21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4791 í B-deild Alþingistíðinda. (5038)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef reynt að láta utanrmn. í té þau gögn og þær upplýsingar sem tiltækar hafa verið um þetta mál og eftir hefur verið óskað. Hins vegar hef ég ekki talið það mitt hlutverk að beita sérstaklega áhrifum mínum á það, hvernig sú til. yrði úr garði gerð sem yrði samþykkt um þetta mál. Ég hef ekki talið það beinlínis viðeigandi þar sem hér er um áskorun á utanrrh. að ræða, a. m. k. í svipinn á mig.

En ég vil segja það, að ég fagna þeirri samstöðu sem hefur orðið í þessu máli. Og ég vil segja það, að ég felli mig vel við þá till. sem utanrmn. hefur gert. Sú till., sem flutt var á sínum tíma, var að nokkru byggð á misskilningi og þurfti þess vegna leiðréttingar við. Í þeirri till. stóð, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanrrh. að hraða svo sem verða má byggingu olíustöðvar í Helguvík á grundvelli þess samkomulags sem undirritað var af nefnd skipaðri af utanrrh. og fulltrúum varnarliðsins í umboði NATO.“

Það, sem hér var um að ræða, var auðvitað einungis nefndarálit. Það hefur ekkert samkomulag verið gert um þetta mál. Það var ekkert samkomulag gert um það af þeirri nefnd sem um þetta fjallaði (Gripið fram í: Samkomulag nefndarinnar.) Til þess hafði hún ekkert umboð. Það var aðeins nál. og till. til hlutaðeigandi yfirvalda sem fólust í því. Þess vegna hefði ekki verið hægt að samþykkja þetta eins og það lá fyrir. Því tel ég þá breytingu, sem gerð hefur verið á þessari till. af utanrmn., vera til bóta.

Ég mun að sjálfsögðu fara eftir þessari ályktun, sem ég held að varla þurfi að efast um að verði samþykkt, og mun reyna að vinna að því að hraða framkvæmdum þeim, sem þar er fjallað um, svo sem kostur er. Ég vil hins vegar segja það strax, að ég álít að það verði mjög erfitt að hraða þeim framkvæmdum og víkja frá þeim tímasetningum sem þar hafa verið ráðgerðar og um hefur verið talað. En að sjálfsögðu mun ég að því vinna, að reynt verði að hraða þessu eftir því sem kostur er. En þó að svo sé vil ég undirstrika það, að hér er um mjög stórt mál að ræða og miklar framkvæmdir og það má ekki hrapa að neinu í þessum efnum.

Ég hef látið þá skoðun áður í ljós, að ég teldi ekki heppilegt að Alþingi færi almennt að gera ályktanir um einstakar varnarliðsframkvæmdir, það væri erfitt að sjá fyrir til hvers slíkt mundi leiða, þó að enginn dragi í efa vald Alþingis í þeim efnum. Einmitt af þeirri ástæðu felli ég mig líka vel við þessa till. eins og hún liggur fyrir. Að öðru leyti en í henni segir fer um þessar framkvæmdir að öllu leyti með sama hætti og aðrar varnarliðsframkvæmdir. Vald utanrrh. í þeim efnum er ekki skert eða takmarkað á neinn hátt.

Það er heldur ekkert í þessari till. um það, hvar þessir geymar skuli reistir. Það er hvorki mælt svo fyrir, að þeir skuli reistir hjá Helguvík, né heldur útilokað að þeir verði reistir þar. Það fer eftir mati. Í sumar fara fram athuganir, jarðvegsrannsóknir á berginu og jafnframt botnrannsóknir við hafnarstæði, og getur enginn sagt um það nú, hver útkoman verður af þeim rannsóknum. Ákvörðun í málinu getur auðvitað mótast af því, hver útkoman verður þar.

