02.02.1982
Sameinað þing: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

346. mál, raforkuverð til fjarvarmaveitna

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 124 leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hver er stefna ríkisstj. varðandi raforkuverð til fyrirhugaðra fjarvarmaveitna í þéttbýlisstöðum á norðanverðu Snæfellsnesi?“ .

Nú er þess að geta, herra forseti, að fsp. samhljóða þessari lagði ég fram hér í fyrra. Í svörum hæstv. iðnrh. kom þá fram, hann sagði með leyfi forseta:

„Ráðuneytið mun stuðla að því, að unnt verði að móta stefnu um húshitunarmál á þessum stöðum hið fyrsta, og hafa um það samvinnu við viðkomandi aðila, þ. e. sveitarstjórnir og Rafmagnsveitur ríkisins.“

Því er nú þessi fsp. borin fram að nýju, að mér vitanlega hefur næsta lítið og nánast ekkert gerst í þessu máli frá því að þessari fsp. var svarað í fyrra. Það hefur þó gerst að borað hefur verið eftir heitu vatni, leitað að heitu vatni á Snæfellsnesi norðanverðu, að vísu ekki með þeim árangri sem menn höfðu vonast eftir, en þó með þeim árangri, að ýmsum spurningum er enn ósvarað og gerast þær áleitnar, t. d. varðandi borun í Grundarfirði hvers vegna svo hár hitastigull mælist þar sem raun ber vitni. Við því hafa vísindamenn ekki svar og verður að kanna frekar.

Hins vegar er þess að gæta, að brýnt er að móta stefnu í þessum málum. Það virðist því miður svo, ef á heildina er litið, að ekki sé óhætt að binda verulegar vonir við að leit að jarðhita þarna muni bera jákvæðan árangur a. m. k. í allra næstu framtíð. Þess vegna er auðvitað brýnt fyrir íbúa þessara staða, sem margir hverjir verða að una afar háum hitunarkostnaði, margföldum á við það sem menn hér sunnanlands búa við, að teknar verði ákvarðanir um með hverjum hætti skuli hagað framtíðarhitun húsa á þessum stöðum. Það er ekki aðeins brýnt fyrir íbúana, heldur og ekki síður er það brýnt fyrir þessi bæjarfélög sem verða að bíða með margvíslegar framkvæmdir m. a. vegna þess að ekki er ljóst hvort ráðist verður í að leggja vatnskerfi þar í götur eða hvort notuð verður bein rafhitun með einhverjum hætti. Þetta hefur tafið framkvæmdir við gatnagerð t. d. í Grundarfirði, þar sem menn hafa nú beðið í tvö ár með mjög brýnar framkvæmdir, og þetta á sömuleiðis við um önnur byggðarlög á norðanverðu Snæfellsnesi. Þar hefur hikið í þessum málum haft þetta í för með sér.

Það er auðvitað góðra gjalda vert að mál séu athuguð, en ýmsum þykir að hlutfallið milli athugana og ákvarðana hjá hæstv. iðnrh. mætti breytast svolítið hinu síðarnefnda í hag.