21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4795 í B-deild Alþingistíðinda. (5040)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér hafa vissulega gerst nokkur tíðindi í þessu máli, og ég fagna því, að till. Ólafs Björnssonar skuli nú vera komin svo langt áleiðis að um hana hefur efnislega náðst fullt samkomulag í utanrrmn. Hæstv. utanrrh. hefur túlkað það hér, hvernig hann skilji orðalag þeirrar till., gert það mjög rækilega og greinilega þannig að ég held að öllum þingheimi megi ljóst vera hvernig beri að skilja þá tillgr. sem samkomulag hefur orðið um í utanrmn. Þessu ber að fagna, en um leið hljóta þetta óneitanlega að teljast veruleg tíðindi vegna þess að enn einu sinni hefur Alþb. étið ofan í sig allt sem áður var hér sagt af þess hálfu um þessi mál. Og það verður að segja að hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni er ekki flökurgjarnt eða hann maður klígjugjarn. Úr þessum ræðustóli sagði hann okkur áðan að olíunotkun á Keflavíkurflugvelli hefði verið óbreytt síðustu þrjú ár. Úr þessum ræðustóli talaði þessi sami hv. þm. fyrir fáum kvöldum, þegar verið var að ræða um skýrslu utanrrh., um stórkostlega aukningu á öllum umsvifum varnarliðsins. Þetta gengur ekki alveg upp og kemur ekki alveg heim og saman.

Hann hafði líka hér og hefur haft úr þessum sama ræðustól hér mörg orð um það, hversu hættulegt og hversu váleg tíðindi það væru, að nú ætti að ráðast í það að auka eldsneytisgeymarými á Keflavíkurflugvelli, hversu stórkostlega hættu þetta skapaði. Hann hefur haft um það mörg orð. Nú skrifar hann undir till. hér um að hraðað verði svo sem kostur er framkvæmdum til lausnar á vandamálum, en með öðrum orðum þýðir þetta auðvitað byggingu olíugeyma.

Þetta eru að sjálfsögðu merkileg tíðindi. Það hljóta líka að teljast merkileg tíðindi þegar talsmaður Alþb., íslenskra kommúnista, flokksins sem Einar Olgeirsson var í forustu fyrir um áratugi, hrósar úr þessum ræðustól Olíufélaginu hf., — Olíufélaginu sem Einar Olgeirsson vildi þjóðnýta, leggja niður og Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm., vill raunar líka leggja niður. — Olíufélaginu, sem e. t. v. mætti segja að væri með nokkrum hætti angi af bandaríska auðhringnum Standard Oil. Það eru vissulega tíðindi þegar talsmenn Alþb. telja það helst til ráða að hlíta leiðsögn og ráðum slíkra félaga.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði hér mörgum orðum um hina miklu og að manni helst skildist dýrmætu reynslu sem Olíufélagið hf. hefði aflað sér í viðskiptum við varnarliðið. Ég man svo langt að um reynslu Olíufélagsins af viðskiptum við varnarliðið var fjallað dag eftir dag í málgagni íslenskra kommúnista, Þjóðviljanum. Það var ekki alltaf fallegt sem þar var sagt um reynslu Olíufélagsins af viðskiptunum við varnarliðið. Sú viðskiptasaga endaði raunar fyrir íslenskum dómstólum, og ég ætla ekki að rekja það mál hér frekar, enda engin ástæða til.

En nú er það Olíufélagið, það á að hlíta þess forsögn, þess leiðsögn í þessum málum. En nú skyldu menn athuga: Gæti nú ekki verið að Olíufélagið hefði einhverra hagsmuna að gæta í sambandi við þetta mál? Nú veit ég að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er hér næstur á mælendaskrá, og nú vona ég og skora á hann úr þessum ræðustól hér að gera grein fyrir, eftir því sem hann best veit, — gjörla hlýtur hann að hafa kynnt sér þessi mál fyrst hann er svo reiðubúinn að hlíta forsögn Olíufélagsins ESSO, — að gera grein fyrir því, hvaða hagsmuni Olíufélagið hf. hefur í þessu sambandi. Getur verið að það fyrirtæki hafi mjög verulega hagsmuni af því að ekki verði stórbreyting á þessum málum svo að e. t. v. geti það haldið áfram að leigja varnarliðinu aðstöðu til þess að geyma olíu? Um allt þetta væri fróðlegt að fá upplýsingar. Það getur líka vel verið að hæstv. félmrh. sem talaði mjög hér í umr. um skýrslu utanrrh. um m. a. þetta svokallaða Helguvíkurmál og þá hættu sem það skapaði, — það gæti vel verið að hann ætti að koma hér í ræðustól á eftir og segja þingheimi frekar frá þessum skyndilegu skoðanaskiptum þess flokks sem hann er í forsvari fyrir, flokks Einars Olgeirssonar, sem nú leitar á vit Olíufélagsins um ráð og leiðsögn. Þetta eru staðreyndir sem menn hér ættu að hafa í huga.

