04.02.1982
Sameinað þing: 48. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

146. mál, nafngiftir fyrirtækja

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Mér er kunnugt um vinnu og umr. sem hafa átt sér stað í allshn. Nd. varðandi þetta sérstaka atriði, og mér finnst það ákaflega eðlilegt og raunar sjálfsagt og ánægjulegt ef nefndin beitir sér fyrir því að flytja frv. um þetta atriði. Ég boðaði hins vegar endurskoðun, en þar átti ég við lögin um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, en það er ein grein í þeim lögum, 8. gr., sem fjallar sérstaklega um þetta afmarkaða mál. Það er öðrum þræði með tilliti til þessarar vitneskju sem ég hef ekki hugsað mér að flytja sérfrv. um þessi atriði.

Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um eru ákveðin fyrirtæki sem eru rekin undir erlendum nöfnum, en þau eru skráð undir ágætum íslenskum nöfnum sem hlutafélög, þ. e. Álfabakki 8 h/f og Borgarholt h/f. Það gefur auga leið að það er þörf á skýrari ákvæðum í þessum efnum en nú er að finna í lögum. Það væri auðvitað hægt að hugsa sér það að það væri gengið beint til verks og menn gerðu tilraun til að breyta þessu með valdi. En ég hef ekki trú á að það mundi breyta miklu í munni og högum almennings úr því sem komið er. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé sjálfsagt að endurskoða þessi lagaákvæði sérstaklega, og vegna þess að ég veit að málið hefur verið til meðferðar í allshn. er eðlilegt að fsp. komi fram. Meðan ég veit að það er í þeim góðu höndum sé ég ekki ástæðu til að flytja sérstakt frv. um málið.