsmuni fæli ekki í sér neina aukningu á hernaðarumsvifum Bandaríkjanna hér á Íslandi og væri í reynd í samræmi við það, að meðan við höfum bandarískan her hér í landinu reynum við þó að búa að aðstöðu hans hér þannig að það skapi sem minnsta hættu fyrir Íslendinga.

Herra forseti. Ég vil fagna því, að það náðist alger samstaða í utanrmn. um að fella alla tilvísun til Helguvíkurframkvæmdanna burt úr upphaflegri till., fella alla tilvísun til samkomulagsins, sem gert var við fulltrúa NATO, burt úr hinni upphaflegu tillögu. Í stað þess er komin hér tillaga sem eingöngu miðar að því að leysa mengunarvandamál byggðarlaganna í Njarðvík og Keflavík. Ég fagna því enn fremur, að öflugasti aðilinn í olíuviðskiptum á Íslandi hefur nú lagt fram raunhæfa áætlun um það, hvernig megi leysa þetta vandamál fyrir byggðarlögin á Suðurnesjum á næstu 12–16 mánuðum. Við treystum því að allir ábyrgir aðilar sameinist um að leysa þau með þeim hætti.