20.10.1981
Sameinað þing: 7. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

12. mál, smærri hlutafélög

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni að flytja till. til þál. um smærri hlutafélög, en ályktunin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa setningu sérlaga um smærri hlutafélög.“

Eins og kunnugt er eru um það bil 31/2 ár liðin síðan ný lög um hlutafélög voru sett hér á hinu háa Alþingi. Margir þeirra, sem um lögin hafa fjallað í ræðu og riti, telja setningu þeirra hafa markað mikið framfaraspor í íslenskri félaga- og atvinnulöggjöf. Ýmsum kann því að koma á óvart sú þáltill., sem hér liggur fyrir, og telja óþarft að hefja umræður um hlutafélagalögin svo skömmu eftir setningu þeirra. Til þess liggja þó veigamiklar ástæður að mati okkar flm.

Raddir hafa heyrst um að meiri hluti íslenskra hlutafélaga sé smá félög, bæði hvað varðar fjölda hluthafa og upphæð hlutafjár. Jafnframt er því haldið fram, að hömlur á hlutabréfaviðskiptum séu mjög algengar í þessum félögum og að hluthafar í einstökum félögum eða meiri hluti þeirra sé oft tengdur fjölskylduböndum, m. ö. o. sagt að félögin séu það sem kalla má — e. t. v. á vondu máli — „lokuð félög“. Í framhaldi af þessum fullyrðingum um stærð og lokun félaganna er sagt að hlutafélagalögin taki fyrst og fremst mið af stórum hlutafélögum, þar sem litlar hömlur eru lagðar á viðskipti hluthafa með hlutabréf, og þau séu þess vegna óheppileg fyrir hin smærri félög sem starfrækt eru hér á landi.

Í aths. við frv. til l. um ný hlutafélög, sem siðar varð að lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, er greint frá því, að þær athuganir, sem hafa verið gerðar, sýni að í meiri hluta íslenskra hlutafélaga sé hlutafé mjög litið og hluthafár raunar örfáir. Í aths. er einnig staðhæft að almenningur hafi ekki lagt fé sitt í hlutafélög, þ. e. kaupi ekki hlutabréf, og að hömlur á meðferð hlutabréfa séu algengar hjá félögum.

Í grg., sem fylgir þessari þáltill., er greint frá athugun sem gerð var hjá hlutafélagaskrá viðskrn. í byrjun þessa árs, en hlutafélagaskráin annast skráningu allra íslenskra hlutafélaga. Með athugun þessari var annars vegar ætlunin að grennslast fyrir um stærð íslenskra hlutafélaga með tilliti til upphæðar hlutafjár og fjölda hluthafa og hins vegar að kanna lokun félaganna. Náði athugunin til allra hlutafélaga sem voru stofnuð og skráð hjá hlutafélagaskrá árið 1980. Athugun þessi leiddi í ljós að mikill meiri hluti þeirra félaga, sem hún tók til, eru smá í sniðum. Bæði er að hluthafar eru fáir og hlutafé er mjög lítið. Enda þótt athugunin næði aðeins til félaga sem voru að hefja starfsemi er ýmislegt sem bendir til þess, að þeim sé ætlað að verða fremur smá. Má í því sambandi nefna að útboð á hlutafé fór sárasjaldan fram, en hlutafé er nær undantekningarlaust boðið út þegar ætlunin er að stofna almenningshlutafélög. Í langflestum félaganna var hlutafé háð eins miklum viðskiptahömlum og hlutafélagalögin leyfa, og mörg félaganna voru í eigu einnar og sömu fjölskyldu hvert um sig.

Þá er einnig eftirtektarvert að rúmur þriðjungur félaganna, sem athugunin náði til, virtist hafa verið stofnaður í þágu tveggja einstaklinga, en hlutafélagalögin krefjast þess, að hluthafar séu minnst fimm. Áttu þessir tveir venjulega 67–98% hlutafjár, en hinir hluthafarnir, sem undantekningarlítið voru í fjölskyldutengslum við þá fyrrnefndu, skiptu með sér afganginum. Má ætla að þátttaka hinna síðarnefndu hafi aðeins verið til málamynda, til þess gerð að fullnægja skilyrði hlutafélagalaganna um minnst 5 hluthafa.

