25.01.1982
Neðri deild: 33. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

172. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa.

Samkv. þeim lögum sem féllu úr gildi um síðustu áramót, var olíugjald til fiskiskipa 7.5% miðað við fiskverð. Frv. þetta um framlengingu olíugjalds sem 7% er flutt í fullu samráði við alla hagsmunaaðila. Reyndar var slíkt olíugjald á þessu ári forsenda fyrir því fiskverði sem ákveðið var nú fyrir skömmu með atkv. allra aðila í yfirnefnd Verðlagsráðs. Olíugjaldið var mjög til umræðu í þessu sambandi öllu, og reyndar var það ein meginkrafa sjómanna í upphafi viðræðnanna um fiskverð, að olíugjaldið yrði fellt niður. Í þeim samningaviðræðum, sem síðan fóru fram á milli sjómanna og útgerðarmanna um svipað leyti og fiskverð var til ákvörðunar, varð niðurstaðan að útgerðarmenn settu sem fyrirvara fyrir samþykki sínu á kjarasamningum að olíugjald yrði óbreytt þetta ár, og féllust sjómenn á það.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég undirstrika það, sem ég hef sagt í þessum orðum mínum, að þetta frv. er flutt að ósk þeirra hagsmunaaðila, sem hlut eiga að máli, og sem liður í bæði þeim kjarasamningum, sem gerðir hafa verið á milli sjómanna og útgerðarmanna, og einnig sem forsenda fyrir því fiskverði sem ákveðið hefur verið.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að mælast til þess, að frv. þessu verði eftir þessa umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.