07.12.1981
Neðri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

129. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um lokunartíma sölubúða, sem er 129. mál sem fyrir þessu þingi liggur.

Þetta er í rauninni að formi til mjög einfalt frv. 1. gr. þess hljóði svo: „Lokunartími sölubúða skal vera frjáls.“ Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að niður falli lög nr. 17/1936, um samþykktir um lokunartíma sölubúða, en í þeim lögum eins og þau þá voru samþykkt er gert ráð fyrir flóknum reglugerðarheimildum til handa sveitarstjórnum um það með hverjum hætti þessum málum skuli skipað í einstökum byggðarlögum. Það má raunar segja að að stofni til séu þessi lög raunar enn eldri eða frá 1917. Það var þá eða í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar sem sú skipan komst á, og þá fyrir beiðni frá kaupmannasamtökum, að Alþingi setti þau lög að heimila einstökum sveitarstjórnum að fara með þessi mál.

Eins og öllum er auðvitað kunnugt hafa mjög oft risið um það deilur í einstökum byggðarlögum hvernig með þessi mál skuli farið. Hins vegar er hægt að fara fljótt yfir sögu í þeim efnum. Á s. l. sumri urðu eina ferðina enn allmiklar deilur um það í Reykjavík, hvernig úr öllum þessum reglugerðum skyldi unnið. Bæði komu þar fram kröfur frá neytendum og eins virtist augljóst að það voru mismunandi sjónarmið uppi meðal kaupmanna um, hvernig þessum málum væri best fyrir komið, og einkum deilt um hvort verslanir mættu eða mættu ekki vera opnar á laugardögum.

Nú er það alveg ljóst, að síðan þessi lög voru sett, hvort sem við miðum við 1917 eða 1936, hafa orðið hér í verulegum atriðum grundvallarbreytingar. Í fyrsta lagi má segja að mjög verulegar breytingar hafi orðið með tilkomu stórmarkaða. Af deilum, sem orðið hafa opinberlega um þessi efni, er alveg ljóst að það eru skiptar skoðanir meðal kaupmanna sjálfra. Virðist manni í grófum dráttum að þær deilur séu svofelldar, að þeir, sem reki stærri verslanir, séu áfram um að hafa um þetta strangar reglugerðir, en hins vegar séu smærri kaupmenn, sem geta kannske eðli málsins samkvæmt auðveldar veitt þjónustu utan við hinn venjulega opnunartíma, sem er nánast á skrifstofutíma, meira áfram um að meira frelsi ríki í þessum efnum.

Það er augljóst að í vaxandi mæli eru það hagsmunir neytenda að meira frjálsræði ríki í þessum efnum. Ég hygg að þar komi fyrst til sú augljósa staðreynd, að það færist æ meir í vöxt, sem auðvitað er fullkomlega eðlliegt, að bæði hjóna vinni utan heimilis. Það er hluti af okkar þjóðfélagsveruleika, en fyrir vikið er augljóst að þegar svona háttar til á heimilum hefur fólk iðulega ekki aðstöðu til að versla á þeim tíma sem áður var venjulegur opnunar- eða lokunartími verslana. Þessar breyttu þjóðfélagsaðstæður kalla beinlínis á það fyrir æ fleiri neytendur, og þá kannske einkum þá neytendur sem yngri eru, vegna þess að það er á þeim aldursskeiðum sem þessar breytingar hafa átt sér stað, það eru beiniínis þarfir þessa fólks, að meiri sveigjanleiki og meira frjálsræði ríki í þessum efnum.

Í annan stað hefur verið spurt um hverjir séu hagsmunir starfsfólks í verslunum í þessum efnum. Þó svo það kunni að hafa verið mjög eðlilegt á árum áður að fólk, sem starfaði í verslunum, nyti sérstakrar lagaverndar, og slíkar voru röksemdir með þessum lögum þegar þau voru sett á sinni tíð, hefur feikilega margt breyst síðan. Ef t. d. tekið er mið af langsamlega stærsta hagsmunafélagi í þessum efnum, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, eru ekki nema 25 ár síðan það varð hreint launamannafélag.