Þegar þessar athuganir, sem ég hef nú getið um, eru skoðaðar í heild sinni má ætla að þær gefi sæmilega mynd af stærð íslenskra hlutafélaga og jafnframt því, að þau eru, eins og áður var getið um og ég nefndi að kalla megi á vondu máli, „lokuð félög“.

Ýmis ákvæði hlutafélagalaganna virðast ekki taka mið af þeim staðreyndum sem felast í niðurstöðum þessara athugana. Þessi ákvæði eiga að vísu vel við þegar stór félög eiga í hlut, og hið sama má reyndar segja um lögin í heild sinni. En þegar ákvæði eru látin ná til smærri félaganna verka þau íþyngjandi án þess að séð verði að þau stuðli að vernd hluthafa í þessum félögum, viðsemjenda þeirra eða opinberra hagsmuna. Hér er ekki um sérkenni á íslenskum hlutafélagalögum að ræða, heldur vanda sem er vel þekktur hjá flestum ríkjum Vestur-Evrópu. Mörg þessara ríkja hafa hins vegar leyst þetta mál með því að tvískipta hlutafélagalöggjöfinni. Hafa þá verið sett sérstök lög um stærri og opnari félögin og önnur um hin smærri og lokaðri. Á Norðurlöndum hafa Danir einir farið þessa leið, en Svíar munu nú hafa í hyggju að fylgja fordæmi þeirra.

Til skýringar þeirri staðhæfingu, að ýmis ákvæði laganna séu íþyngjandi fyrir smærri félög, skal ég nefna örfá dæmi.

Í fyrsta lagi gera lögin stjórnkerfi hlutafélaga þungt í vöfum. Hluthafafundir fara með æðsta ákvörðunarvald í félögunum, en þriggja manna félagsstjórnir fara með málefni þeirra á milli funda. Einnig er félagsstjórnum skylt að ráða framkvæmdastjóra ef hlutafé er 30 þús. nýkr. eða hærra. Þessari reglu þyrfti að breyta þegar smærri félög eiga í hlut. Til greina kæmi að heimila þessum félögum að hafa eins manns stjórn og mundi þá stjórnarmaðurinn einnig geta gegnt störfum framkvæmdastjóra. Þessi tilhögun gæti horft til einföldunar og einnig í sumum tilfellum til sparnaðar jafnframt. Því er hins vegar ekki að leyna, að breyting af þessu tagi getur aukið hættu á misferli þess er gegnir störfum stjórnarmanns; enda skortir hann aðhald viðlíka við það og fjölskyldustjórn leiðir til. Þessari hættu má þó bægja frá með því að veita hluthöfum aukinn rétt frá því, sem nú gildir samkv. hlutafélagalögum, til að krefja stjórnarmann upplýsinga um málefni félags. Mætti t. d. veita hluthöfum rétt til að krefjast upplýsinga utan hluthafafunda, sem mundi án efa veita stjórnarmanni mikið aðhald.

Í öðru lagi virðist krafa laganna um skyldu félaga til þess að gefa út hlutabréf vera óþörf þegar um smærri og lokuð félög er að ræða. Útgáfa hlutabréfa hefur fyrst og fremst gildi í stórum félögum með fjölda hluthafa þar sem litlar hömlur eru lagðar á viðskipti með hluti. Þau hafa því takmarkað gildi fyrir meiri hluta íslenskra hlutafélaga. Virðist hentugra að því er varðar smærri og lokuðu félögin að setja það í vald félagsstjórnar hvort gefin séu út sérstök vottorð um hlutafjáreign til nafngreindra hluthafa. Þessi vottorð lúta ekki viðskiptabréfsreglum líkt og hlutabréf.

Í þriðja lagi má slaka á ákvæðum laganna, er gilda um stofnun hlutafélaga, þegar um smærri félög er að ræða. Ákvæðin eru í raun og sannleika of mikið við það miðuð að almennt útboð á hlutabréfum fari fram við stofnun félags. Staðreyndin er hins vegar-sú, að oftast er það þröngur hópur sem stendur að stofnuninni, annaðhvort kunningjar eða fjölskylda, sem kærir sig ekkert um að einhver utanaðkomandi eigi kost á því að gerast hluthafi. Þegar félagið er lokað á þennan hátt ber ekki nauðsyn til þess að haldinn sé stofnfundur eða lögð fram öll þau gögn er nú er skylt að leggja fram samkv. hlutafélagalögum.

