18.11.1980
Sameinað þing: 20. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

81. mál, eftirlaun til aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Lög um eftirlaun til aldraðra, nr. 971979, öðluðust gildi 1. jan. s.l. og komu í stað laga nr. 63 1971 ásamt síðari breytingum, um eftirlaun aldraðra félaga í stéttarfélögum. Með þessum nýju lögum varð sú veigamikla breyting að aldraðir, sem ekki áttu rétt samkvæmt lögum um lífeyrissjóð bænda né samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, öðluðust lífeyrisrétt, þ.e. væru þeir fæddir árið 1914 eða fyrr, hefðu þeir náð 70 ára aldri og látið af störfum og ættu þeir að baki a.m.k. tíu ára réttindatíma að því er varðar lífeyrisgreiðslur.

Við lauslega útreikninga, sem fyrrv. hæstv. heilbr.- og trmrh. lét gera, taldist honum svo til að fjöldi nýrra lífeyrisþega samkv. ákvæðum þessara nýju laga yrði 3 000–3 500 talsins. Frá áramótum s.l. og til þessa dags hafa hins vegar aðeins 222 — ég endurtek 222 — fengið rétt samkv. II. kafla laga um eftirlaun aldraðra, en ekki 3 000–3 500. Alls hafa um 400 hins vegar sótt, en eftir er að úrskurða um rétt þeirra sem þarna eru umfram töluna 222.

Það er alveg augljóst mál, að hér hefur það gerst að fjöldi manna veit ekki um rétt sinn. Hér skortir á að stjórnvöld hafi kynnt sem skyldi þessi lög og þessi ákvæði þegar þau tóku gildi í upphafi. Það var ekki fyrr en á miðju þessu ári að umsjónarnefnd eftirlauna aldraðra vakti athygli á því, hversu fáir væru í raun og veru komnir með þann rétt sem þarna er um að ræða. Og í framhaldi af því og nánari könnun málsins, svo og því, að þessi mál hafa verið til meðferðar í viðræðum ríkisstj. við ASÍ núna að undanförnu, höfum við ákveðið að setja í gang kynningarherferð til þess að fólk átti sig á þeim rétti sem felst í þessum lögum.

Hv. þm. spyr hve miklar greiðslur samtals hafi farið út samkv. II. kafla laga um eftirlaun aldraðra. Frá og með áramótum til 1. nóv. s.l. nema þessar greiðslur 124.6 millj. kr. Gert var hins vegar ráð fyrir 1 350 millj. kr. til að standa straum af kostnaði vegna þessara nýju eftirlauna og uppbóta á þau. Fyrstu tíu mánuði ársins hefur eingöngu verið varið sem nemur 9.2% af þessari fjárhæð. Er reyndar hið sama að segja um þetta og fjölda umsækjenda, að þetta skýrist af því, að menn hafa ekki vitað um rétt sinn vegna þess að rétturinn hefur ekki verið kynntur mönnum sem skyldi.

Hvað líður setningu reglugerðar samkv. 18. gr. um nánari ákvæði um framkvæmd laganna, spyr hv. þm. að lokum. Því er til að svara, að þegar jafnviðamikil lög og lög um eftirlaun til aldraðra eru sett þykir tilhlýðilegt að hafa heimildarákvæði fyrir ráðh. til þess að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Þau lög, sem verið er að fjalla um hér, hafa hins vegar aðeins verið í gildi skamma stund. Reynslan sýnir að ýmsu er þarna ábótavant sem þarf að lagfæra og hefði ekki verið lagað með einfaldari reglugerðarsetningu fyrst og fremst. Með hliðsjón af því hefur reglugerðarsmíði verið frestað. Ákvörðun um reglugerð í þessum efnum verður að taka með hliðsjón af þeirri heildarniðurstöðu sem liggur væntanlega fyrir fljótlega af þeirri reynslu sem fengist hefur af lögum um eftirlaun aldraðra.

Ég held að þessi lög séu ákaflega glöggt dæmi um það, að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um mikilsverð réttindamál komast þau ekki til skila öðruvísi en að þeim sé komið með skipulegum hætti á framfæri við það fólk sem réttindanna á að njóta. Ég hygg að í þessu tilviki sé þetta misræmi í rauninni jafnvel hróplegra en í mörgum öðrum tilvikum. Þetta minnir okkur á það, að það lífeyrissjóðakerfi sem við erum hér með í landinu er orðið allt of flókið og þvælulegt eins og það er. Umsjónarnefndarkerfið er þannig að fjöldi fólks, sem þarna á rétt, áttar sig ekki á því, að það eigi þann rétt. Af þeim ástæðum liggur það nú fyrir, að eftir tíu mánaða framkvæmd laganna um eftirlaun aldraðra, II. kafla þeirra, hafa 400 sótt um lífeyri samkv. kaflanum, enda þótt gert hafi verið ráð fyrir að 3 000–3 500 manns í landinu ættu þennan rétt.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi svarað þeirri fsp. sem til mín var beint.