Ég tel mér ekki fært að taka ákvörðun um staðarval nema að undangengnum frekari rannsóknum. Ég hef áður sagt það, að frá mínu leikmannssjónarmiði væri þessi fyrirhugaði staður of nærri byggð, þéttbýli. En það, sem miklu hefur ráðið og alveg tvímælalaust mestu ráðið hjá nefndinni, þegar hún valdi þennan stað, var að bæjarfélögin þarna suður frá bentu á þennan stað. Hafnarstjórnin taldi hann líklegan. Jarðfræðingur frá Náttúruverndarráði taldi ekkert athugavert við hann. En auðvitað geta fleiri staðir þarna komið til álita og verður að athuga það mál af fullri kostgæfni áður en ákvörðun er tekin. Ég ætla ekki að bera ábyrgð á því, að ákvörðun sé tekin áður en nægileg rannsókn hefur farið fram.

Í öðru lagi er það svo, að um aukningu eldsneytisrýmisins er engin ákvörðun í þessari ályktun. Utanrrh. hefur því eftir sem áður óbundnar hendur í því efni. Ég hef bent á það áður, að sú aukning, sem farið er fram á af hálfu varnarliðsins, er fjarri því að vera þreföld eða fjórföld, heldur er hún, eftir því hvort miðað er við eldsneytisbirgðir í heild eða eldsneytisbirgðir flugvéla, 34% eða 66%. Það verður auðvitað ekki gengið fram hjá því, að það verður að athuga þörf varnarliðsins fyrir auknar eldsneytisbirgðir. Það hefur margt breyst frá því að þessir geymar voru upphaflega byggðir. Og það er enginn vafi á því, að þær flugvélar, sem nú eru notaðar, eru eldsneytisfrekari en þær sem þá voru í notkun. Auðvitað verður að sjá svo um að búnaður varnarliðsins sé við hæfi, þannig að varnarliðið geti komið að einhverju gagni. Annars væri engin meining í að hafa það hér. Þess vegna verður að meta þetta atriði.

Ég vil líka segja það, að ég hef ekki tekið neina ákvörðun um hver aukningin skuli vera, ekki gefið neitt fyrirheit um neitt í því efni og ekki tekið neina ákvörðun. Ég mun ekki gera það nema að undangenginni betri athugun á þessum efnum. Það ber t. d. svo mikið á milli þess, sem forstjóri Olíufélagsins hélt fram að væri ársþörf flugvéla á Keflavíkurvelli, og þeirri upplýsinga, sem ég hef fengið frá varnarliðinu, að auðvitað verður ekki komist hjá því að athuga það mál nánar.

Það verður þess vegna að líta á allt þetta mál í heild. Og það er auðvitað ekki nóg að færa olíugeymana, þá sem nú eru þarna og standa í vegi fyrir því, að hægt sé að framkvæma skipulag, og valda hættu á mengun. Það verður auðvitað líka að fjarlægja og breyta þeirri leiðslu sem liggur til geymanna. Það er óhæf staðsetning sem er á þeirri leiðslu nú, m. a. vegna þróunar byggðar sem þarna hefur átt sér stað frá því að hún var lögð. Og það er auðvitað ekki fullnægjandi að ætla að halda því fram, að það sé nægilegt að grafa þær leiðslur í jörð. Leiðslur í jörð geta sprungið og það getur stafað mengunarhætta af leiðslum í jörð alveg eins og þeim sem liggja ofanjarðar.

Það hefur verið sagt að það mætti byggja þetta á tiltölulega skömmum tíma. Það er það verkefni, sem ég fæ hér, að athuga hvort hægt sé að hraða þessu. En ég vil benda á það, að hér er um svo mikla framkvæmd að tefla að þar hljóta tvö atriði að koma mjög til skoðunar og hafa áhrif á það, hvernig hægt er að standa hér að verki. Það er annars vegar að það þarf að fjármagna þessar framkvæmdir, og það gerir varnarliðið með tvennum hætti: annars vegar með því að sækja í svokallaðan Infrastructure sjóð, sem er hjá NATO og gert er ráð fyrir að leggi til 60% af kostnaði við þessa framkvæmd, og hins vegar 40% beint til Bandaríkjanna. Það skyldi enginn halda að peningar hjá þessum aðilum liggi alveg á lausu. Það getur tekið sinn tíma að fá þá, og því geta verið takmörk sett, hve mikið þeir vilja veita í einu til framkvæmdanna. Þetta eru framkvæmdir sem þeir kosta algjörlega, og þess vegna getur þetta atriði auðvitað haft sín áhrif í þessu sambandi.