Í fjórða lagi má nefna ákvæði hlutafélagalaganna um varasjóð. Hlutafélögum er skylt að leggja í varasjóð minnst 1/10 hluta þess árságóða sem fer ekki til þess að jafna hugsanlegt tap fyrri ára og ekki er lagður í aðra lögbundna sjóði, uns varasjóðurinn nemur 1/10 hluta hlutafjárins. Þegar því marki er náð skulu framlög vera minnst 1/5 hluti þar til sjóðurinn nemur 1/4 hluta hlutafjárins. Skylda til að leggja í varasjóð er einkum hugsuð sem tryggingarráðstöfun og sem slík hefur hún fyrst gildi þegar hlutaféð er umtalsvert. Í smærri hlutafélögum skapar þessi skylda hins vegar ekki tryggingu sem hefur eitthvað að segja. Af þessari ástæðu mætti fella þessa skyldu niður hjá smærri hlutafélögum.

Í fimmta lagi virðist krafa hlutaféfagalaganna um, að hluthafar skuli fæstir vera fimm, vera óþarflega ströng þegar um smærri félög er að ræða. Að baki þessari kröfu býr sú hugsun að hluthafarnir veiti hver öðrum aðhald sem aftur á móti dragi úr líkum á ýmiss konar misferli innan félags er stefnt geti hagsmunum viðsemjenda þess í hættu. Þess er hins vegar að gæta, að samkv. hlutafélagalögum er það á valdi hluthafa að ákveða skiptingu hlutafjár. Þannig mælir ekkert gegn því í raun í félagi með fimm hluthafa að einn þeirra eigi 96% hlutafjár, en hinir fjórir 1% hver.

Í athuguninni, sem ég minntist á áðan og tekur til hlutafélaga, sem eru stofnuð og skráð 1980, kemur fram að í rúmum þriðjungi félaganna eiga tveir hluthafar meginhluta hlutafjár eða 67–98%. Þegar litið er til þess, hve þetta hlutfall er hátt, má búast við því að þessi skipting hlutafjár sé nokkuð algeng í íslenskum hlutafélögum. Það mælir eindregið með því að slakað sé á kröfunni um lágmarksfjölda hluthafa, þegar um smærri félög er að ræða, og heimila starfsemi félaga í hlutafélagaformi enda þótt hluthafar séu aðeins tveir til þrír. Það verður ekki stutt gildum rökum að minni hætta sé á misferli í félögum þar sem einn til tveir hluthafar eiga meginhluta hlutafjár, en þátttaka annarra, sem oft og tíðum eru úr fjölskyldum aðalhluthafanna, byggir á því að fullnægja formskilyrðum hlutafélagalaga. Einnig ber að hafa í huga að það, sem skiptir viðsemjendur sennilega meira máli en fjöldi hluthafa, er upphæð hlutafjár og verðmæti annarra félagseigna.

Þessi dæmi, sem ég hef nú nefnt, hljóta að skýra að nokkru leyti þá vankanta sem að mínum dómi eru á ákvæðum hlutafélagalaganna og snerta smærri og lokuð félög sérstaklega.

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi máls míns, að setning gildandi hlutafélagalaga hefði markað stór framfaraspor. Sú lagasmíð er á margan hátt mjög vönduð. Mín skoðun er þó sú, að gefa þurfi í ríkari mæli gaum sérstöðu hinna smærri hlutafélaga. Breytingar á hlutafélagalögunum í þá átt að þjóna betur minni hlutafélögum gætu að vísu gert þau ruglingsleg fyrir leikmenn og myndað réttaróvissu. Sú till. til þál., sem ég hef nú mælt fyrir, gerir ráð fyrir að hafinn verði undirbúningur að setningu sérlaga er henti betur smærri félögum.

Herra forseti. Ég legg til að till. verði vísað til nefndar að loknum þessum hluta umr.