15.12.1981
Neðri deild: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað málefnalega um þessi efni, og skil vel þau hvatningarorð sem féllu hjá talsmönnum af landsbyggðinni í sambandi við verðjöfnunarmál á orku almennt. Sannarlega er áhyggjuefni fyrir alla landsmenn sá mikli mismunur sem þar er á ferðinni varðandi upphitunarkostnað sérstaklega. En ég ætla ekki að taka það mál upp hér til umræðu frekar að þessu sinni.

En í sambandi við ábendingar frá hv. 5. þm. Suðurl. og fleirum, sem hér hafa talað varðandi prósentuálagninguna, þá er það alveg rétt, að það verkar undarlega í sambandi við álagningu gjalds sem þessa að þar skuli ekki vera komið við krónutöluálagningu. Þetta var auðvitað sérstaklega tilfinnanlegt á meðan verðmunurinn var langtum, langtum meiri en hann nú er, eða 80–90% fyrir þremur árum eða svo á almennum heimilistaxta. Þessi munur hefur nú minnkað svo að ekki munar meira en sem nemur 25% þar sem munur er mestur á þeim grunni sem verðjöfnunargjaldið er lagt á. Þessi prósentuálagning er því ekki jafntilfinnanleg og hún áður var. Þær athuganir, sem gerðar voru fyrir nokkru á vegum iðnrn. til að fá fram breytingu að þessu leyti, leiddu ekki til þess, að gerð yrði tillaga um krónutöluálagningu. Ástæðan var m. a. sú, að talið var af þeim aðilum, sem vel þekkja til gjaldskrármála, að það væri verulegum erfiðleikum bundið að koma slíkri fastri krónutöluálagningu við vegna taxtauppbyggingar, það leiddi fyrr en varði til breytinga milli taxta og væri erfitt að koma leiðréttingu við. Það varð sem sagt ekki úr að breyta þessu atriði.

Varðandi það sem fram kom hjá hv. 6. þm. Reykv. um batnandi hag Rafmagnsveitna ríkisins, þá er það út af fyrir sig rétt, að verulega hefur ræst úr frá því sem áður var, þegar nánast varð ekki séð til botns í þeim erfiðleikum sem Rafmagnsveiturnar áttu við að stríða fjárhagslega. Auðvitað hefur þar komið til að olíukeyrsla hefur minnkað stórlega og er nánast úr sögunni nema þá sem varaafl. Þrátt fyrir þetta er fjárhagsstaða Rafmagnsveitnanna ekki betri en svo, að í ár er gert ráð fyrir um 20 millj. kr. rekstrarhalla hjá fyrirtækinu og 8 millj. kr. rekstrarhalla hjá Orkubúi Vestfjarða þrátt fyrir verðjöfnunargjaldið. Því miður eru þessi fyrirtæki ekki þannig stödd að fært sé að hverfa frá þessari skattlagningu enn sem komið er. En ég ítreka að það er mitt sjónarmið að það þurfi að fara ofan í verðlagningarmál raforkunnar skilmerkilega og það fyrr en seinna.

Ég hef nýlega átt fund með stjórn Sambands ísl. rafveitna, SÍR, þar sem þessi mál voru rædd. Niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú, að helstu raforkufyrirtækin í landinu ásamt stjórn SÍR legðu saman í að greina þá kostnaðarþætti sem liggja að baki framleiðslu raforku í landinu, reyndu að búa þar til sem heildstæðast módel, ef svo má að orði komast, þannig að tiltölulega auðvelt sé að sjá hvaða áhrif mismunandi aðgerðir hafa í þessu sambandi. Það er mjög knýjandi að fá slíkan grunn á að byggja til þess að geta leitað svara við mismunandi aðgerðum, þ. á m. varðandi skattlagningu á raforkuverð.

Varðandi þá ábendingu, sem fram kom hjá hv. 6. þm. Reykv., að það væri ekki gott ef verðjöfnunargjaldið yrði til þess að stjórnvöld héldu svo niðri taxta einstakra rafveitna að þær væru í svelti, og vitnaði til Rafmagnsveitu Reykjavíkur í því sambandi, þá er ég honum alveg sammála um þetta atriði. Það gengur auðvitað ekki að ætla að kný ja rafveitur, sem eru með tiltölulega hagstæðan rekstur af ýmsum ástæðum, eins og ekki þarf að fjölyrða um hér í þéttbýlinu, þar sem markaðurinn er tiltölulega hagstæður, knýja þær til þess að fara að taka jafnvel erlend lán til þess að standa undir rekstrarþáttum með eðlilegu viðhaldi. Ég er síður en svo talsmaður þess, að þannig sé staðið að verðlagningarmálum á orku í landinu. Ég held að það sé kominn tími til að þessi mál séu tekin til athugunar og úrlausnar svo að hægt sé að fá fram tiltölulega róttækar breytingar til þess að raforkuiðnaðurinn og þau fyrirtæki, sem þar starfa og undir raforkuframleiðslu og dreifingunni standa, geti borið sig með viðunandi hætti, lagt eðlilegan hluta af eigin fjármagni í sínar framkvæmdir, og jafnhliða að sjálfsögðu að tryggð sé eðlileg jöfnun á milli þegna landsins um þessar grundvallarnauðsynjar í daglegu lífi og atvinnurekstri.