En það er ýmislegt annað í þessu sambandi sem líka er vert að hafa í huga. Nú er hæstv. fjmrh. kominn hér líka. Það væri raunar fróðlegt að heyra sömuleiðis frá honum ástæðuna til þessara skyndilegu skoðanaskipta.

Það má e. t. v. segja að það geti verið tvær ástæður fyrir því, hversu skyndilega Alþb. hefur skipt um skoðun í þessu máli. Í fyrsta lagi gæti ástæðan verið sú, að þeir geri sér grein fyrir að þessi svokallaða barátta þeirra og hræðsluherferðin, sem þeir hafa efnt til gegn varnarstöðinni í Keflavík, sé töpuð, að hernámsandstæðingar séu búnir að gera það upp við sig, að þetta sé tapað stríð. Í því sambandi vil ég- með leyfi hæstv. forseta — vitna hér í viðtal, sem kom í Þjóðviljanum 7. maí s. l., við rithöfundinn Vilborgu Dagbjartsdóttur sem hefur lengi verið framarlega í baráttu herstöðvaandstæðinga. Blaðamaður spyr: „Heldurðu að andófið gegn hernum hafi haft mikið að segja?“ Hún svarar: „Ég var með í baráttunni gegn hernum frá fyrstu tíð, með í undirbúningi fyrstu Keflavíkurgöngunnar og seinna í stofnun samtaka hernámsandstæðinga. Baráttuöflin voru sterk í upphafi. Við trúðum því, að barátta okkar mundi leiða til sigurs. En eftir að undirskriftasöfnun hernámsandstæðinga rann út í sandinn og eftir að klofningur kom upp og nýir stjórnmálaflokkar voru stofnaðir hefur þetta mest verið sýndarmennska. Ég efast ekki um einlægni þess unga fólks sem staðið hefur í eldlínunni. En broddinum var kippt úr baráttunni, hreyfing herstöðvaandstæðinga hætti að vera það afl sem áður var, og það ríkir ákveðið vonleysi í kringum þetta andóf.“

Kannske eru þessi skyndilegu skoðanaskipti, sem ég fagna, hjá Alþb., afleiðing af þessu. Það eiga væntanlega einhverjir hernámsandstæðingar úr röðum Alþb. eftir að koma hér í ræðustól. Hver veit nema hv. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, komi hér og segi þingheimi frá skoðunum sínum á þessu, hvort þetta er rétt hjá flokkssystur hennar, Vilborgu Dagbjartsdóttur, að þetta sé sýndarmennskan ein og það ríki ákveðið vonleysi í kringum þetta andóf? Mér finnst allt bera þess merki, að æ fleiri Alþb.-menn geti nú tekið undir með Vilborgu Dagbjartsdóttur.

Í öðru lagi má draga þá ályktun af þessum skyndilegu skoðanaskiptum, og það er mjög nærtækt, að Alþb. hafi gert það upp við sig að sitja í ríkisstj. svo lengi sem sætt er og raunar lengur en sætt er að mati margra stuðningsmanna þess, vegna þess að ráðh. Alþb. telja einfaldlega sínum hagsmunum, sinum valdahagsmunum betur borgið með því að sitja í ríkisstj. þótt svo það kosti það, að þeir þurfi svo sem á tveggja mánaða fresti að gleypa, að kyngja ýmsum af sínum gömlu baráttumálum. Það skyldi þó aldrei vera að Alþb. hafi einfaldlega gert þetta upp við sig með þessum hætti og komist að þessari niðurstöðu. Það er a. m. k. fróðlegt íhugunarefni fyrir þá sem fylgt hafa Alþb. vegna andstöðu þess við veru varnarliðsins á Íslandi.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri. Ég fagna því, að samstaða skuli hafa náðst um þá till. Ólafs Björnssonar sem hér hefur verið til umr.