Þegar öll þessi saga er skoðuð sýnist vera ástæðulaust að vernda þetta fólk eitt með lögum. Sýnist vera miklu heilbrigðara og eðlilegra að hagsmuna þessa fólks um vinnutíma sé ekki gætt með lögum og reg:ugerðum eins og verið hefur, heldur sé þeirra hagsmuna gætt í almennum kjarasamningum, eins og er auðvitað með flestar eða allar aðrar starfsgreinar. Þessi lög og síðan reglugerðir, sem fylgt hafa í kjölfarið í einstökum bæjarfélögum og eru til þess hugsuð að vernda hagsmuni starfsfólks, kunna að hafa átt við á sinni tíð áður fyrr, en virðast ekki eiga við lengur, enda er það svo, að auðvitað vinnur fjöldinn allur af slíku starfsfólki sína vinnu utan þessa venjulega vinnutíma, er ýmiss konar vaktavinnufólk sem afgreiðir í annars konar verslunum, söluturnum og öðru slíku.

Þá standa eftir hagsmunir hinna þriðju aðila sem nefna má, þ. e. hagsmunir kaupmanna og eigenda verslana.

Eins og ég þegar hef drepið á er augljóst að skoðanir eru skiptar á meðal þeirra, og í grófum dráttum hygg ég að segja megi að óskir um aukið frjálsræði og meiri sveigjanleika í þessum efnum hafi einkum komið frá smærri aðilum. Eins og þessi lög hafa verið úr garði gerð kváðu þau á um að afhenda valdið einstökum sveitarstjórnum. Nú er það svo, að það er misjafnt hvernig sveitarstjórnir hafa farið með það vald. Þetta er auðvitað alþekkt deiluefni hér í Reykjavík. Hins vegar hefur frjálsræði verið meira í nágrannabyggðarlögum. Menn þekkja það, að á laugardögum er t. d. straumur bifreiða úr Reykjavík yfir á Seltjarnarnes, þar sem menn hafa getað verslað á þeim tímum. Hins vegar hygg ég að bæði í Keflavík og í Vestmannaeyjum hafi sveitarstjórnir ekki nýtt sér heimildir til að setja slíkar reglugerðir. Eftir því sem ég best fæ séð ríkir um það bæði almennt samkomulag og almenn ánægja í þessum tveimur kaupstöðum, sem nefndir hafa verið, og mér vitanlega hefur ekki komið til neinna árekstra þar.

Það var raunar í bréfahólfi hér í morgun bréf frá Kaupmannasamtökum Íslands vegna þessa framlagða frv., sem hér er verið að mæla fyrir, og þar er greint frá fundi í fulltrúaráði Kaupmannasamtaka Íslands sem haldinn var hinn 3. des. s. l., þar sem þetta fulltrúaráð lýsir furðu sinni á fram komnu frv. til 1. varðandi lokunartíma sölubúða. Síðan er í þessu plaggi frumvarpinu lýst, en því harðlega mótmælt. En ástæður, sem fulltrúaráð Kaupmannasamtakanna gefur, eru a. m. k. fyrstar taldar þær, og ég vísa í þetta plagg, „að það fólk, sem vinnur verslunarstörf, eigi fullan rétt á að skynsamleg löggjöf sé í gildi um atvinnu þess“. M. ö. o.: Kaupmannasamtökin eru orðin sérstakur varnaraðili starfsfólks í verslun og eru þá væntanlega einu hagsmunirnir sem þeir eru að hugsa um í þessum efnum hagsmunir þess.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að mér þykir það furðuleg bíræfni af fulltrúaráði Kaupmannasamtaka Íslands að senda frá sér grg. af þessu tagi af þeirri einföldu ástæðu, að það er vitað af þeim deilum, sem risu s. l. sumar, þó ekki væri nema af fjölmiðlum til að mynda, að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta á meðal kaupmanna. Í annan stað geri ég fastlega ráð fyrir því og þykist vita það af nokkurri reynslu, að svo sé einnig á meðal starfsfólks sem við verslanir vinnur. Hér höfum við hins vegar séð mótmæli sem Kaupmannasamtökin hafa sent hingað við þessu frv. og bera fyrir sig hagsmuni starfsfólks í verslunum fyrst og fremst.

