18.12.1981
Neðri deild: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það, sem veldur því að ég stend upp nú, eru þau orð hæstv. iðnrh. hér úr ræðustól í hv. deild áðan, að hann ber það á okkur stjórnarandstöðuþm. að við séum að sá frækornum úlfúðar í þingsölum. Væntanlega á hann við þær umr. sem hafa orðið undanfarna daga. Þær hafa ekki verið að ófyrirsynju. Þegar höfð eru í huga þau vandamál, sem við horfum á að fram undan eru um næstu áramót, er vert á að minnast að þrír hæstv. ráðherrar hafa verið með sitt hvora lausnina á þessum vanda, bæði innan þings og reyndar í því sem sum stjórnarstuðningsblöðin hafa kallað „blaðrið utan þings“. Þannig má segja að hæstv. félmrh. vilji leysa sjómannadeiluna með því að fella niður olíugjaldið. Hæstv. forsrh. leitar að lausn sem er einhvers staðar annars staðar en í hækkun fiskverðs eða þá með því að búa til mörg fiskverð. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir, að hann vilji fara gengislækkunarleið. Rétt í því, að hæstv. iðnrh. ber það á okkur að við séum að sá fræi úlfúðar í þingsölum, stendur upp einn stjórnarstuðningsþm., hv. 6. þm. Suðurl., Eggert Haukdal, og tekur heldur betur undir ráðh. — eða fannst hv. þm. það? Ónei. Hann sagði að það væri sjálfur hæstv. ráðh. sem hvað mest hjálpaði stjórnarandstöðunni hér innan þingsala og að vinstri hönd hans vissi ekki hvað sú hægri gerði. Hv. þm. Eggert Haukdal benti einnig á ræðu sem flutt var af flokksbróður hæstv. ráðh. hér í deildinni fyrir nokkrum kvöldum. Ekki var stjórnarandstaðan þá að sá fræjum úlfúðar og tortryggni á milli þm. eða hæstv. ríkisstj. Auðvitað munu lengi verða í minnum höfð hér í þingsölum þau orð hv. þm. Eggerts Haukdals, sem hann viðhafði um þennan ráðh. sinn, sem hann studdi til valda og styður enn í valdastól, að það mundi verða mikið bál, en það mundi ekki veita mikinn varma, ef tendrað væri bál í öllum þeim möppum sem ráðh. væri búinn að safna að sér. Það mætti ætla að samkv. þessu væru þessir tveir þm., hv. þm. Garðar Sigurðsson og hv. þm. Eggert Haukdal, komnir í stjórnarandstöðu. Það má vel vera að það séu fleiri. Fer þá að vænkast hagur strympu og fer að verða álitamál hvort ekki sé orðið tímabært að flytja hér vantrauststillögu ef hæstv. ríkisstj. er komin í minni hl. hér í hv. deild.

Ég fæ ekki séð að hæstv. forsrh. hafi í einu eða neinu svarað fsp. hv. þm. Eggerts Haukdals sem hann bar fram við hæstv. iðnrh. Lagði hæstv. iðnrh. þetta bréf fyrir ríkisstj. áður en hann sendi það þangað sem það fór? Það var meginspurning hv. þm. Eggerts Haukdals. Það kemur ekkert svar fram við því enn þá. Er hæstv. iðnrh. enn þá út og suður í öllum sínum aðgerðum, eins og hans eigin stuðningsmaður bar á hann hér í ræðustól áðan? Sigurður Óskarsson: Herra forseti. Hæstv. forsrh. gaf í skyn í ræðu sinni áðan að fsp. þessi væri fyrst og fremst byggð á frétt Morgunblaðsins. Það er alveg rétt. Morgunblaðsfréttin er upphaf þess að fsp. kemur fram. En að sjálfsögðu skal ég upplýsa að ég hef í fórum mínum bæði þau bréf, sem hér hafa komið til umr., og eins hef ég í morgun og áður en ég lagði fram þessa fsp. kynnt mér hver voru viðbrögð þeirrar stofnunar sem fékk bréf iðnrn. sem dags. er 16. þ. m.

Nú hefur hv. þd. hlýtt á boðskap hæstv. iðnrh. um þetta mál. Það kemur mér ekki á óvart að í svarræðu sinni reyndi hann að breiða yfir bollaleggingar um frestun framkvæmda við Sultartanga. Það er alveg ljóst, eins og reyndar hv. alþm. Birgir Ísl. Gunnarsson kom hér inn á, að í bréfi iðnrn. eru áherslur með ólíkindum. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Ráðuneytið telur nauðsynlegt að tryggja sem best rekstraröryggi og raforkuframboð í landskerfinu á næstu árum og óskar eftir mati Landsvirkjunar á orkuþörf á árunum 1982–1984 í ljósi ofangreindra viðhorfa.“

Það, sem hér er að gerast, er einfaldlega það, að með tregðu til ákvarðana um hvers konar stóriðjuframkvæmdir hefur hæstv. ríkisstj. undir leiðsögn hæstv. iðnrh. í þessum málum tekist að koma í veg fyrir ákvarðanir um byggingu orkufrekra fyrirtækja eða stækkun þeirra sem fyrir eru. Að því loknu og við þær aðstæður sem ríkja virðist bollalagt um að fresta framkvæmdum við Sultartanga um a. m. k. eitt ár og til að sýna í bréfinu tilburði varðandi öryggisatriði þessara framkvæmda er á þau minnst lítillega og gersamlega samhengislaust við aðalatriði þessa bréfs.

Hæstv. iðnrh. virðist aukaatriði að tryggja öryggi Búrfellsvirkjunar og notenda á orkuveitusvæði Landsvirkjunar og hæstv. iðnrh. er algert aukaatriði það fólk sem treystir á atvinnu við framkvæmdir við Sultartangastíflu. Á þetta fólk eða vanda þess er ekki einu orði minnst í bréfi frá hv. iðnrh. Hin félagslega hlið þessa máls er ekki skoðuð. Vandamál sunnlenska vinnumarkaðarins og lífsafkoma hundraða verkamanna eru léttvæg fundin á taflborði þeirra sem hér ráða ferðinni. Allt tal hæstv. iðnrh. um verkefni til handa sunnlensku virkjunarfólki næsta sumar virðist hafa orðið til gegn betri vitund.

Hér er nú verið að bollaleggja um frestun Sultartangastíflu og leitað með logandi ljósi, að því er virðist, að frambærilegum ástæðum til þess. Ég skora á alla þm. Suðurl. að stöðva þær hugmyndir sem virðast vera uppi um að framlengja atvinnuleysi sunnlenskra verkamanna sem nú bíða heima eftir því að þessar framkvæmdir hefjist næsta vor, og ég skora einnig á aðra þm., sem eru umbjóðendur þess fólks sem á að búa við orku frá orkuveitusvæði Landsvirkjunar. Þetta fólk er ekki öruggt með starfsemi sína og heimili sín fyrr en þessi framkvæmd hefur átt sér stað.

Herra forseti. Ég vil að lokum vekja athygli á því, að fsp. hv. þm. Eggerts Haukdals varðandi það, hvort ríkisstj. beri í heild ábyrgð á þessu bréfi eða hvort þetta er „prívat“-framkvæmd iðnrn., hefur ekki verið svarað.