21.05.1981
Sameinað þing: 88. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4805 í B-deild Alþingistíðinda. (5053)

116. mál, hagnýting innlendra byggingarefna

Frsm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Atvmn. fékk umsagnir um till. frá Húsnæðisstofnun ríkisins og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og átti auk þess fund með Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins um málið. Nefndin mælir með samþykkt till. nokkuð breyttrar. Breytingarnar varða fremur tæknilegar útfærslur tilraunanna heldur en efnisatriði málsins. Vegna þess, hve mikið er í húfi, hve mikil verðmæti eru í spilinu þegar um endurbætur og nýjungar í húsbyggingum er að ræða, mælir n. eindregið með samþykkt till. eins og lagt er til á þskj. 847. Brtt. er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hanna og síðan reisa tilraunahús við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Húsið skal vera svonefnd rammabygging, þar sem unnt er að skipta um vegg- og þakeiningar í rannsóknaskyni. Markmiðið með því skal vera að hagnýta sem mest innlend byggingarefni til byggingarframkvæmda og nýta jafnframt þá bestu tækni, sem þekkist hjá öðrum þjóðum, til að lækka byggingarkostnaðinn, stytta byggingartíma og reisa vandaðar byggingar er henta sem best íslenskum aðstæðum:“