18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

81. mál, eftirlaun til aldraðra

Fyrirspyrjandi (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Eins og hv. þm. vita voru í des. s.l, samþykkt lög um eftirlaun til aldraðra. Veigamesta atriði laganna var það, að þeir, sem unnið hafa í 15 ár eða meira eftir 1955 og áttu engin eða lítil lífeyrissjóðsréttindi, fengu verðtryggð lágmarksréttindi sem jafngiltu því, að þeir hefðu verið fullgildir meðlimir í lífeyrissjóði í 15 ár. Þeir, sem unnið hafa skemur en 15 ár á þessu tímabili, fá hlutfallslega minni réttindi, nema um örorku eða dauðsföll sé að ræða, en um maka- og örorkubætur gilda samkvæmt lögunum mun rýmri reglur.

Ef um verkamann er að ræða eða mann með svipuð laun er upphæðin, sem hér um ræðir, álíka há og fullur ellilífeyrir eða full tekjutrygging almannatrygginga. M.ö.o.: þeir, sem engar tekjur hafa aðrar en ellilífeyri og tekjutryggingu, fá nálægt 50% hækkun á heildartekjum sínum á grundvelli þessara laga, sumir eitthvað minna, margir meira, og fer það eftir þeim tekjum sem menn hafa haft. Þeir, sem unnið höfðu í 15 ár við gildistöku laganna og vinna áfram, fá aukin réttindi sem því nemur, einnig þeir sem unnið hafa lengur en til 70 ára aldurs. Þetta er mjög stór áfangi á leiðinni til samræmds og samfellds lífeyrisréttindakerfis fyrir alla landsmenn. En ég tel því miður, ég er hræddur um og þekki reyndar nokkur dæmi þess, að framkvæmd laganna hafi ekki enn verið sem skyldi. Á ég þá við það, að enn eru margir sem réttindi eiga án þess að vita af því og sækja þar af leiðandi ekki um þessar bætur. Á þessu þarf strax að finna lausn, t.d. með því að láta tölvur þær, sem skattayfirvöld nota, gera skrá yfir alla sem réttindi gætu átt samkvæmt þessum lögum. Það ætti með nútímatækni að vera auðvelt. Ég hef margfalda reynslu fyrir því, að þótt auglýst sé eftir umsóknum og þótt auglýst sé vel, sem ekki hefur verið gert í þessu tilfelli, þá séu samt margir, ekki síst þegar gamalt fólk á í hlut, sem ekki fylgjast með slíkum auglýsingum og vita því ekki um rétt sinn. Sem dæmi get ég nefnt að bæjarstjórn Vestmannaeyja ákvað á sínum tíma að fella niður fasteignagjöld aldraðs fólks og öryrkja eftir ákveðnum reglum og auglýsti það vel, t.d. í öllum bæjarblöðunum sem berast inn á svo til hvert heimili í kaupstaðnum. Eigi að síður sendu fáir þeirra, sem rétt áttu til lækkunar eða niðurfellingar þessara gjalda, inn umsóknir. Framkvæmdinni var þá breytt þannig að þriggja manna útsvarsnefnd kaupstaðarins var falið að finna hvaða fólk ætti þennan rétt og síðan voru gjöldin sjálfvirkt felld niður eða lækkuð. hetta var ekki ýkjamikið verk. Eitthvað svipað verður að gera varðandi framkvæmd laganna um eftirlaun til aldraðra. Og með þeirri tölvutækni, sem skattyfirvöld hafa nú yfir að ráða, á þetta að vera auðvelt.

Með hliðsjón af framansögðu hef ég leyft mér á þskj. 87 að bera fram eftirtaldar fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

1) Hve margir hafa fengið greiðslur samkv. II. kafla laga um eftirlaun til aldraðra?

2) Hve miklar eru þessar greiðslur samtals?

3) Hvað líður setningu reglugerðar samkv. 18. gr. um nánari ákvæði um framkvæmd laganna?