26.01.1982
Sameinað þing: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

341. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur rakið efnislega þá þáltill. sem hann byggir á fsp. sína um hvað líði framkvæmd á ályktun Alþingis frá 26. mars 1981 um viðgerðarkostnað vegna alkalískemmda á steinsteypu í húsum.

Þál. sú, sem hér um ræðir, var send frá Alþingi til félmrn. á s. l. sumri, en ekki til iðnrn. Félmrn. virðist ekki hafa talið framkvæmd þessarar þál. í sínum verkahring og mun ekki hafa aðhafst sérstakt í málinu. Upplýstist þetta ekki fyrr en eftir að fsp. þessi kom fram og ég tók að grennslast fyrir um þessa þáltill. og afdrif hennar. Hluti af þál. varðar þó iðnrn. og kannaði ég hvernig þessum málum væri háttað hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, en fyrri hluti þál. fjallar um að skora á Alþingi að sjá til þess, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði gert kleift að framkvæma nauðsynlega könnun á því, hvernig best verði staðið að viðgerðum á alkalískemmdum á steinsteypu í húsum.

Við undirbúning og setningu fjárl. fyrir yfirstandandi ár hefur það verkefni Rannsóknastofnunarinnar að framkvæma könnun þá, sem þál. fjallar um, notið verulegs forgangs. Þannig hefur m. a. fengist samþykki fyrir stöðu sérfræðings til viðbótar í steinsteypudeild stofnunarinnar. Auk þess hefur Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins fengið styrk frá Norræna iðnaðarsjóðnum til rannsókna á alkalískemmdum og verða þær unnar í samvinnu við finnska rannsóknastofnun. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur gefið rn. eftirfarandi upplýsingar um stöðu málsins eins og það horfir við frá sjónarhól stofnunarinnar.

Tekist hefur að fjármagna allviðamikið verkefni varðandi viðgerðir á alkalískemmdum í steyptum húsum. Hefur verið unnið að þessu verkefni við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins samkv. áætlun sem gerð var í upphafi árs 1981. Viðgerðir á húshlutum hafa verið framkvæmdar með þeim aðferðum sem taldar eru koma til greina, auk þess sem fylgst er með fjölda húsa sem ráðist hefur verið í endurbætur á að frumkvæði eigenda. Ítarleg áfangaskýrsla um þessar rannsóknir er væntanleg fyrir lok þessa mánaðar eða þegar í þessari viku og mun henni verða dreift til aðila sem um þessi mál fjalla.

Í umræddri þáltill. var, þegar hún var lögð fram, vitnað í rit frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins sem ber nafnið „Steypuskemmdir — ástandskönnun varðandi tíðni alkalískemmda“. Vegna þess að langur tími getur liðið þar til alkalískemmdir verða sýnilegar í steinsteypu má búast við að slíkar skemmdir komi með tímanum fram í ríkari mæli. Vegna þessa var ákveðið að fylgjast reglulega með ástandi þeirra húsa sem skoðuð voru í fyrri könnun, auk þess sem hús byggð 1972–1979 yrðu einnig könnuð, en fyrri skoðun náði ekki til þeirra. Framangreind endurskoðun var framkvæmd af Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins á s. l. sumri og skýrsla þar að lútandi gefin út s. l. haust. í henni kemur fram að tíðni þessara skemmda í Reykjavík og nágrenni er verulega meiri en hún reyndist vera við fyrri könnun sem þegar er búið að gera grein fyrir í skýrslu.

Varðandi viðgerðarkostnað tekur endurkönnunin á tíðni skemmda á Reykjavíkursvæðinu einnig til þess þáttar. Jafnframt hefur heilsteyptari mynd náðst af útbreiðslu alkalískemmda annars staðar á landinu. Þessar athuganir ásamt áfangaskýrslunni um viðgerðaraðferðir skapa grundvöll til að meta hver gæti orðið heildarviðgerðarkostnaður í sambandi við alkalískemmdir. Niðurstöður athugana Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins hljóta einnig að verða undirstaða við setningu reglna um fjárhagsaðstoð og við mat á viðgerðarkostnaði vegna alkalískemmda í steinsteyptum húsum.

Hvað varðar síðari lið till., þar sem Alþingi skorar á ríkisstj. að hún skipi nefnd sem hafi það verkefni að kanna með hverjum hætti best verði komið fyrir fjárhagsaðstoð við þá húseigendur sem leggja þurfa í mikinn viðgerðarkostnað vegna alkalískemmda á steinsteypu í húsum sínum, þá hefur það mál ekki verið tekið sérstaklega fyrir í ríkisstj., en mun verða lagt fyrir hana á næstunni. Hef ég rætt það sérstaklega við hæstv. félmrh., sem hlýtur að koma að því máli og sú stofnun sem undir hans ráðuneyti heyrir, Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég teldi raunar ekki óeðlilegt að fela húsnæðismálastjórn að leggja á ráðin um umrædda fjárhagsaðstoð, enda verður slík fjárhagsaðstoð væntanlega veitt úr húsnæðislánakerfinu. Húsnæðismálastjórn hefur áður haft afskipti af þessum málum, m. a. varðandi fjárveitingu til að kanna alkalískemmdir, og hafði um það samráð við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, eins og áður hefur verið getið.

Herra forseti. Í þessari fsp. er vikið að stóru máli, hagsmunamáli margra, og ég tel að það efni, sem þar er að vikið, og efni þál. frá Alþingi á s. l. vetri séu fyllilega tímabær ábending og að þessum málum þurfi að vinna vei. Sú könnun, sem fram hefur farið og niðurstöður liggja fyrir um senn, á að veita góðan möguleika á að taka megi áfram á málinu.