En kjarni þessa máls er að hér er um mjög gömul lög að ræða — lög sem sett voru fyrir beiðni kaupmanna á sinni tíð og raunar vel fyrir þann tíma sem starfsfólk í verslunum hafði skipulagt sig í félög og alla vega ekki í launþegafélög því að það gerist ekki fyrr en 1955. Það er sannfæring mín í sambandi við þetta mál, að það sé í grundvallaratriðum röng röksemdafærsla að þessi lög og þessar ströngu reglur, eins og þær hafa t. a. m. orðið hér í Reykjavík, séu settar eða yfir höfuð til þess hugsað að varðveita hagsmuni starfsfólks fyrst og fremst, enda vinnur fólk auðvitað alls konar störf utan við þennan tíma, í annars konar verslunum og í alls konar öðrum störfum. Mínar hugmyndir eru þær, að því valdi í raun og veru allt aðrar ástæður en hagsmunir starfsfólksins, enda eru þetta yfir höfuð að tala ekki lög sem vernda starfsfólk, a. m. k. ekki með þessum hætti, gegn óhóflegu vinnuálagi. Stíku er eðlilega miktu auðveldar og miklu betur fyrir komið í almennum kjarasamningum.

Verði opnunartíminn gefinn frjáls og verði þessi heimildarlög afnumin, eins og hér er lagt til, leggur það auðvitað auknar skyldur á herðar þeim verkalýðsfélögum, sem með samningsrétt fyrir þetta fólk fara, til þess að hagsmunir þess verði á engan hátt fyrir borð bornir. Eins hygg ég að eðlilegra yrði að allur grundvöllur samninga breyttist, t. a. m. í þá veru að samið yrði um hærri laun og betri kjör fyrir eftirvinnu, og ef einhverjir koma til með að vilja vinna slíka vinnu, eins og gengur, og aðrir ekki, þá er það auðvitað á færi einstaklinga þegar þar að kemur.

Ég hygg að það sé alveg ljóst, að hvað sem menn segja um sögu þessara laga, og þau hafa efalítið af mörgum ástæðum verið eðlileg þegar þau voru sett á sinni tíð, hafi hagsmunir allra aðila gerbreyst síðan. Í fyrsta lagi hefur þegar verið nefnt að það eru augljósir hagsmunir neytenda að frjálsræði sé aukið í þessum efnum, m. a. vegna þeirrar þróunar að það gerist æ algengara að báðir aðilar, t. a. m. bæði hjóna, vinni utan heimilis. Þarf eiginlega ekki að fara fleiri orðum um hversu augljósa hagsmuni neytenda hér er um að ræða. Í annan stað hafa þær breytingar orðið í sambandi við hagsmuni þess starfsfólks, sem við þetta vinnur, að síðan þessi lög voru sett hafa félög þeirra orðið hrein launþegafélög og ætti að vera fullkomlega treystandi til að fara með og vernda og verja hagsmuni síns fólks. En í þriðja lagi hafa orðið miklar breytingar á högum kaupmanna og eðli verslunar síðan þessi lög voru sett.

Af verslunum má segja að þær flokkast í tvo meginflokka: annars vegar eru það stórmarkaðirnir, hinar stærri verslanir, og hins vegar smákaupmennirnir, sem stundum eru kallaðir „kaupmaðurinn á horninu“. Það er auðvitað alveg ljóst, að nái þessar tillögur til lagabreytinga fram að ganga verða slíkar breytingar til að styrkja mjög verulega samkeppnisaðstöðu hinna smærri kaupmanna. T. d. eru víða í Reykjavík að hverfa verslanir sem gegna mjög mikilvægu þjónustuhlutverki hver á sínum stað.

Það er ljóst að mjög víða eru hinir smærri kaupmenn áfram um að þessar breytingar eigi sér stað. Þeir vilja fá að ráða því sjálfir hvort þeir hafi opið eitt eða tvö kvöld í viku. Ég ger ráð fyrir að þróunin verði sú, að fólk í hverfunum viti hvenær hverfisverslun þess er opin og með hverju hætti það er. Þessar verslanir gegna oft mjög mikilvægu hlutverki og þeirra hagsmunir eru augljósir í þessum efnum.

Síðan má almennt segja, að þó svo lög og afleiddar reglugerðir hafi verið eðlilegar á árum áður hefur það almennt breyst. Það eru augljósir hagsmunir neytenda, að slíkt frjálsræði sem hér er verið að leggja til eigi sér stað. Þegar af þeirri ástæðu ætti raunverulega fyrir löngu að vera búið að koma breytingu eins og þessari á.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.