Hitt atriðið er það, að við verðum að huga að því að reyna að halda framkvæmdum varnarliðsins eins og verið hefur innan nokkurs ramma, sem getur að vísu verið nokkuð breytilegur frá ári til árs, en hefur þó verið reynt að halda í nokkrum skorðum. Það verður að gera vegna þess, hve framkvæmdir á vegum varnarliðsins hafa mikil áhrif á mannaflaþörf. Það verður að gæta þess auðvitað, að þær séu ekki svo miklar í einu að þær dragi með óhóflegum hætti vinnuafl frá atvinnuvegum eða öðrum nauðsynlegum framkvæmdum. Af þessum ástæðum getur þurft að stilla þessu í hóf á hverjum tíma, líka vegna þess að það verður alltaf óhjákvæmilegt að á hverju ári þurfi einhverjar framkvæmdir að eiga sér stað á vegum varnarliðsins aðrar en þessar. Það þarf ýmiss konar endurnýjun að eiga sér þar stað, ýmiss konar viðhald þarf að fara fram. Til dæmis að taka dæmi eru vegna óveðursins, sem var í vetur, hreint ekki litlar fjárhæðir sem þarf til þess að ráða bót á þeim skemmdum sem þá urðu á sundlaug o. fl. þar suður frá.

Þetta vil ég taka fram þannig að mönnum sé ljóst að með þessari samþykkt, þó góð sé, verður ekki hægt að ráða fram úr þessum málum, — vandamálum sem réttilega eru kölluð hér, eins og hendi sé veifað. Það hlýtur að taka sinn tíma.

Það er kannske ekki heldur aðalatriðið hvort lokið verði við slíkar framkvæmdir ári fyrr eða seinna, heldur hitt, að rétt og heppileg lausn verði fundin. En í öllum viðræðum og umræðum um þessi mál hefur verið stefnt að því, að geymarnir, sem eru þarna og standa fyrir ofan Njarðvík og Keflavík, verði sem fyrst leystir af hólmi, það verði forgangsverkefni í raun og veru að koma upp öðrum geymum sem geta tekið við af þeim. Hitt getur kannske dregist lengur, að byggja geyma í stað þeirra sem í landinu eru, og enn fremur varðandi aukningu. En jafnvel þó að það sé aðeins hugsað til þessara geyma sem þarna eru nokkur hættuvaldur og þröskuldur fyrir þessi byggðarlög, þá verða ekki framkvæmdir að gagni gerðar í þeim efnum nema séð sé fyrir löndunaraðstöðu, hvernig svo sem henni verður háttað og hvað svo sem menn vilja kalla það. Þar getur komið tvennt til greina eins og bent er á í þessu nál., annaðhvort að hafa flotholt þarna eða byggja hafnargarð. Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar hér og nú um mína skoðun í þeim efnum.

Herra forseti. Ég hef talið rétt að láta þessi sjónarmið mín koma hérna fram þannig að þau liggi fyrir áður en þeir tala sem hér eru á mælendaskrá. Ég vil svo ljúka, mínu máli með því að ítreka það, að ég fagna þeirri samstöðu sem orðið hefur um þetta mál. Það liggur fyrir og engin launung á það lögð, að einn nm. utanrmn., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, skrifar undir álitið með fyrirvara. En ég vænti þess, að eftir þá góðu samstöðu, sem í utanrmn. hefur náðst, geti menn hér á hv. Alþingi orðið sammála um þetta og þurfi kannske ekki að eyða óhóflegum tíma í umr. um það þar sem gott samkomulag virðist vera um það og önnur verkefni eru fyrir hendi og bíða umræðu.