02.12.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

342. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Í gildandi lögum eru ákvæði um skyldur hæstv. ríkisstj. til að hafa samráð við launþegasamtökin í landinu. Hæstv. ráðh. Svavar Gestsson, nýkjörinn formaður Alþb., sagði áðan að ríkisstj. hefði mikinn áhuga á því að framfylgja þessari lagaskyldu sinni. Mér er ekki kunnugt um að hæstv. ríkisstj. hafi í nema eitt skipti haft það sem hún kallar „samráð“ við verkalýðshreyfinguna í landinu. Þá bauð hæstv. forsrh. nokkrum hóp manna til síðdegiskaffidrykkju í ráðherrabústaðnum. Þar var veitt kaffi og smákökur. Þetta er eina samráðið sem við launþegasamtökin í landinu hefur verið haft síðan hæstv. ríkisstj. tók við.

Einn þm. ríkisstj. leyfði sér þá að spyrja forsrh., milli þess sem hann drakk kaffi og neytti af kökunum, hvað hann hefði hugsað sér að gera í einhverju tilteknu máli, mig minnir fyrir 1. des. Þetta mun hafa verið sá ágæti stjórnarþingmaður Alexander Stefánsson. Hæstv. forsrh. svaraði einhvern veginn á þessa lund: Ja, það er nú það. Hvað hefur hv. fyrirspyrjandi til málanna að leggja? — Þetta er samráðið hjá hæstv. ríkisstj.

Vorið 1978 var haldinn útifundur hér í Reykjavík að tilhlutan verkalýðshreyfingarinnar og þáv. stjórnarandstöðuflokka vegna þess að þáv. ríkisstj. hafði sett lög sem stórkostlega skertu kjarasamninga sem hún sjálf hafði skrifað upp á. Þá var hæstv. ráðh. Svavar Gestsson ritstjóri Þjóðviljans. Það væri greiði við hann og flokk hans að gefa honum leiðarann, sem hann skrifaði í Þjóðviljann, til lestrar í dag, vegna þess að þegar þessi mótmælaalda reis vorið 1978 var kaupmáttur taxtakaups undir hægri ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar meiri en hann er undir ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens með aðild Alþb.

Herra forseti. Afrek Alþb. í ríkisstj. og Framsfl. og Gunnars Thoroddsens eru þau, að kaupmátturinn fyrir síðustu kjarasamninga var minni en vorið 1978 undir íhaldsstjórn Geirs Hallgrímssonar. Það var verið að reyna að rétta þennan halla við með síðustu kjarasamningum, en Þjóðhagsstofnunin spáir því, að ef núv. ríkisstj. heldur áfram með sama aðgerðaleysinu og hún hefur viðhaft til þessa muni þeir samningar ekki leiða til annars en 5–6% kaupmáttarrýrnunar á næsta ári. Það er ekki ónýtt fyrir Alþb. að bera ábyrgð á þessu.